Algengar spurningar

Algengar spurningar

Hér er að finna svör við ýmsum algengum spurningum sem reglulega er beint til Samkeppniseftirlitsins. Hafi þú spurningu um samkeppnismál sem þú vilt gjarnan fá svar við þá getur þú sent fyrirspurn á samkeppni@samkeppni.is Ekki er hægt að ábyrgjast hvenær eða hvort fyrirspurn verður svarað en ef tölvupóstfang fylgir fyrirspurn mun fyrirspyrjandi fá svar sent í tölvupósti þegar það birtist á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Ólögmætt samráð

Geta einstaklingar borið ábyrgð vegna brota á samkeppnislögum?

Eva Ómarsdóttir sviðsstjóri/lögfræðingur hjá SamkeppniseftirlitinuÁrið 2007 var refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum afmörkuð nánar en áður gilti. Með breytingunum var refsiábyrgð einstaklinga gerð skýrari og nánar fjallað um verkaskiptinu og samvinnu samkeppnisyfirvalda og lögreglu við rannsókn brota gegn samkeppnislögum.

Refsiábyrgð einstaklinga vegna brota á samkeppnislögum er afmörkuð við brot sem fela í sér ólögmætt samráð en þau eru talin alvarlegustu samkeppnislagabrotin. Ástæða þess er sú að í málum þar sem grunur leikur á samráði eru miklir hagsmunir í húfi fyrir neytendur og atvinnulífið enda getur ólögmætt samráð fyrirtækja haft í för með sér verulegan efnahagslega skaða. Samkvæmt núgildandi samkeppnislögum getur einstaklingur, þ.e. starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis, sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sætt sektum eða fangelsi allt að sex árum. Nánar tiltekið tekur refsiábyrgðin til samráðs um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör, samráðs um skiptingu á mörkuðum og takmörkun á framleiðslu, samráðs um gerð tilboða, samráðs um að eiga ekki viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða neytendur og svo til upplýsingagjafar um þessi tilteknu atriði. Þá heyrir hér einnig undir samráð fyrirtækja sem hefur það að markmiði að fyrirtækin keppi ekki sín á milli.

Misnotkun á markaðsráðandi stöðu getur ekki varðað einstaklingum refsingu með sama hætti. Um þetta sagði í greinargerð með frumvarpi:

Það er staðreynd að misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sbr. 11. gr. samkeppnislaga, getur haft í för með sér umtalsvert tjón fyrir samfélagið og að því standa rök til þess að misnotkun á markaðsráðandi stöðu geti varðað refsingu með sama hætti og ólögmætt samráð. Hins vegar er það talið geta valdið vandkvæðum við beitingu slíks refsiákvæðis að framkvæma getur þurft flókna hagfræðilega greiningu til að komast að raun um hvort viðkomandi fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu. Þá kann í undantekningatilvikum að vera vandasamt fyrir fyrirtæki að gera sér grein fyrir því hvort það hafi markaðráðandi stöðu í skilningi 11. gr. samkeppnislaga. Jafnframt ber að hafa í huga að í 11. gr. laganna er lagt bann við hegðun sem getur verið eðlileg og jafnvel samkeppnishvetjandi ef um er að tefla fyrirtæki sem ekki er í markaðsráðandi stöðu. Á grundvelli þessa þykir ekki ástæða til þess að leggja refsingu við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Er niðurstaðan í samræmi við samkeppnisrétt flestra vestrænna ríkja sem mæla fyrir um refsingar við samkeppnisbrotum, t.d. Bretland, Noreg og Bandaríkin.

Samkeppnislagabrot einstaklinga sæta einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Samkeppniseftirlitið metur í hvert sinn með tilliti til grófleika brots hvort kæra skuli mál til lögreglu. Mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið gæti samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Þá er rétt að taka það fram að Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann eða fyrirtækið sem hann starfar hjá haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna samráðsbrota sem geta leitt til sönnunar á brotunum eða teljast mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar í höndunum.

Samkeppniseftirlitinu  er heimilt að afhenda lögregluyfirvöldum gögn og upplýsingar sem aflað hefur verið og tengjast umræddum brotum sem til rannsóknar eru. Á sama hátt getur lögreglan afhent Samkeppniseftirlitinu gögn og upplýsingar sem máli skipta. Þá er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsóknina og lögreglu er jafnframt heimilt að taka þátt í aðgerðum samkeppnisyfirvalda.

Er mögulegt að vera aðili að ólögmætu samráði án nokkurrar framkvæmdar?

Sóley Ragnarsdóttir lögfræðingur hjá SamkeppniseftirlitinuJá. Það er mögulegt að teljast aðili að ólögmætu samráði þrátt fyrir að aðrir sjái um framkvæmdahlið þess og einnig er mögulegt að vera aðili að samráði þar sem enginn framkvæmir nokkuð, þ.e. samráð um athafnaleysi. Bann samkeppnislaga við ólögmætu samráði felur ekki eingöngu í sér bann við beinum aðgerðum, heldur líka samningum um aðgerðir eða athafnaleysi.

Í þessu svari er best að koma með dæmi:

Fulltrúar þriggja fyrirtækja sitja á fundi. Fulltrúar tveggja fyrirtækja hafa sig í frammi og ræða að koma á fót ólögmætu samráði meðal allra þriggja fyrirtækjanna. Samráðið er útfært og því komið af stað, án beinnar þátttöku þriðja fulltrúans. Samt sem áður yrði hann talinn aðili að samráðinu því hann var viðstaddur þann fund sem samráðinu var komið á og það útfært og var þannig fullkunnugt um það.

Til þess að teljast ekki aðili að samráðinu hefði þriðji fulltrúinn þurft að koma því mjög skýrlega á framfæri að hann myndi ekki taka þátt í samráðinu. Jafnvel með því að taka vatnsglasið sitt og skvetta úr því til þess að vekja athygli á máli sínu.

Er ekki hætta á því að hagsmunasamtök fyrirtækja séu vettvangur samráðs milli aðildarfyrirtækja?

