Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Brot Haga hf. á samrunareglum samkeppnislaga

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 22/2009
 • Dagsetning: 26/6/2009
 • Fyrirtæki:
  • Hagar hf.
  • BT Verslanir ehf.
 • Atvinnuvegir:
  • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Matvörur
  • Tölvu- og rafeindavörur
 • Málefni:
  • Samrunamál
 • Reifun

  Í ákvörðun þessari hefur Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Hagar hf. hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við því að samruni komi til framkvæmda áður en eftirlitið hefur heimilað hann. Er lögð 20 milljón króna sekt á Haga vegna þessa.

  Í samkeppnislögum er lagt bann við því að samruni komi til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann, nema til komi sérstakt leyfi Samkeppniseftirlitsins. Er þessari reglu ætlað að tryggja að unnt sé með fullnægjandi hætti að vinna gegn samkeppnishamlandi samrunum. Í 37. gr. samkeppnislaga er sérstaklega gert ráð fyrir því að lögð séu viðurlög á fyrirtæki sem brjóta gegn þessari reglu.

  Mál Haga hf. varðar samruna sem fólst í kaupum félagsins á BT Verslunum í nóvember 2008. Var sá samruni framkvæmdur af Högum áður en hann var tilkynntur Samkeppniseftirlitinu í samræmi við lög. Þar af leiðandi var samrunanum hrint í framkvæmd áður en Samkeppniseftirlitinu gafst tækifæri til að meta áhrif samrunans á samkeppni. Fólst í þessu brot á 3. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga. Eftir að Samkeppniseftirlitið birti það frummat sitt að umræddur samruni væri samkeppnishamlandi gengu kaupin til baka og BT er ekki lengur í eigu Haga. Um það er fjallað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 15. maí 2009 nr. 20/2009.

   

Staða máls

Áfrýunarnefnd samkeppnismála

Úrskurðir