Samkeppni Logo

Aðgangshindranir

31. október 2025
snowcap mountain

Það fylgir því venjulega einhver kostnaður og fyrirhöfn
fyrir fyrirtæki að hefja starfsemi á nýjum markaði. Þær hindranir sem
fyrirtækin þurfa að yfirstíga til að geta starfað á mörkuðum sem þau hafa ekki
starfað á áður eru oft nefndar aðgangshindranir (e. barriers to entry). Sú
skilgreining fræðimanna á aðgangshindrunum sem margir hagfræðingar virðast geta
sammælst um er höfð eftir George Stigler (1911 – 1991), sem kenndur er við
svonefnda Chicago-hagfræði og fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1982.
Skilgreining Stiglers á aðgangshindrunum var á þann veg að þær fælust í
„þeim framleiðslukostnaði sem fyrirtæki sem vilja komast inn á markað
þurfa að bera umfram þau fyrirtæki sem eru starfandi fyrir á markaðinum.“
Til eru ýmsar aðrar skilgreiningar á aðgangshindrunum, til dæmis sú, að
aðgangshindrun sé allt það, sem gerir fyrirtækjum sem starfa á markaði kleift
að hafa óvenju mikinn hagnað af rekstri sínum án þess að þurfa að óttast að ný
fyrirtæki komi inn á markaðinn. Þá er einnig til sú skilgreining að
aðgangshindrun sé allt það sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki komi inn á nýjan
markað, þegar sú innkoma eykur þjóðhagslega velferð.

Ef engar aðgangshindranir eru til staðar á markaði þá er
viðbúið að ný fyrirtæki komi og hefji starfsemi á honum um leið og
hagnaðartækifæri gefast á honum. Þetta hefur þá afleiðingu að slíkur markaður
getur verið skilvirkari en markaðir sem hafa aðgangshindranir.  Ýmsar
gerðir aðgangshindrana eru einkenni margvíslegra markaða og umtalsverður tími
samkeppnieftirlita víða um heim fer í að reyna að minnka, eða fjarlægja, þær
aðgangshindranir sem eru til staðar til að auka skilvirkni þeirra.  

Þrír flokkar aðgangshindrana

Samkeppnisyfirvöld víða um heim líta almennt á þrjár
tegundir aðgangshindrana í rannsóknum sínum sem gjarna er skipt niður í
eftirtalda flokka eftir eðli þeirra:

  1. Náttúrulegar
    aðgangshindranir
  2. Hindranir
    sem stafa af lögum og reglugerðum
  3. Hindranir
    vegna hegðunar þeirra fyrirtækja sem starfa á markaðnum

Til náttúrulegra aðgangshindrana telst t.d. sokkinn
kostnaður. Sokkinn kostnaður telst vera sá kostnaður sem ekki er hægt að
endurheimta ef fyrirtæki sem hefur hafið starfsemi ákveður að hætta starfsemi.
Í atvinnugreinum þar sem mikil stærðarhagkvæmni er til staðar getur sú
staðreynd ein og sér falið í sér aðgangshindrun þar sem fyrirtæki þurfa þá í
flestum tilvikum að ná ákveðinni lágmarksstærð til þess að geta framleitt
viðkomandi vöru með hagkvæmum hætti.

Lög og reglugerðir geta í mörgum tilfellum stuðlað að
jákvæðum ytri áhrifum, t.d. verndun umhverfisins eða verndun
fjármálastöðugleika, en geta einnig falið í sér ákveðnar aðgangshindranir. Sem
dæmi má nefna að í mörgum tilfellum þurfa fyrirtæki að hafa ákveðin leyfi til
þess að geta stundað starfsemi sína. Ef fjöldi leyfa er takmarkaður og
viðskipti með þau eru ekki stunduð á frjálsum markaði getur verið erfitt fyrir
nýtt fyrirtæki að koma inn á markaðinn.

Loks getur hegðun fyrirtækja er starfa á markaðnum virkað
sem aðgangshindrun. Þau geta gert innkomu nýrra aðila óaðlaðandi með því til
dæmis að fjárfesta í umframafkastagetu. Þau geta í sumum tilvikum líka búið svo
um hnútana að það verði ekki aðlaðandi fyrir viðskiptavini þeirra að færa
viðskipti sín annað. Dæmi um slíkt er notkun svonefndra tryggðarafslátta.

Aðgerðir til þess að minnka aðgangshindranir

Við meðferð mála hjá Samkeppniseftirlitinu er ávallt horft
til þess hvaða aðgangshindranir eru til staðar á þeim markaði sem er til
skoðunar hverju sinni og reynt að meta hvort unnt sé að draga úr, eða fjarlægja
þessar aðgangshindranir. Þegar aðgangshindranir stafa af lögum, reglugerðum eða
aðgerðum opinberra aðila getur stofnunin beitt sér fyrir því, t.d. með útgáfu
álita, að dregið verði úr hindrununum, t.d. með breytingu á lögum. Þegar
hindranirnar stafa hins vegar af hegðun markaðsráðandi fyrirtækja er starfa á
markaðnum, getur stofnunin rannsakað málið nánar og gripið til aðgerða þegar
þess er þörf.

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.