Lárus S Lárusson lögfræðingur hjá SE svarar spurningunniÍ 12. gr. samkeppnislaga segir að samtökum fyrirtækja sé óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Í lögskýringargögnum kemur fram að í ákvæðinu sé hnykkt á því að jafnt samtökum fyrirtækja sem fyrirtækjunum sjálfum sé óheimilt að standa að eða hvetja til hindrana sem brjóta í bága við bannákvæði laganna. Ljóst er samkvæmt þessu að brot á 12. gr. felur í sér sjálfstætt brot á samkeppnislögum enda þótt efnisinntak ákvæðisins komi að nokkru leyti fram í öðrum ákvæðum samkeppnislaga, s.s. 10. gr.

Með ákvörðun samtaka fyrirtækja í skilningi samkeppnisréttarins er átt við hvers konar bindandi eða leiðbeinandi ákvarðanir eða tilmæli sem samtökin beina til aðildarfyrirtækja þannig að þau geti haft áhrif á viðskiptahætti félagsmanna. Engar formkröfur gilda um þessar ákvarðanir samtaka fyrirtækja. Notkun hugtaksins hvatning í 12. gr. samkeppnislaga gefur til kynna að löggjafinn hafi viljað leggja sérstaka áherslu á að ákvæðið taki til hvers konar ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ekki eru bindandi sem hafa það að markmiði að raska samkeppni. Hugtakið hvatning í 12. gr. samkeppnislaga nær þannig til allra aðgerða og ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ætlað er að stuðla að því að aðildarfyrirtæki hegði sér með tilteknum hætti. Það leiðir af orðlagi ákvæðisins að slík hvatning getur verið í hvaða formi sem er. Af þessu leiðir að margvíslegar aðgerðir samtaka fyrirtækja, s.s. tilmæli, ráðleggingar eða upplýsingagjöf, geta fallið undir 12. gr. samkeppnislaga ef þessar aðgerðir hafa það að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða henni raskað.

Þá þarf jafnframt að hafa í huga að á vettvangi samtaka fyrirtækja skapast hætta á upplýsingaskiptum sem kunna að brjóta í bága við bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga jafnvel þótt sú sé ekki ætlunin. Ákævði 10. gr. samkeppnislaga leggur blátt bann við öllu samráði keppinauta sem og samstilltum aðgerðum þeirra á milli. Í því felst að allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskipaleg atriði er bannað. Undir samráð getur fallið hvers konar samskipti milli starfsmanna keppinauta, hvort heldur sem samskiptin eru einhliða eða af beggja hálfu.

Er hægt að sekta fyrirtæki fyrir samráð þótt fyrirtækin séu ekki rekin með hagnaði?

Sóley Ragnarsdóttir lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu svarar spurningunni

Fjárhæð sekta fer eftir  eðli og umfangi brots, hversu lengi brotið hefur staðið yfir og hvort um ítrekuð brot er að ræða. Fleiri þættir geta komið til skoðunar, t.d. stærð brotlegs fyrirtækis, huglæg afstaða stjórnenda og hagnaðarsjónarmið. Sektir geta numið allt að 10% af ársveltu brotlegs fyrirtækis. Hafa ber í huga að samtök fyrirtækja eru einnig sektuð fyrir samkeppnislagabrot. Í tilvikum samtaka fer um sektarákvörðun eftir veltu samtakanna sjálfra eða veltu hvers aðila þeirra sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna tekur til.

Hvergi er að finna skilyrði þess efnis að fyrirtæki verði að vera rekið með hagnaði til þess að sektir verði lagðar á vegna samkeppnislagabrots. Það er þó ljóst að ákvörðun sekta tekur mið af hverju tilviki fyrir sig sem og því markmiði stjórnvaldssekta sem er almennt að hafa varnaðaráhrif. Í tilviki samkeppnisréttar skulu sektir þannig stuðla að framkvæmd samkeppnislaga og þar með aukinni samkeppni. Eins og greinir í samkeppnislögum má falla frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða ef, af öðrum ástæðum, ekki er talin þörf á sektum til að stuðla að og efla virka samkeppni.

Það hvort fyrirtæki eru rekin með hagnaði eða ekki hefur eitt og sér ekki úrslitaáhrif þegar kemur að því að meta hvort og hversu mikið sekta eigi brotlegt fyrirtæki.  Hér er hægt að lesa nánar um hvernig sektir eru ákvarðaðar. 

Geta fyrirtæki lækkað sektir sínar ef þau upplýsa um ólögmætt samráð sem þau taka þátt í?

Lárus S Lárusson lögfræðingur hjá SEReglur um niðurfellingu eða lækkun sekta gilda eingöngu um brot er varða ólögmætt samráð. Fyrirtæki sem er þátttakandi í ólögmætu samráði eða ólögmætum samstilltum aðgerðum getur fengið sektir, sem ella hefðu verið á það lagðar, felldar niður eða lækkaðar. Til þess að eiga möguleika á niðurfellingu sekta í heild þarf fyrirtæki annað hvort að vera fyrst til þess að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á  ólögmætu samráði og leggja fram gögn sem leiða til þess að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á umræddu samkeppnislagabroti hefjist eða vera fyrst til þess að leggja Samkeppniseftirlitinu að eigin frumkvæði í té gögn sem gera eftirlitinu kleift að sanna slík brot. Fyrirtæki á þess ekki kost að fá sektir niðurfelldar að öllu leyti nema það sýni fullan samstarfsvilja og afhendi öll gögn og upplýsingar sem það býr yfir og varða viðkomandi samkeppnislagabrot. Jafnframt þarf viðkomandi fyrirtæki að hætta þátttöku í brotastarfseminni og má auk þess ekki hafa þvingað önnur fyrirtæki til þátttöku í hinu ólögmæta samráði.

Í þessu samhengi skiptir öllu máli að viðkomandi fyrirtæki sé fyrst að borðinu, það er að segja fyrst til þess að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því að ólögmætt samráð eigi sér stað eða fyrst til þess að afhenda gögn sem gera eftirlitinu kleift að sanna slíkt samráð. Sektir verða ekki felldar niður í heild nema Samkeppniseftirlitið hafi ekki áður haft fullnægjandi sönnunargögn til að hefja rannsókn eða til að sanna brot.

