Samkeppni Logo

Algengar spurningar um samrunamál

31. október 2025
snowcap mountain

Hvað er samruni?

Samruni í skilningi samkeppnislaga telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar í eftirtöldum fjórum tilvikum: 

  • vegna samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja eða hluta úr fyrirtækjum sem áður störfuðu sjálfstætt
  • þegar fyrirtæki tekur yfir annað fyrirtæki
  • vegna þess að einn eða fleiri aðilar, sem þegar hafa yfirráð yfir a.m.k. einu fyrirtæki, eða eitt eða fleiri fyrirtæki ná beinum eða óbeinum yfirráðum, í heild eða að hluta, yfir einu eða fleiri fyrirtækjum til viðbótar með því að kaupa verðbréf eða eignir, með samningi eða öðrum hætti
  • með stofnun fyrirtækis um sameiginlegt verkefni sem gegnir til frambúðar allri starfsemi sjálfstæðrar efnahagseiningar

Til hvers þarf eftirlit með samrunum fyrirtækja?

Yfirtaka eins fyrirtækis á öðru eða samruni fyrirtækja getur leitt til þess að samkeppni, sem hefur verið til staðar, minnkar eða hverfur jafnvel alveg. Þannig getur orðið til fyrirtæki sem hefur markaðsráðandi stöðu eða jafnvel einokun á markaðnum. Slíkt getur skaðað neytendur með hærra vöruverði, minna vöruúrvali og minni nýsköpun. Með því að hafa eftirlit með samrunum fyrirtækja er hægt að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á samkeppni.

Samrunareglur eru þannig einn af hornsteinum samkeppnisréttarins og gegna mikilvægu hlutverki við að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaða sé breytt, með samruna eða yfirtöku, á þann hátt að samkeppni hverfi eða skerðist.

Þarf að tilkynna um alla samruna fyrirtækja?

Tilkynningarskylda samrunaaðila verður virk þegar sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 2 milljarðar kr. eða meira á Íslandi og að minnsta kosti tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 200 millj. kr. ársveltu á Íslandi hvers um sig.

Samkeppniseftirlitið hefur þó heimild til að krefja samrunaaðila um tilkynningu um samrunann sem ekki uppfylla þessi skilyrði ef stofnunin telur að dregið geti umtalsvert úr virkri samkeppni og ef sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er meiri en einn milljarður kr. á ári.

Þá er heimilt að tilkynna um samruna með styttri tilkynningu ef að minnsta kosti eitt af þeim skilyrðum sem fram koma í a til e lið 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, svo sem ef þeir markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir eru ekki tengdir.

Hvenær mega samrunar fyrirtækja koma til framkvæmda?

Tilkynna skal um samruna áður en hann kemur til framkvæmda en eftir að samningur um hann er gerður, tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða yfirráða í fyrirtæki er aflað. Samruni sem fellur undir ákvæði samkeppnislaga skal ekki koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann.

Samkeppniseftirlitið hefur 25 virka daga til athugunar á samkeppnislegum áhrifum samruna eftir að tilkynnt hefur verið um hann. Telji Samkeppniseftirlitið ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samruna skal stofnunin tilkynna samrunaaðilum um það. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um ógildingu eða setningu skilyrða samruna skal taka eigi síðar en 70 virkum dögum eftir að viðkomandi fyrirtækjum var send tilkynning um frekari rannsókn á samrunanum. Samruninn má ekki koma til framkvæmda á meðan slík rannsókn stendur yfir.

Hvað skal koma fram í tilkynningu um samruna fyrirtækja?

Í samrunatilkynningu skal veita upplýsingar um samrunann, þau fyrirtæki sem honum tengjast, um viðkomandi markaði og um önnur nauðsynleg atriði við athugun á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Í viðauka I í reglum Samkeppniseftirlitsins (pdf skjal – opnast í nýjum glugga) nr. 684/2008, um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum, sem aðgengilegar eru á heimasíðu þess, eru nánar tilgreindar þær upplýsingar sem fram verða að koma í tilkynningu.

Heimild er til styttri tilkynningar ef uppfyllt eru eitt af skilyrðum a til e liðar 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, svo sem ef þeir markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir eru ekki tengdir. Í slíkum tilvikum þarf ekki að veita jafn víðtækar upplýsingar og þegar um hefðbundna samrunatilkynningu er að ræða og er tæmandi talning þeirra upplýsinga sem skulu fylgja styttri tilkynningu að finna í viðauka II í reglum Samkeppniseftirlitsins (pdf skjal – opnast í nýjum glugga) nr. 684/2008 um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum.

Í hvaða tilvikum eru samrunar fyrirtækja ógiltir?

Allir tilkynntir samrunar eru rannsakaðir af Samkeppniseftirlitinu með tilliti til þess hvort þeir muni raska samkeppni á markaði með umtalsverðum hætti eða hvort markaðsráðandi staða verður til eða að slík staða styrkist. Ef slíkt á ekki við eru samrunar samþykktir án íhlutunar eftirlitsins.

Telji Samkeppniseftirlitið á hinn bóginn að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða verði til eða að slík staða styrkist, eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, getur eftirlitið ógilt samruna eða sett honum skilyrði.

Í hvaða tilvikum er samrunum fyrirtækja sett skilyrði?

Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið telji að tilkynntur samruni gæti haft skaðleg áhrif á samkeppni getur slíkur samruni verið samþykktur með skilyrðum sem koma í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans. Samkeppniseftirlitið hefur síðan eftirlit með því hvort þessum skilyrðum sé fylgt og getur gripið til aðgerða ef svo er ekki.

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.