Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Úrskurðir áfrýjunarnefndar

Samskip hf. gegn Samkeppniseftirlitinu

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 1/2021
 • Dagsetning: 3/12/2021
 • Fyrirtæki:
  • Samskip hf.
 • Atvinnuvegir:
  • Samgöngur og ferðamál
  • Sjóflutningur
  • Landflutningar
 • Málefni:
  • Ólögmætt samráð
 • Reifun

  Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar ætlað ólögmætt samráð Samskipa við Eimskip. Þætti Eimskips lauk 16. júní sl. þegar fyrirtækið undirritaði sátt við Samkeppniseftirlitið en í henni felst meðal annars að Eimskip viðurkennir alvarleg brot gegn samkeppnislögum og greiðir stjórnvaldssekt. 

  Í sáttinni felst einnig að Eimskip skuldbindur sig til að grípa til aðgerða til að vinna gegn frekari brotum og efla samkeppni, samanber 3. grein sáttarinnar. Í 3. málsgrein 3. greinar sáttarinnar kemur fram að Eimskip skuldbindur sig til að hætta öllu viðskiptalegu samstarfi við Samskip. Í þessu felst jafnframt að Eimskip skuldbindur sig til að eiga ekki í samstarfi við önnur fyrirtæki í hvers konar flutningaþjónustu ef Samskip eiga einnig í samstarfi við viðkomandi fyrirtæki. Þetta gildir ekki ef Eimskip getur sýnt Samkeppniseftirlitinu fram á að eðli viðkomandi samstarfs sé með þeim hætti að ekki sé hætta á röskun á samkeppni milli Eimskips og Samskipa.

  Í kjölfar sáttar Eimskips beindu Samskip kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem fyrirtækið krafðist þess að 3. málsgrein 3. greinar sáttarinnar við Eimskip yrði felld úr gildi. Töldu Samskip meðal annars að Samkeppniseftirlitið hefði brotið gegn meginreglum stjórnsýslulaga um andmælarétt, meðalhóf og jafnræði með fyrrgreindum fyrirmælum sáttarinnar. Í kæru sinni til áfrýjunarnefndarinnar kváðu Samskip fyrirmælin fela í sér ólögmæta takmörkun á samnings- og atvinnufrelsi fyrirtækisins sem styrkti markaðsráðandi stöðu Eimskips en veikti stöðu Samskipa. Fyrir áfrýjunarnefndinni krafðist Samkeppniseftirlitið þess að kæru Samskipa yrði vísað frá. Jafnframt rökstuddi eftirlitið að umrædd skuldbinding Eimskips væri bæði lögmæt og nauðsynleg í ljósi þeirra alvarlegu brota gegn samkeppnislögum sem Eimskip hefði viðurkennt.

  Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 2. desember 2021 var kæru Samskipa vísað frá nefndinni. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar kemur fram að „sá sem gerir sátt í máli [hafi] forræðið á því að undirgangast skilyrði og stjórnvaldssekt til að koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni og þá með hans eigin hagsmuni að leiðarljósi. Eðli málsins samkvæmt hefur slík sátt alla jafnan í för með sér takmörkun á samstarfi þeirra aðila sem sætt hafa rannsókn í máli vegna ólögmæts samráðs.“ Samskip höfðu ekki átt rétt á því að koma að gerð sáttarinnar við Eimskip og geti ekki borið umrætt ákvæði sáttarinnar undir áfrýjunarnefndina. Í þessu sambandi var tekið fram að þætti Samskipa væri enn ólokið. Taldi áfrýjunarnefnd því óhjákvæmilegt að vísa kæru Samskipa frá nefndinni.

Tengt efni

Fréttir og tilkynningar