18.9.2025

Dómur Landsréttar í máli Símans

  • Ll-syn

Með dómi uppkveðnum í dag féllst Landsréttur á kröfu Símans um að viðurkennt yrði að skilyrði ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá 4. júní 2015, í máli nr. 6/2015, væru úr gildi fallin.

Um er að ræða skilyrði sem byggja á sátt sem Síminn (þá Skipti) gerði á árinu 2013 við eftirlitið um lok 7 mála þar sem til rannsóknar var hvort fyrirtækið hefði brotið gegn bannreglum samkeppnislaga og sátt sem það hafði gert við samkeppnisyfirvöld, en á árinu 2015 voru skilyrðin endurskoðuð að beiðni Símans, sbr. ákvörðun nr. 6/2015.

Skilyrðin, sem fyrirtæki hafði skuldbundið sig til að fylgja í því skyni að efla samkeppni á fjarskiptamörkuðum, voru ótímabundin en samkvæmt sáttinni var Símanum heimilt að óska eftir því að einstök skilyrði hennar yrðu felld úr gildi ef aðstæður breyttust verulega á fjarskipta­mörkuðum. Skyldi afstaða eftirlitsins til slíks erindis liggja fyrir innan ákveðinna tímamarka en ella teldist erindið samþykkt og viðkomandi skilyrði úr gildi fallið.

Með ákvörðun nr. 24/2023 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til að verða við kröfu Símans um að fella niður öll skilyrði sem fyrirtækið hafði áður skuldbundið sig til að fylgja í því skyni að efla samkeppni á fjarskiptamörkuðum. Síminn vildi ekki una þeirri ákvörðun og höfðaði þess vegna mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hann krafðist þess meðal annars að viðurkennt yrði að skilyrði ákvörðunar nr. 6/2015 væru úr gildi fallin. Byggði Síminn meðal annars á því að tímafrestir eftirlitsins til að taka afstöðu til erindis hans hefðu verið liðnir þegar eftirlitið tók ákvörðun í málinu. Á það féllst héraðsdómur ekki og sýknaði eftirlitið af kröfu Símans. Landsréttur hefur nú komist að öndverðri niðurstöðu.

Samkeppniseftirlitið hefur það nú til athugunar hvernig bregðast skuli við dómi Landsréttar.