26.11.2020

Samtal um Samkeppni: Opinn umræðufundur um drög að leiðbeiningum um beitingu 15. gr. samkeppnislaga

Samkeppniseftirlitið boðar til opins umræðufundar mánudaginn 30. nóvember nk. um drög eftirlitsins að leiðbeiningum um beitingu 15. gr. samkeppnislaga, en drögin hafa verið birt til umsagnar á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Leiðbeiningunum er ætlað að nýtast fyrirtækjum við mat á því hvort samstarf þeirra á milli uppfylli skilyrði 15. gr. laganna, en frá og með næstu áramótum mun ábyrgð á þessu mati hvíla alfarið á þeim fyrirtækjum sem hyggja á samstarf.

Öllum áhugasömum hefur verið boðið að koma á framfæri sjónarmiðum og ábendingum um leiðbeiningarnar en frestur til þess rennur út þann 27. nóvember nk.

Fundurinn verður haldinn í gegnum fjarfundabúnað og fer fram mánudaginn 30. nóvember nk. kl. 14:00. Áhugasömum gefst þar tækifæri til þess að taka þátt í umræðum um fyrirliggjandi drög að leiðbeiningum og taka þannig þátt í frekari mótun þeirra, fylgja eftir ábendingum sínum eða koma að frekari sjónarmiðum.

Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig á fundinn með því að senda tölvupóst á samkeppni@samkeppni.is fyrir kl. 11:00 þann 30. nóvember nk. Hlekkur á fjarfundinn verður sendur öllum skráðum þátttakendum.