Skýrslur

Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins 2013-2022

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 4/2023
  • Dagsetning: 29/12/2023
  • Fyrirtæki:

    Engin fyrirtæki finnast

  • Atvinnuvegir:

    Enginn atvinnuvegur finnst

  • Málefni:

    Engin málefni finnast

  • Reifun

    Síðustu misseri hefur Samkeppniseftirlitið greint reiknaðan ábata vegna íhlutunar eftirlitsins á sjálfstæðan hátt, en Ríkisendurskoðun hefur m.a. lagt áherslu á að slíkt mat fari fram. Samkeppniseftirlitið hefur birt rit nr. 4/2023, Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins, 2013-2022,  þar sem heildarniðurstöður greiningarinnar eru birtar í fyrsta skipti. Áætlað er að Samkeppniseftirlitið muni gefa út skýrslu á hverju ári héðan í frá þar sem reiknaður ábati er birtur, og er þessi skýrsla sú fyrsta af þeim.

    Greining þessi styðst við viðmið OECD, Guide for helping competition authorities assess the expected impact of their activities . Byggja viðmiðin á vinnu OECD, fræðimanna, samkeppnisyfirvalda í ýmsum aðildarlanda OECD og fyrri rannsóknum á efnahagslegum áhrifum samkeppniseftirlits. Einnig er byggt á þeirri aðferðafræði sem samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins notast við í sambærilegri greiningu, en þar er einnig byggt á leiðbeiningum OECD í grunninn.

    Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins vegna samráðs, misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og samkeppnishamlandi samruna á tíu ára tímabilinu 2013-2022 nam 0,31-0,52% af vergri landsframleiðslu á sama tímabili, eða sem nemur 18-30-földum fjárframlögum til stofnunarinnar á tímabilinu.

    Reiknaður ábati var að meðaltali 10,0-16,9 ma.kr. á ári á tímabilinu 2013-2022, þar af 4,4-7,0 ma.kr. vegna íhlutunar í samráðsbrot, 1,8-3,6 ma.kr. vegna íhlutunar í misnotkun á markaðsráðandi stöðu og 3,8-6,3 ma.kr. vegna þess að samkeppnishamlandi samrunar voru ógiltir eða þeim sett skilyrði. Fjárhæðir eru á verðlagi ársins 2022.

    Samsvara framangreindar niðurstöður því að árlegur reiknaður ábati hafi numið um 30-50 þúsund krónur á hvern landsmann, miðað við mannfjölda og verga landsframleiðslu á árinu 2022. Sé þeim ábata sem stefnt er að í fjármálaáætlun skipt jafnt á alla landsmenn má ætla að hlutur hvers gæti numið 50 þúsund krónum á ári.