
Meðal hlutverka Samkeppniseftirlitsins er að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði líkt og fram kemur í c-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga.
Í hnotskurn
Ljóst er að stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, geta með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi haft mikil áhrif á samkeppni og samkeppnisskilyrði í landinu. Stjórnvöld bera ríka ábyrgð á því að ryðja úr vegi hvers kyns samkeppnishindrunum sem ný og smærri fyrirtæki kunna að mæta þegar þau hefja störf og reyna að vaxa við hlið stærri keppinauta. Stjórnvöld geta einnig verið þátttakendur á samkeppnismörkuðum og er þá mikilvægt að þau gæti þess í hvívetna að raska ekki samkeppni. Í slíkum tilfellum lúta þau einnig grundvallarreglum samkeppnislaga, s.s. varðandi bann við samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Í þeim tilgangi að framfylgja hlutverki sínu varðandi opinberar samkeppnishömlur hefur Samkeppniseftirlitið eftirfarandi heimildir í samkeppnislögum:
Þá skal hafa í huga að aðrar grundvallarreglur samkeppnislaga ná til opinberra aðila jafnt og annarra aðila að því tilskildu að um sé að ræða atvinnustarfsemi sem fellur undir gildissviðsreglur laganna. Opinberir aðilar sem uppfylla þau skilyrði eru því ekki undanþegnir bannreglum samkeppnislaga um samráð við keppinauta og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Með öðrum orðum gilda sömu samkeppnisreglur um opinber fyrirtæki og einkafyrirtækis svo fremi sem ekki er mælt fyrir um annað í sérlögum.
Brot á fyrirmælum Samkeppniseftirlitsins sem sett eru á grundvelli 14. gr. samkeppnislaga eða ráðstöfunum, aðgerðum eða bráðabirgðaákvörðunum á grundvelli 16. gr. varða stjórnvaldssektum samkvæmt 37. gr. samkeppnislaga. Sektir geta numið allt að 10% af heildarveltu viðkomandi aðila.
Álit og fyrirmæli sem Samkeppniseftirlitið setur fram á grundvelli c-liðar 1. mgr. 8. gr. og/eða 18. gr. samkeppnislaga fela ekki í sér stjórnvaldsákvörðun. Samkeppniseftirlitinu er hins vegar heimilt að fylgja slíkum álitum eftir með fyrirspurnum til þess sem álitið beindist að og skulu svör við slíkum fyrirspurnum að jafnaði birt á heimasíðu eftirlitsins.
Samkeppniseftirlitið hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna í ritun umsagna um lagafrumvörp. Samkeppniseftirlitinu berast á ári hverju tugir umsagnarbeiðna og metur í hverju tilviki hvort tilefni sé til að senda inn umsögn. Getur eftirlitið þannig með fyrirbyggjandi hætti bent á möguleg samkeppnishamlandi áhrif sem umrætt lagafrumvarp hefur í för með sér. Helstu umsagnir Samkeppniseftirlitsins eru birtar á heimasíðu stofnunarinnar.
"*" indicates required fields