15.12.2022

Vegna viðtals í Morgunblaðinu í tilefni af rannsókn Samkeppniseftirlitsins á kaupum KS á Gunnars majónesi

  • Untitled-design-2022-12-15T193046.310

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Sævar Þór Jónsson, lögmann matvælafyrirtækisins Gunnars majóness, þar sem hann finnur að málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins við rannsókn á kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á fyrirtækinu. 

Fram kemur að í maí sl. hafi fyrirtækið verið selt og viðskiptin í kjölfarið tilkynnt til eftirlitsins. Haft er eftir honum að nú þegar um sex mánuðir séu liðnir hafi kaupin enn ekki verið samþykkt. Þá er haft eftir honum að málið hafi tafist úr hófi fram auk þess sem skriffinnskan og gagnaöflunin sem Gunnars majónes sé krafið um sé óþarflega mikil. Velti hann því fyrir sér hvort þetta ferli sé hálfóyfirstíganlegt fyrir lítil fyrirtæki.

Í þágu upplýstrar umræðu um meðferð samkeppnismála er óhjákvæmilegt að taka eftirfarandi fram:

  • Samrunatilkynning vegna málsins barst Samkeppniseftirlitinu þann 20. júlí sl., en þá hófst meðferð málsins. Því hefur meðferð málsins ekki tekið sex mánuði og er málið rekið innan lögbundinna tímafresta.
  • Við meðferð málsins hefur eftirlitið ítrekað haldið stöðufundi þar sem aðilar máls hafa verið upplýstir um stöðu málsins. Eru slíkir fundir að jafnaði haldnir í þágu viðkomandi fyrirtækja svo þau geti sem fyrst metið stöðu málsins.
  • Á stöðufundi í byrjun október var aðilum kynnt frummat Samkeppniseftirlitsins um möguleg skaðleg áhrif samrunans og þeim boðið að koma sjónarmiðum á framfæri. Frá þeim tíma hefur meðferð málsins helgast af viðbrögðum samrunaaðila við frummati eftirlitsins. Viðleitni eftirlitsins til að einfalda meðferð málsins hefur ekki borið árangur.
  • Samkeppniseftirlitið bíður nú sjónarmiða sem samrunaaðilar hafa boðað, eigi síðar en 16. desember samkvæmt veittum fresti.