13.3.2019 Valur Þráinsson

Aukin er­lend sam­keppni eflir ís­lenskt at­vinnu­líf

Pistill nr. 1/2019

Á undanförnum áratugum hefur íslenskur almenningur og atvinnulíf verið minnt reglulega á ábata erlendrar samkeppni. Minnast má þess þegar tollar á grænmeti voru afnumdir árið 2001. Til skamms tíma leiddi breytingin til þess að markaðshlutdeild íslenskra grænmetisbænda dróst saman en aukin erlend samkeppni hafði þau áhrif að grænmetisbændurnir urðu að skapa sér forskot sem birtist í því að um 10 árum síðar hafði framleiðsla þeirra aukist um 60%. Jákvæð áhrif erlendrar samkeppni má einnig sjá á öðrum sviðum atvinnulífsins en innkoma Bauhaus, H&M, Costco og fleiri erlendra aðila á sl. árum hefur brýnt íslensk fyrirtæki til þess að gera enn betur. Sum þeirra hafa orðið undir í samkeppninni en önnur sótt í sig veðrið eða haldið sínum hlut.

Reynslan hér á Íslandi af áhrifum erlendrar samkeppni er ekki tilviljun. Rannsóknir benda til þess að erlend samkeppni lækki vöruverð til skamms tíma. Jákvæðu áhrifin til lengri tíma séu þau að innlendir framleiðendur aðlagist breyttu umhverfi og framleiði betri vörur á hagkvæmari hátt. Nýbirt greining hagfræðinganna Amiti, Redding og Weinstein (2019) bendir til þess að velferðartapið sem hlýst af verndartollum núverandi bandaríkjaforseta nemi 17 milljörðum bandaríkjardollara á ársgrundvelli og þeir sem tapi á þeim séu innlendir framleiðendur og neytendur, þvert á yfirlýst markmið tollanna. Greining breska efnahags- og fjármálaráðuneytisins frá árinu 2016 á áhrifum þess að Bretland yfirgefi ESB bendir til þess að landsframleiðsla í Bretlandi muni að 15 árum liðnum verða 2.600 til 5.200 pundum lægri á hvert heimili á ári en ella miðað við mismunandi sviðsmyndir. Meginástæða þess er sú að breskir framleiðendur muni búa við meiri vernd gagnvart erlendri samkeppni en fyrir útgöngu úr ESB.

Nýleg greining Daða Más Kristóferssonar, prófessors við hagfræðideild Háskóla Íslands, á efnahagslegum áhrifum þess að heimila innflutning á ófrystum landbúnaðarafurðum frá ESB ríkjum í auknum mæli bendir til þess að ábati neytenda gæti aukist um 900 milljónir króna á ári og heildarsamdráttur í tekjum innlendra framleiðenda gæti verið um 500-600 milljónir á meðan aðlögun að nýju jafnvægi stendur. Ekki er þó í greiningunni horft til þeirra jákvæðu áhrifa sem aukið erlent samkeppnislegt aðhald getur haft á nýsköpun og framleiðni í íslenskum landbúnaði eins og átti sér stað í tilviki grænmetisbænda. Hreinn ábati þessara breytinga er því að öllum líkindum vanmetinn.

Ljóst er að til mikils er að vinna og til lengri tíma mun það skila íslenskum neytendum og atvinnulífi umtalsverðum ábata ef haldið verður áfram að opna landið fyrir erlendri samkeppni.

Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins

Fyrirvari: Skoðanir eru höfundar og þurfa ekki nauðsynlega að endurspegla afstöðu eða stefnu Samkeppniseftirlitsins. 

Pistill birtist í Fréttablaðinu þriðjudaginn 12. mars 2019