Að öðru leyti en að ofan er rakið getur fyrirtæki fengið sektir lækkaðar leggi það fram sönnunargögn sem teljast mikilvæg viðbót við þau gögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar undir höndum. Það er kappsmál fyrir fyrirtæki að vera fyrst til að leggja fram gögn sem eru mikilvæg viðbót því það fyrirtæki sem er fyrst til þess fær hlutfallslega mestu lækkunina. Komi fleiri fyrirtæki síðar og afhenda Samkeppniseftirlitinu gögn sem falla undir það að vera mikilvæg viðbót er hlutfallsleg lækkun sem þau geta fengið á sekt lægri en þess fyrirtækis sem á undan kom. Það fyrirtæki sem kemur næst fær minni lækkun en það sem kom fyrst og svo koll af kolli.

Við mat á því hvaða gögn teljast mikilvæg viðbót er litið til þess að hver miklu leyti gögnin hjálpa við að upplýsa staðreyndir málsins að teknu tilliti til eðlis gagnanna og nákvæmni þeirra. Almennt hafa skrifleg gögn sem stafa frá þeim tíma sem brotastarfsemin fer fram ríkari gildi en gögn sem koma síðar til. Einnig hafa bein sönnunargögn meiri þýðingu en óbein gögn.

Reglur Samkeppniseftirlitsins um niðurfellingu og lækkun sekta eru númer 890/2005 og hægt að nálgast hér.

Af hverju telst það ekki ólöglegt samráð þegar keppinautar auglýsa allir sama verðið á tiltekinni vöru eða þjónustu eða það munar bara nokkrum krónum eða aurum?

KronupeningarEitt af grundvallaratriðum samkeppnislaganna er bann við verðsamráði fyrirtækja. Ólögmætt verðsamráð er fyrir hendi þegar fyrirtæki gera með sér samning eða þau með samstilltum aðgerðum fylgja sameiginlegri áætlun sem takmarkar eða er líkleg til að takmarka sjálfstæða hegðun þeirra á markaðnum. Í þessu felst því að fyrirtæki eiga að ákveða sjálfstætt, hvert fyrir sig, hvernig þau ætla að hegða sér á markaði. Þessi krafa um sjálfstæði bannar þó ekki að fyrirtæki grípi til aðgerða vegna hegðunar keppinauta sinna á markaðnum. Hún bannar hins vegar hvers konar samskipti milli keppinauta, bein eða óbein, sem hafa eða geta haft þau áhrif á hegðun keppinauta á markaðnum að draga úr samkeppni á  milli þeirra eða raska henni. Fyrirtæki gerast t.d. sek um ólögmætt samráð ef þau á fundi, í símtali, í bréfi, í tölvupósti eða með öðrum hætti eiga viðræður eða skiptast á eða taka við upplýsingum um atriði sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun um verð. Það eitt að keppinautar á markaði verðleggi vörur sínar með svipuðum eða sama hætti og elti hver annan í verðbreytingum er því ekki eitt og sér nægilegt til að sýna fram á að um ólögmætt verðsamráð sé að ræða. 

Það er samkvæmt framansögðu skilyrði fyrir því, að um ólögmætt verðsamráð sé að ræða, að fyrirtækin sem um ræðir hafi átt með sér einhvers konar bein eða óbein samskipti. Það kann vissulega að vera erfitt í einstökum tilvikum að greina annars vegar á milli samstilltra aðgerða fyrirtækja, sem þau taka meðvitað þátt í til þess að takmarka samkeppni, og hins vegar þess, þegar fyrirtæki haga sér eins eða líkt á markaði vegna samkeppninnar. Sem dæmi um hið síðarnefnda má nefna fákeppnismarkað en fyrirtæki á t.d. gagnsæjum fákeppnismarkaði hafa sífellt í huga hver viðbrögð keppinautanna á markaðnum verða við tiltekinni aðgerð á markaði t.d. verðlækkun. Yfirleitt á þó athugun á markaðnum og markaðsaðstæðum að geta leitt í ljós hvort um samstilltar aðgerðir sé að ræða. Undir vissum kringumstæðum getur samskonar hegðun keppinauta á markaði falið í sér vísbendingar um ólögmætt samráð.

Hægt er að lesa meira um ólögmætt samráð hér.

Er allt samráð fyrirtækja bannað sem kemur í veg fyrir eða dregur úr samkeppni?

Í stuttu máli er svarið já, allt samráð fyrirtækja sem truflar samkeppni er bannað. Það er meginregla í samkeppnisrétti að fyrirtæki á samkeppnismörkuðum skuli haga sér sjálfstætt um öll þau atriði sem samkeppni er um. Þar má t.d. nefna ákvarðanir um vöruúrval, þjónustuleiðir og verð.

Það skiptir ekki máli hvernig samráðið á sér stað, þ.e. hvort fulltrúar fyrirtækja hittist á fundum, skrifist á, undirriti formlega samninga eða sammælist um markaðshegðun á einhvern annan hátt. Engu máli skiptir heldur hvort þessar samþykktir eru bindandi eða aðeins leiðbeinandi. Það sem skiptir máli við mat á því hvort um ólögmætt samráð sé að ræða er hvort markmið eða afleiðingar þessara samþykkta eru takmörkun eða röskun á samkeppni.

Samtökum fyrirtækja, stjórnarmönnum slíkra samtaka, starfsmönnum þeirra og mönnum sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna er einnig bannað að taka þátt í samráði.

Það er þó viðurkennt í samkeppnisrétti að samráð milli fyrirtækja sem hafa litla hlutdeild á markaði hafi  minni háttar  áhrif  á samkeppnismarkað og efli jafnvel samkeppnisstöðu lítilla fyrirtækja gagnvart stærri keppinautum.  Þess vegna er í samkeppnislögum sk. „minniháttarregla“ sem felur í sér að láréttir samningar (þ.e. samningar milli fyrirtækja sem starfa á sama framleiðslu- eða sölustigi, t.d. samningar milli smásala einungis) falla ekki undir bann við samráði fari markaðshlutdeild allra samstarfsfyrirtækja ekki yfir 5% á neinum markaði sem máli skiptir. Þegar um lóðrétta samninga er að ræða (þ.e. samningar milli fyrirtækja sem starfa á mismunandi framleiðslu- eða sölustigi, t.d. samningar milli heildsala og smásala) er miðað við að fyrirtæki með allt að 10% markaðshlutdeild geti haft samráð án þess að brjóta samkeppnislög.

