
Samkeppniseftirlitið óskar landsmönnum öllum gleðilegra hátíða og farsældar á nýju ári.
Hátíðarnar eru tími sósugerða víða um land og spretta sósugerðaráhugamenn fram með sínar leyniuppskriftir. Er því tilvalið að benda á brakandi nýja ákvörðun frá CMA, breska samkeppniseftirlitinu, en það hefur haft samruna Bakkavarar og Greencore til rannsóknar undanfarið en Bakkavör er m.a. í eigu íslenskra aðila.
Bakkavör og Greencore eru keppinautar en fyrirtækin framleiða og selja matvæli og tilbúna rétti til dagvöruverslana í Bretlandi.
CMA taldi samrunann geta skaðað samkeppni í sölu á köldum sósum og þannig leitt til hærra verðs til neytenda og/eða verri gæða.
Greencore og Bakkavör lögðu til skilyrði til þess að eyða áhrifum samrunans sem CMA samþykkti þann 17. desember sl.
Í sátt fyrirtækjanna við breska samkeppniseftirlitið er kveðið á um ýmsar aðgerðir en aðallega að framleiðsla og verksmiðja Greencore fyrir kaldar sósur og súpur verði seld til nýs eiganda.
Slík söluskilyrði eru íþyngjandi en oft eina og skilvirkasta leiðin til þess að lagfæra röskun á samkeppni þegar keppinautar sameinast.
Í fréttatilkynningu CMA kemur m.a. fram að kostnaðurinn við hin vikulegu innkaup á mat skipti alla máli. Því sé mikilvægt að tryggja virka samkeppni til að halda matvöruverði eins lágu og mögulegt er, en samruninn hefði að óbreyttu hækkað verð að þeirra sögn. Með sáttinni séu tryggðar aðgerðir sem mæti áhyggjum breska eftirlitsins.
Við framkvæmd samkeppnislaga á Íslandi fylgist Samkeppniseftirlitið grannt með störfum evrópskra samkeppnisyfirvalda, bæði innan EES-svæðisins og í Bretlandi.
Gleðilega hátíð!
"*" indicates required fields