Samkeppni Logo

Íþrótta- og sundstaðir, heilbrigðisþjónusta og sorphirða

31. október 2025
snowcap mountain

Fram kemur í b. lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr.
44/2005 að Samkeppniseftirlitið getur gripið til aðgerða gegn athöfnum
opinberra aðila að því marki sem þær kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni að
því tilskildu að sér lög hafi ekki að geyma sérstakar reglur um heimild eða
skyldu til slíkra athafna.

Íþrótta- og sundsstaðir

Þegar sveitarfélög reka sundlaugar og aðstöðu til
líkamsræktar getur komið upp sá vandi að samkeppni getur raskast á markaði þar
sem rekstur mannvirkjanna og þeirra starfsemi sem þar fer fram stendur oft ekki
undir sér. Kostnaður umfram tekjur af rekstrinum er þá greiddur úr sjóðum
sveitarfélaganna. Þegar svo háttar til niðurgreiða sveitarfélög starfsemi af
þessu tagi. Þegar einkaaðilar sem ekki njóta niðurgreiðslu á sínum rekstri frá
sveitarfélögum standa í samkeppni við þann rekstur sem rekinn er með stuðningi
sveitarfélaga má ljóst vera að samkeppnisstaða einkaaðilanna á viðkomandi
markaði er skert. Einkaaðilinn nýtur engrar niðurgreiðslu og þarf að borga
aðföng sín og annan rekstrarkostnað fullu verði. Verðlagning hans hlýtur að
bera keim af þeirri staðreynd. Af þessum sökum hefur Samkeppniseftirlitið í
nokkrum tilvikum kveðið á um að líkamsræktarsalir sveitarfélaga sem reknir eru
í samkeppni við líkamsræktarsali einkaaðila skuli reknir með kostnaðarlegum
aðskilnaði frá annarri íþróttaaðstöðu og sundlögum sveitarfélaganna.

Heilbrigðisþjónusta

Sálfræðingafélag Ísland kvartaði til
Samkeppniseftirlitsins vegna samninga Tryggingastofnunar ríkisins við geðlækna um að
greiða hluta af kostnaði sjúklinga af sérfræðiþjónustu þeirra.
Tryggingastofnun hafði ekki fengist til þess að taka þátt í kostnaði sjúklinga
við meðferðir hjá sálfræðingum sem bjóða upp á samtalsmeðferðir. Áður hafði verið
komist að þeirri niðurstöðu að þegar um geðræn vandamál væri að ræða , sem ekki væru lyfjatengd , og viðkomandi starfaði á sama markaði og samtalsmeðferðir hjá klínískum sálfræðingum. Samkeppniseftirlitið
komst að þeirri niðurstöðu, ákv. nr. 8/2005, að sú ákvörðun
heilbrigðisyfirvalda að semja ekki við klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku
hins opinbera um kostnað af geðheilbrigðisþjónustu hefði skaðleg áhrif á
samkeppni og færi gegn markmiði samkeppnislaga. Var þeirri ákvörðun snúið við af Áfrýjunarnefnd samkeppnismála, úrsk. nr. 19/2005, með þeim rökum að sérstök
fyrirmæli væru í ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu sem gengu framar ákvæðum
samkeppnislaga. Því hefði samkeppnisyfirvöldum brostið sú heimild til þess að
hafa þau afskipti af málinu sem fælust í hinni kærðu ákvörðun. Sálfræðingafélag
Íslands skaut úrskurði Áfrýjunarnefndar samkeppnismála til Héraðsdóms Reykjavíkur, E-4825/2006.
Féllst dómurinn ekki á niðurstöðu Áfrýjunarnefndar samkeppnismála að lög um heilbrigðisþjónustu
girði fyrir það að Samkeppniseftirlitið geti gripið til þeirra aðgerða sem þarf gegn
heilbrigðisyfirvöldum sem fram komu í umræddri ákvörðun þess. Var úrskurði Héraðsdóms áfrýjað til Hæstaréttar, Hrd. 411/2017, sem féllst á niðurstöðu
úrskurðarnefndarinnar. Taldi Hæstiréttur að samkeppnislög væru almenn lög sem
yrðu að víkja fyrir ósamrýmanlegum ákvæðum sérlaga. Var Samkeppniseftirlitinu því
ekki talið heimilt með stoð í b. lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga að grípa
til aðgerða á þann hátt sem ávörðun þess tók til.  

Sorphirða

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu með ákv.
nr. 34/2012 að SORPA bs. hefði brotið gegn samkeppnislögum með því að misnota
markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir flokkun og meðhöndlun úrgangs. Var
brotið með því móti að SORPA veitti eigendum sínum, þ.e. sveitarfélögum á
höfuðborgarsvæðinu og Sorpustöð Suðurlands bs., hærri afslátt en öðrum
viðskiptavinum. Aðrir viðskiptavinir SORPU voru t.d. önnur sorphirðufyrirtæki
sem jafnvel voru að koma með meira magn af sorpi en umrædd sveitarfélög. Mat
Samkeppniseftirlitsins var að þessir mismunandi afslættir SORPU höfðu haft
skaðleg áhrif á samkeppni. Var því beint til SORPU að endurskoða gjaldskrá
fyrir þjónustu sína. Viðskiptakjör í nýrri gjaldskrá skyldu vera almenn og gagnsæ þannig að aðilar sem eiga í samskonar viðskiptum við SORPU nytu sömu
kjara.

Var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins staðfest af Áfrýjunarnefnd samkeppnismála, úrsk. nr. 1/2013. Fór SORPA með málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem sýknaði Samkeppniseftirlitið í máli E-3598/2013.
SORPA áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar, sem staðfesti dóm Héraðsdóms, Hrd.
273/2015.

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.