Einnig er það viðurkennt í samkeppnisrétti að stundum geti samráð fyrirtækja haft jákvæðar afleiðingar, til að mynda ef það eflir tæknilegar framfarir og/eða stuðlar að bættri framleiðslu á vöru. Í þeim tilvikum sem það á við er fyrirtækjum mögulegt að sækja um undanþágu til Samkeppniseftirlitsins og fá þannig heimild til þess að eiga í samráði, sem annars teldist ólögmætt. Slíkar undanþágur þarf að sækja um í hverju tilfelli fyrir sig, nema hópundanþágur eigi við.

Frekari upplýsingar um bann við ólögmætu samráði má finna hér.

Í hverju getur samráð fyrirtækja verið fólgið?

Brynja Stephanie SwanÍ samkeppnislögum er lagt bann við hverskonar samkeppnishamlandi samstarfi á milli tveggja eða fleiri fyrirtækja. Samráð á milli keppinauta telst vera eitt alvarlegasta brotið í samkeppnisrétti enda er ætlast til þess að keppinautar hegði sér að öllu leyti sjálfsætt á markaði.

Ólögmætt samráð á milli fyrirtækja getur bæði verið lóðrétt þ.e. samráð á milli fyrirtækja á sitthvoru sölustiginu t.d. á milli heildsölu og smásala, eða lárétt sem felst í ólögmætu samstarfi fyrirtækja á sama sölustigi t.d. milli tveggja smásala. Sem dæmi um helstu tegundir ólögmæts samráðs má nefna:

 • Verðsamráð sem getur m.a. falist í samkomulagi um að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Þetta á ekki einungis við um endanlegt kaup- eða söluverð heldur getur einnig átt við um samkomulag um t.d. lágmarksverð og viðmiðunarverð.
 • Markaðsskipting sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að skipta með sér mörkuðum eftir t.d. viðskiptavinum, vörutegundum eða landssvæðum.
 • Takmörkun á framleiðslu/framboði sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að framleiða/selja einungis ákveðið magn af vöru með það að markmiði að hækka verð vörunnar.
 • Samráð um gerð tilboða sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að taka ekki þátt í tilteknu útboði, þeir ákveði að skila tilboði með sömu verðum eða þeir ákveði sín á milli hver eigi að fá viðskiptin samkvæmt útboðinu.
 • Upplýsingaskipti milli keppinauta sem geta t.d. falist í að keppinautar sendi sín á milli upplýsingar sem eru til þess fallnar að hafa eða geta haft áhrif á hegðun þeirra á markaðnum og dregið þannig úr óvissu um hvernig keppinauturinn ætlar að hegða sér á markaðnum. 
 • Aðgerðir sem hindra aðgengi nýrra keppinauta inn á markaðinn.

Þær tegundir samráðs sem taldar hafa verið upp hér að framan eiga það sameiginlegt að hafa það að meginmarkmiði að hækka verð á vöru og þjónustu neytendum til tjóns. Samráð fyrirtækja geta því haft mjög skaðleg áhrif á samkeppni og rýrt kjör almennings.

Samkeppniseftirlitið hefur tekið fjölmargar ákvarðanir þar sem fyrirtæki hafa verið sektuð fyrir að taka þátt í ólögmætu samráði en Samkeppniseftirlitið getur lagt háár sektir á fyrirtæki sem taka þátt í slíkum brotum og geta sektirnar numið allt að 10% af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu. Auk þess geta stjórnendur fyrirtækja sem taka þátt í ólögmætu samráði átt á hættu allt að sex ára fangelsisvist.

Hver eru helstu samráðsmál sem samkeppnisyfirvöld á Íslandi hafa upprætt?

Guðmundur Sigurðsson aðstoðarforstjóri SamkeppniseftirlitsinsEins og mörgum er kunnugt er hvers konar samkeppnishamlandi samstarf milli fyrirtækja bannað samkvæmt samkeppnislögum. Oft er í þessu sambandi talað um ólögmætt samráð keppinauta. Getur verið um að ræða ólögmætt samráð um t.d. verð á vöru eða þjónustu, gerð tilboða þegar innkaup eða verkefni eru boðin út og að fyrirtæki skipti með sér mörkuðum. Samkeppnishamlandi ólögmætt samráð er alvarlegasta brot á samkeppnislögum og eru öll samráðsmál því í eðli sínu mikilvæg að mati Samkeppniseftirlitsins.

Þrátt fyrir það eru vitaskuld sum mál mikilvægari en önnur. Sennilega má telja sk. olíumál eða olíusamráð einna mikilvægast og umfangsmest  allra þeirra samráðsmála sem samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa upplýst, sjá ákvörðun. nr. 21/2004 Ólögmætt samráð Kers hf. (áður Olíufélagið hf.), Olíuverslunar Íslands hf., Skeljungs hf. og Bensínorkunnar ehf. Í því fólst m.a. samráð um verð, álagningu, gerð tilboða og markaðsskiptingu. Annað mikilvægt samráðsmál er uppræting á ólögmætu samráði fyrirtækja á grænmetismarkaði, sjá ákvörðun nr. 13/2001, sem m.a. fólst í verðsamráði og markaðsskiptingu dreifingarfyrirtækja. Þá má nefna mjög alvarlegt samráð fyrirtækja á greiðslukortamarkaðnum, sjá ákvörðun nr. 4/2008. Loks skal bent á nýlegt mál þar sem fyrirtækin Tæknivörur og Hátækni höfðu með sér ólögmætt samráð á heildsölumarkaði fyrir farsíma, ákvörðun nr. 7/2013.

Misnotkun á markaðsráðandi stöðu

Hvenær telst fyrirtæki vera markaðsráðandi á tilteknum markaði?

Í samkeppnislögum segir að fyrirtæki hafi markaðsráðandi stöðu:

...þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.

Birgir Óli Einarsson hagfræðingur hjá SE svarar spurningunniMat á markaðsráðandi stöðu fer fram í tveimur skrefum, þ.e. skilgreiningu á þeim markaði sem viðkomandi fyrirtæki starfar og síðan athugun á efnahagslegum styrkleika fyrirtækisins á hinum skilgreinda markaði.

