23.3.2023

Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum vegna kaupa Ljósleiðarans á stofnneti og tengdum búnaði af Sýn

  • Ljosleidari_1679568219944

Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar fyrirhuguð kaup Ljósleiðarans ehf. á stofnneti og tengdum búnaði af Sýn hf. Fullnægjandi samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu 15. mars síðastliðinn. Afrit samrunatilkynningar án trúnaðarupplýsinga má finna neðst í þessari frétt.

Ljósleiðarinn er fjarskiptafyrirtæki sem starfar á íslenskum heildsölumörkuðum fyrir fjarskiptaþjónustu. Kjarnastarfsemi fyrirtækisins felst í rekstri ljósleiðaranets og sölu á vörum og þjónustum á ljósleiðaraneti Ljósleiðarans til fjarskiptafélaga að sögn félagsins.

Samruninn leiðir til þess að Ljósleiðarinn eignast stofnnet Sýnar en auk þess hafa samrunaaðilar undirritað þjónustusamning um heildsöluviðskipti.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum samrunans beinist einkum að áhrifum samrunans á samkeppni og hvort hann feli í sér aukna sameiginlega hlutdeild samrunaaðila á tilteknum sviðum fjarskipta eða að samkeppni raskist að öðru leyti.

Þeim sem þess óska er hér með boðið að koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum um samrunann og aðrar athugasemdir sem geta skipt máli við rannsóknina.

Er óskað eftir að slík sjónarmið berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar en föstudaginn 31. mars á netfangið samkeppni@samkeppni.is.