Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Ákvörðun til bráðabirgða: Meint brot Símans hf. á markaði fyrir farsímasþjónustu

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 2/2010
 • Dagsetning: 8/2/2010
 • Fyrirtæki:
  • Síminn hf.
  • Nova ehf.
 • Atvinnuvegir:
  • Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
  • Farsímanet (grunnet og þjónusta)
 • Málefni:
  • Markaðsyfirráð
 • Reifun

  “Samkeppniseftirlitið birtir í dag ákvörðun til bráðabirgða vegna aðgerða Símans á farsímamarkaði.

  Þann 21. apríl sl. framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Skiptum hf., Símanum hf., Mílu ehf. og Tæknivörum ehf. Til rannsóknar er m.a. hvort Síminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sínu með samkeppnishamlandi aðgerðum sem einkum beindust gegn Nova.

  Gögn sem fundust í húsleitinni hafa leitt til þess að Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið ákvörðun til bráðabirgða. Í 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga kemur fram að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða um einstök mál ef: „...sennilegt þykir að sú háttsemi eða þær aðstæður sem til athugunar eru fari gegn ákvæðum samkeppnislag ...“. Einnig er það skilyrði að málið þoli ekki bið. Í slíkum ákvörðunum er því ekki lagt endanlegt mat á hvort um ólögmætar aðgerðir sé að ræða. Málið er áfram til rannsóknar og verður tekin lokaákvörðun í því þegar henni lýkur.

  Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er komist að þeirri niðurstöðu að sennilegt sé að Síminn gripið til umfangsmikilla ólögmætra aðgerða sem miðuðu að því að ná verðmætum viðskiptavinum frá Nova með sértækum verðlækkunum og óeðlilegri notkun á trúnaðarupplýsingum um símnotkun viðskiptavina Nova. Útbjó Síminn lista sem hafa að geyma sundurgreinanlegar upplýsingar um mörg þúsund viðskiptavina Nova. Geyma umræddir listar ekki aðeins upplýsingar um símanúmer og nöfn viðkomandi viðskiptavina Nova heldur jafnframt kennitölur, heimilsfang og í mörgum tilvikum starfsheiti þeirra. Auk þess koma fram upplýsingar um fjölda símtala hvers og eins, lengd í mínútum eða sekúndum og lengd meðalsímtals. Á grundvelli þessara upplýsinga gat Síminn beitt sér gagnvart mikilvægum viðskiptavinum Nova. Er talið í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til bráðabirgða að sennilegt sé að um sé að ræða misnotkun Símans á markaðsráðandi stöðu sinni og brot á 11. gr. samkeppnislaga.”