Við mat á stöðu fyrirtækja á markaði skiptir mestu að huga að markaðshlutdeild á umræddum markaði og því skipulagi sem ríkir á markaðnum. Markaðshlutdeild veitir mjög sterka vísbendingu um stöðu fyrirtækja á markaði. Mjög há markaðshlutdeild getur ein sér og falið í sér sönnun á því að viðkomandi fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu nema fyrir hendi séu einstakar kringumstæður sem bendi til annars. Ef markaðshlutdeild er hærri en 50% eru allar líkur á að fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu. Einnig er mikilvægt að bera saman hlutdeild þess fyrirtækis sem verið er meta saman við hlutdeild annarra fyrirtækja á markaði. Ef miklu munar á markaðshlutdeild þess fyrirtækis sem hefur mesta hlutdeild og þess fyrirtækis sem næst kemur í röðinni er líklegt að fyrrnefnda fyrirtækið sé markaðsráðandi. Rétt er að hafa í huga að fyrirtæki geta einnig verið í markaðsráðandi stöðu þrátt fyrir að hafa lægri hlutdeild en 50% á viðkomandi markaði. Þá geta fyrirtæki í undantekningartilvikum talist markaðsráðandi þrátt fyrir að hafa ekki mestu hlutdeildina á viðkomandi markaði.

Skipulag markaðarins skiptir einnig máli við mat á markaðsráðandi stöðu en þar er átt við atriði eins og t.d. aðgangshindranir (laga¬legar hindranir og hindranir tengdar gerð markaðarins), fjárhagslegan styrkleika, stærðarhagkvæmni, lóðrétta samþættingu, tæknilegt forskot, kaupendastyrk, aðgengi að birgjum, þróuð sölukerfi og þekkt vörumerki.

Hafa ber í huga að í hugtakinu markaðsráðandi staða felst ekki krafa um að engin samkeppni ríki á viðkomandi markaði. Um markaðsráðandi stöðu getur þannig verið að ræða þrátt fyrir líflega samkeppni á viðkomandi markaði.

Mega fyrirtæki sem þegar eru á markaði lækka verð þegar nýr keppinautur kemur inn á markaðinn?

Birgir Óli EinarssonStarfandi fyrirtækjum stendur venjulega ógn af mögulegri innkomu nýrra keppinauta á markaðinn þar sem þau starfa. Hugsanleg innkoma nýrra keppinauta veitir aðhald í verðlagningu á vöru og þjónustu þeirra til neytenda. Þegar nýr keppinautur sækir inn á markað er ástæðan oft sú að hann telur sig hafa eitthvað annað fram að færa en þeir sem fyrir eru og ásælist hluta af markaðshlutdeild og hagnaði þeirra. Fyrirtækin sem fyrir eru á markaðnum bregðast oft á tíðum við innkomu nýrra keppinauta með því að reyna að auka hagræðingu til að geta lækkað verð eða með því að bæta þjónustu. Fyrirtækin gera sér grein fyrir að með tilkomu nýrra keppinauta geta þau misst viðskiptavini og þar með tekjur og markaðshlutdeild. Það eiga að vera áhrif aukinnar samkeppni að verð lækki. Verðlækkun fyrirtækja á markaði sem svar við komu nýs keppinautar inn á markaðinn er því að öllu jöfnu eðlileg og æskileg. Annað getur þó verið uppi á teningnum ef markaðsráðandi fyrirtæki bregst við nýjum keppinauti með verðlækkun sem felur í sér að vara er seld undir kostnaðarverði. Einnig getur það verið brot ef markaðsráðandi fyrirtæki grípur til sértækrar verðlækkunar sem ætlað er að raska samkeppni. Þá er um að ræða aðgerð sem beint er gegn nýja keppinautnum sérstaklega eða þeim vörum sem hann selur.

Með framangreindum aðgerðum er markaðsráðandi fyrirtæki að fórna skammtímahagnaði gagngert í því skyni að útiloka keppinaut frá markaði eða hindra inngöngu hans á markaðinn. Báðar þessar aðgerðir fela í sér árásarverðlagningu af einhverju tagi, enda beinast þær gegn keppinauti með því lokatakmarki að hrekja hann af markaði eða skaða samkeppnisstöðu hans með alvarlegum hætti. Sértæk verðlækkun eða undirverðlagning markaðsráðandi fyrirtækis gegn nýjum keppinauti getur falið í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga.

Hver er ástæða þess að það getur verið ódýrara fyrir minni smásala að kaupa vöru í lágvöruverðsverslun heldur en beint frá birgjum og er það löglegt?

Mismunandi verðlagning birgja á vörum til smásala getur leitt til þess að ódýrara sé fyrir smásala að kaupa vöru í lágvöruverðsverslun en beint frá viðkomandi birgi. Þekkt er að lágvöruverðsverslanir, sem eru hluti af stærri verslanasamstæðum, geta fengið betri kjör hjá birgjum en minni smásalar. Í vissum tilvikum getur það talist eðlilegt, þar sem stærri verslanakeðjur geta notið magnhagræðis og fengið afslátt hjá birgi enda kaupa þær margfalt magn á við aðrar verslanir. Þá getur verið að birgjar veiti þeim verslanakeðjum frekari afslátt ef þær sjá sjálfar um að dreifa vörum í búðir sínar og raða þeim í hillur. Þannig geta aðrir smásalar, sem ekki fá slíka afslætti, þurft að greiða birgjum hærra verð fyrir sömu vöru. Af þeim sökum eiga verslanirnar takmarkaða möguleika á að stunda verðsamkeppni, enda myndu þær almennt hafa litla álagningu út úr vörusölu sinni ef þær myndu jafna verð lágvöruverslana innan verslanasamstæðna. Hugsanlegt er að lægsta smásöluverð lágvöruverðsverslana sé lægra en innkaupsverð minni verslana. Þess vegna getur verið hagkvæmara fyrir smásala að kaupa tiltekna vöru hjá lágvöruverðsverslun.

Er því afar brýnt að birgjar hugi sérstaklega að því hvort munur á verði til einstakra smásala leiði af eðlilegu magnhagræði eða samkeppnishamlandi kaupendastyrk viðkomandi verslunarkeðju. Ef að birgir, sem er í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði, getur ekki sýnt fram á að eðlilegar forsendur liggi til grundvallar betri kjörum tiltekinna aðila, þá getur slík óeðlileg verðlagning falið í sér brot á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið leggur mat á það í hverju máli fyrir sig hvort verðlagning teljist lögmæt með hliðsjón af eðli viðskiptanna og markaðsstöðu þeirra fyrirtækja sem að þeim koma.

