Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Úrskurðir áfrýjunarnefndar

HIH ehf., HIH málun ehf., HT smíðaverk ehf., HIH þrif ehf., Þakafl ehf. og HT eignir ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 5/2025
  • Dagsetning: 25/11/2025
  • Fyrirtæki:

    Engin fyrirtæki finnast

  • Atvinnuvegir:

    Enginn atvinnuvegur finnst

  • Málefni:

    Engin málefni finnast

  • Reifun

    Þann 9. maí 2025 barst Samkeppniseftirlitinu erindi frá áfrýjendum þar sem kvartað var yfir því að tiltekin háttsemi Arion banka hf., Landsbankans hf. og Íslandsbanka hf. kynni að hafa falið í sér misnotkun á meintri sameiginlegri markaðsráðandi stöðu og ólögmætt samráð í andstöðu við 10. og 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Í erindinu kom fram að í mars 2023 hafi Arion banki hf. sagt upp viðskiptasambandi við áfrýjendur í kjölfar endurmats bankans á áhættu tengdri viðkomandi viðskiptasamböndum í skilningi laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Áfrýjendur hafi

    óskað eftir frekari skýringum frá bankanum en þær hafi ekki fengist. Í kjölfarið hafi umsókn áfrýjenda um bankaviðskipti verið hafnað hjá Landsbankanum hf. og síðar einnig hjá Íslandsbanka hf. með vísan til fyrrgreindra laga nr. 140/2018. Í erindi áfrýjenda var á því byggt að umræddar ráðstafanir viðskiptabankanna þriggja hafi falið í sér brot gegn 10. og 11. gr. samkeppnislaga og hafi auk þess haft í för með sér mikið óhagræði og tjón fyrir áfrýjendur.

    Samkeppniseftirlitið tók erindi áfrýjenda til skoðunar og lagði mat á hvort tilefni væri til að hefja formlega rannsókn á því, sbr. 9. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins. Með bréfi 19. ágúst 2025 tilkynnti Samkeppniseftirlitið þá niðurstöðu að ekki væri tilefni til að taka málið til formlegrar rannsóknar, með vísan til forgangsröðunarheimildar 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga og 9. gr. reglna nr.880/2005 um mat á tilefni.

    Niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála var að hin kærða ákvörðun hafi byggst á fullnægjandi lagagrundvelli og málefnalegum sjónarmiðum og forsvaranlegu mati á atvikum og gögnum málsins, sbr. 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga og 9. gr. reglna nr. 880/2005. Þá var ekki talið að hin kærða ákvörðun hafi að öðru leyti verið haldin annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Meðal annars var ekki talið að málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins hafi verið í ósamræmi við ákvæði 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Kröfum áfrýjenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi var því hafnað.