Þess ber að geta að í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2012, Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði, fjallaði eftirlitið um viðskiptakjör birgja til smásala á dagvörumarkaði. Samkeppniseftirlitið hóf sjálfstæða rannsókn á kjörum nokkurra birgja til smásala í júlí 2012.

Hvað er undirverðlagning og felur hún alltaf í sér brot á samkeppnislögum?

Undirverðlagning er það þegar fyrirtæki selur vöru eða þjónustu undir tilteknu kostnaðarviðmiði. Almennt er miðað við verð undir meðaltali breytilegs kostnaðar. Undirverðlagning getur farið gegn samkeppnislögum ef um er að ræða markaðsráðandi fyrirtæki. Getur slík háttsemi mögulega skapað eða viðhaldið hindrunum inn á markaði og þannig haft skaðlegar afleiðingar fyrir samkeppni.

Við mat á því hvort undirverðlagning feli í sér brot á samkeppnislögum þarf því fyrst að komast að niðurstöðu um hvort hlutaðeigandi fyrirtæki hafi verið í markaðsráðandi stöðu á þeim tíma sem undirverðlagningin átti sér stað. Ef svo er þarf að taka til skoðunar umfang undirverðlagningarinnar og í hve langan tíma hún hefur staðið. Undirverðlagning getur falið í sér brot á samkeppnislögum þegar markaðsráðandi fyrirtæki selur vöru eða þjónustu á undir kostnaðarverði samfellt í ákveðinn tíma í þeim tilgangi að styrkja markaðsráðandi stöðu sína og jafnvel ýta keppinaut(um) sínum út af markaðinum eða til að hindra innkomu nýs eða nýrra keppinauta.

Reglum sem ætlað er að vinna gegn undirverðlagningu byggja á þeirri hugmyndarfræði að það sé óæskilegt að markaðsráðandi fyrirtæki geti í skjóli fjárhagslegs styrks selt vöru á óeðilega lágu verði til þess að að eyða samkeppni. Jafnvel þó neytendur njóti þess til skamms tíma að fá viðkomandi vöru á mjög lágu verði vegna undirverðlagningar er talið að sú röskun á samkeppninni sem stafar af undirverðlagningu leiði þegar til lengri tíma er litið til hærra verðs, minni gæða og fækkunar á valkostum neytenda. Þannig geta afleiðingarnar undirverðlagningar markaðsráðandi fyrirtækis t.a.m. verið þær að veikari keppinautar sjá ekki ástæðu til að taka þátt í samkeppni. Þar fyrir utan er ljóst að hvati að því að leggja til atlögu við markaðsráðandi fyrirtæki verður minni ef þeim er frjálst að bregðast við samkeppni með því að verðleggja vöru sína undir kostnaðarverði. Loks getur afleiðing undirverðlagningar orðið sú að keppinautar neyðist til hætta starfsemi.

Fræðilega séð eru ákveðin tilvik þar sem undirverðlagning markaðsráðandi aðila felur ekki í sér brot á samkeppnislögum. Fellur það almennt í hlut hlutaðeigandi fyrirtækisins að færa sannfærandi málefnaleg rök fyrir því. Sala á birgðum sem eru að nálgast eða komnar rétt yfir síðasta söludag eða kynningartilboð á nýjum vörum geta t.a.m. verið hugsanlegar réttlætingar á undirverðlagningu.

Samkeppnisyfirvöld hafa í nokkrum tilvikum þurft að grípa til aðgerða vegna skaðlegrar undirverðlagningar markaðsráðandi fyrirtækja. Dæmi um slík mál má nefna undirverðlagningu Bónus á mjólkurvörum á árunum 2005 og 2006, undirverðlagningu Icelandair þegar Iceland Express var að koma inn á markaðinn og undirverðlagninguSímans með 3G netlykilatilboði sem fyrirtækið gerði notendum sumarið 2009.

Hægt er að lesa meira um framangreind mál með því að smella á nöfn fyrirtækjanna hér að framan.

Hvað er sameiginleg markaðsráðandi staða?

Steingrímur Ægisson sviðsstjóri hjá SamkeppniseftirlitinuSamkvæmt samkeppnislögum er fyrirtæki markaðsráðandi þegar það hefur mikinn efnahagslegan styrkleika og getur hindrað virka samkeppni og að miklu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda. Há markaðshlutdeild (meiri en 50%), mikill fjárhagslegur styrkleiki samanborið við keppinauta og aðgangshindranir eru á meðal atriða sem veita vísbendingar um markaðsráðandi stöðu.

Í sumum tilvikum getur staðan verið sú að tvö eða fleiri fyrirtæki á sama markaði teljast vera í svokallaðri sameiginlegri markaðsráðandi stöðu. Slík staða gerir viðkomandi fyrirtækjum kleift að samhæfa hegðun sína á markaðnum án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda. Fyrirtækin eru því í stöðu til þess að takmarka samkeppni og hækka verð eða draga úr þjónustu.

Við mat á því hvort fyrirtæki séu sameiginlega markaðsráðandi þarf að kanna hvort  viðkomandi markaður einkennist af því sem kallað hefur verið þegjandi samhæfing fyrirtækja (e. tacit collusion). Með því er átt við aðstæður sem gera fyrirtækjum kleift að móta sameiginlega eða samræmda markaðsstefnu og starfa að verulegu leyti án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina eða neytenda. Atriði sem veita vísbendingar um þetta eru m.a.:

 • Mikil samþjöppun á markaðnum og svipuð hlutdeild þeirra fyrirtækja sem deila sameiginlegri markaðsráðandi stöðu
 • Efnahagsleg og formbundin tengsl á milli fyrirtækjanna
 • Gagnsær markaður og einsleitar vörur
 • Stöðug eftirspurn og svipuð kostnaðaruppbygging fyrirtækjanna
 • Aðgangshindranir

Ekki er skilyrði fyrir sameiginlegri markaðsráðandi stöðu að öll nefnd atriði séu uppfyllt. Þá þurfa fyrirtækin ekki endilega að móta sameiginlega markaðsstefnu með samráði sín á milli heldur er nóg að hún myndist með þegjandi samhæfingu þeirra. Þetta þýðir að fyrirtæki taka gagnkvæmt tillit hvert til annars og geta þá m.a. vitað með nokkurri vissu hver viðbrögð keppinauta verða við tilteknum markaðsaðgerðum. Fyrirtækin hafa því ekki nauðsynlegt samkeppnislegt aðhald heldur leiða aðstæður á markaðnum til þess að þau verða samstíga í hegðun, t.d. með því að takmarka framboð á vöru eða þjónustu til þess að geta hækkað söluverð með það að leiðarljósi að samræmd markaðshegðun leiði til hámörkunar á sameiginlegum hagnaði.

Samkeppnisyfirvöld hafa í nokkrum málum tekið til skoðunar sameiginlega markaðsráðandi stöðu fyrirtækja, sjá m.a. ákvörðun nr. 28/2006 þar sem fjallað var um samruna Lyfja og heilsu og Lyfjavers, sbr. úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 6/2006; ákvörðun nr. 50/2008 (yfirtaka Kaupþings á SPRON); ákvörðun nr. 15/2009 (kaup Myndforms á 50% hlut í Þrjúbíói) og ákvörðun nr. 4/2010 þar sem til skoðunar var misnotkun Lyfja og heilsu á markaðsráðandi stöðu, sbr. úrskurður áfrýjunarnefndar í máli nr. 5/2010.

Samrunar

Hvaða upplýsingar þurfa fyrirtæki, sem ákveða að sameinast, að leggja fram til að mat á lögmæti samruna geti farið fram?

Í 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er fjallað um samruna fyrirtækja og úrræði samkeppnisyfirvalda þar að lútandi. Samkeppniseftirlitið hefur heimildir til að ógilda samruna fyrirtækja telji eftirlitið að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða, eins eða fleiri fyrirtækja, verði til eða slík staða styrkist. Niðurstöður Samkeppniseftirlitsins varðandi lögmæti samruna eru grundvölluð á upplýsingum sem viðkomandi samrunafyrirtækjum ber að leggja fram. Á grundvelli 3. mgr. 17. gr. samkeppnislaga hefur eftirlitið sett sér reglur nr. 881/2005 þar sem nánar eru tilgreindar þær upplýsingar sem fram verða að koma í tilkynningu um samruna. Í slíkri tilkynningu skulu vera þær upplýsingar, þar á meðal skjöl, sem óskað er eftir í skrá um upplýsingar í viðauka við ofangreindar reglur nr. 881/2005. Upplýsingarnar skulu vera réttar og fullnægjandi. Skrá yfir upplýsingar sem þurfa að koma fram í tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins um samruna fyrirtækja má finna hér.

Af hverju koma ekki allir samrunar fyrirtækja til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu?

Guðmundur Sigurðsson aðstoðarforstjóri SamkeppniseftirlitsinsÞað er almennt talið að samrunar smærri fyrirtækja séu ekki skaðlegir samkeppni. Þess vegna er samkvæmt samkeppnislögum aðeins skylt að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um samruna þegar sameiginleg ársvelta þeirra fyrirtækja sem renna eiga saman er tveir milljarðar króna eða meira á Íslandi. Einnig þarf það skilyrði fyrir tilkynningaskyldu að vera uppfyllt að a.m.k. tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samruna séu, hvert um sig, með að lágmarki 200 m.kr. ársveltu á Íslandi. Þrátt fyrir þessi almennu veltuskilyrði hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að krefjast tilkynningar um samruna ef sameiginleg heildarvelta samrunafyrirtækja er meira en einn milljarður króna. Samkeppniseftirlitið beitir þessari heimild þó aðeins í undantekningartilvikum, þ.e. þegar eftirlitið telur að samruni sem ekki uppfyllir hin almennu veltuskilyrði geti dregið úr virkri samkeppni.

Samruni fyrirtækja sem starfa á sama samkeppnismarkaði, svokallaður láréttur samruni, getur verið skaðlegur fyrir samkeppni á þeim markaði sem samrunafyrirtækin starfa. Keppinautum á viðkomandi markaði fækkar um a.m.k. einn við samrunann en það getur verið óheppilegt hér á landi þar sem mikið er um svokallaða fákeppnismarkaði. Sem dæmi um fákeppnismarkaði hér á landi má nefna flugmarkaðinn, markað fyrir áætlunarsiglingar fraktskipa og olíumarkaðinn. Samruni getur þegar þannig stendur á leitt til þess að hið sameinaða fyrirtækið komist í markaðsráðandi stöðu eða styrki markaðsráðandi stöðu sem hefur verið fyrir hendi áður en til samrunans kom. Í þeim tilvikum sem samruni fyrirtækja er talinn vera skaðlegur samkeppni getur Samkeppniseftirlitið ógilt samrunann eða sett honum skilyrði sem ætlað er að eyða skaðanum.

Loks má benda á að samruni smærri fyritækja á tilteknum markaði getur stundum verið æskilegur og leitt til virkari samkeppni á markaðnum. Með samrunanum geta hin sameinuðu fyrirtæki nefnilega veitt stærri keppinautum á viðkomandi markaði meira og styrkara samkeppnislegt aðhald en þau gátu hvert í sínu lagi.

Opinberar samkeppnishömlur

Mega sveitarfélög eða aðrir opinberir aðilar starfa á samkeppnismarkaði?

Þorbergur Þórsson hagfræðingur hjá SamkeppniseftirlitinuFrá sjónarmiði samkeppnislaga er meginreglan sú að sveitarfélög eða aðrir opinberir aðilar geta starfað á samkeppnismarkaði, eða með öðrum orðum stundað rekstur í samkeppni við einkafyrirtæki á markaðnum. Þegar opinberir aðilar stunda slíkan samkeppnisrekstur á markaði eru hins vegar gerðar strangari kröfur til þeirra en almennt til einkafyrirtækja. Það helgast einkum af því að opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög og ríkisstofnanir, eru að jafnaði reknir af opinberu fé. Hinir opinberu aðilar fá t.d. tekjur samkvæmt fjárlögum eða eru með öðrum lögum markaðir sérstakir tekjustofnar. Af þeirri ástæðu og vegna annarra aðstæðna geta opinberir aðilar haft forskot í samkeppni á aðra keppinauta sem treysta þurfa á eigin fjármögnun og tekjuöflun til að standa straum af öllum rekstrarkostnaði.

Segja má að kröfurnar sem gerðar eru til opinberra aðila sem stunda rekstur sem er eða gæti verið í samkeppni við einkaaðila, samhliða því að inna af hendi opinbera þjónustu, séu áþekkar kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja sem hafa svonefnda markaðsráðandi stöðu.

Á grundvelli 14. gr. samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið mælt fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli samkeppnisrekstrar opinbers aðila og þess rekstrar sama aðila sem nýtur einkaleyfis eða verndar, t.d. í því formi að þiggja opinbert fé til starfseminnar. Þegar kveðið er á um fjárhagslegan aðskilnað í þessu samhengi er það gert í þeim tilgangi að opinbert fé sé ekki nýtt til að greiða niður samkeppnisrekstur.

Þá getur Samkeppniseftirlitið, á grundvelli 16. gr. samkeppnislaga, gripið til annars konar íhlutunar en að framan greinir gegn háttsemi opinbers aðila sem hefur skaðleg áhrif á samkeppni. Unnt er að banna slíka háttsemi ef hún á sér ekki stoð í sérstökum lögum sem um hana gilda. Samkeppniseftirlitið hefur í tímans rás gert athugasemdir við óheppilegan og samkeppnishamlandi samkeppnisrekstur opinberra aðila. Sem nýleg dæmi má nefna útleigu á húsnæði í eigu ríkisins fyrir hótelrekstur, rekstur líkamsræktarstöðva í tengslum við sundlaugarekstur og aðgang að malarnámi.

Einn vandi sem kemur upp þegar t.d. sveitarfélag hefur hafið rekstur á sviði sem enginn annar hefur gert á viðkomandi svæði felst í því að erfiðara verður en áður fyrir einkaaðila að hefja rekstur á sama sviði. Hinn opinberi rekstur getur þannig hindrað aðgang einkaaðila inn á markaðinn.

Undanþágur

Getur Samkeppniseftirlitið veitt fyrirtækjum undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislaga?

Steingrímur Ægisson sviðsstjóri hjá SamkeppniseftirlitinuSamkvæmt samkeppnislögum er allt samkeppnishamlandi samstarf á milli fyrirtækja bannað. Um getur verið að ræða t.d. samráð um verð, álagningu, afslætti eða önnur viðskiptakjör. Einnig er óheimilt að hafa samráð um m.a. gerð tilboða þegar vörukaup eða þjónusta hefur verið boðin út. Þá er fyrirtækjum óheimilt að skipta með sér mörkuðum eftir t.d. viðskiptavinum eða landsvæðum. Öll samvinna eins og hér er lýst á skapar hættu á að fyrirtæki fari að taka tillit til hvors annars og það dragi úr virkri samkeppni.

Hins vegar er viðurkennt að samstarfssamningar á milli fyrirtækja sem ekki hafa það markmið að raska samkeppni geti haft jákvæð efnahagsleg áhrif. Hefur Samkeppniseftirlitið því heimild í samkeppnislögum til að veita undanþágu frá ákvæðum sem banna samkeppnishamlandi samstarf á milli fyrirtækja og einnig samtaka þeirra. Samkeppniseftirlitinu er þó ekki heimilt að veita undanþágu frá banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Í samkeppnislögum koma fram skilyrði sem öll þurfa að vera uppfyllt svo hægt sé að veita samstarfi undanþágu. Þau eru m.a. að samstarfið stuðli að bættri framleiðslu eða dreifingu, efli tæknilegar og efnahagslegar framfarir og veiti neytendum hlutdeild í þeim ávinningi sem af hlýst. Þá er mikilvægt að samstarfið gangi ekki lengra en þörf er á og takmarki ekki samkeppni á verulegum hluta markaðarins. Við mat á því hvort skilyrði eru fyrir undanþágu þarf ávallt að skoða aðstæður á þeim markaði eða mörkuðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa á eða undanþágan hefur áhrif á. Þá þarf að meta samkeppnisleg áhrif samstarfsins og hvort skilyrðin séu uppfyllt. Undanþágur eru yfirleitt tímabundnar og geta verið veittar með skilyrðum sem viðkomandi fyrirtækjum eru sett til að samstarf þeirra geti náð fram að ganga. Brot á slíkum skilyrðum geta sætt viðurlögum samkvæmt samkeppnislögum.

Samkeppniseftirlitið hefur á liðnum árum veitt fjölmargar undanþágur frá bannákvæðum samkeppnislaga. Eftirfarandi eru fjögur dæmi:

 • Í maí 2012 voru sett skilyrði sem m.a. var ætlað að vinna gegn því að starfsemi Reiknistofu bankanna hf. og samvinna á vettvangi hennar raskaði samkeppni, þ.m.t. á milli eigenda hennar og annarra aðila á fjármálamarkaði. Þá var skilyrðunum ætlað að vinna gegn því að starfsemi Reiknistofu bankanna og háttsemi hluthafa hennar raskaði samkeppni á upplýsingatæknimarkaði. Enn fremur var skilyrðunum ætlað að ýta undir og skapa möguleika fyrir aðra en fjármálafyrirtæki að eignast hlut í Reiknistofu bankanna. (Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2012)
 • Samstarfi banka og sparisjóða um kaup, uppsetningu og innleiðingu á öryggisbúnaði (öryggislykli) vegna netbankaviðskipta var í desember árið 2006 veitt undanþága til að koma í veg fyrir að misfarið væri með aðgangsupplýsingar netbankanotenda. (Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 50/2006) Undanþágan var tímabundin en hefur verið framlengd, nú síðast í desember árið 2013. (Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 31/2013)
 • Í desember 2009 var flutningasamningi á milli Samskipa hf. og Eimskips Ísland ehf. um áætlunarflutninga á sjó á milli Íslands og Norður-Ameríku veitt tímabundin undanþága. (Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 46/2009)
 • Nýju sendibílastöðinni hf. var í júní 2014 veitt tímabundin heimild til að gefa út samræmda hámarksökutaxta fyrir bílstjóra sem reka sendibíla með afgreiðslu hjá stöðinni. Undanþágan er tímabundin til 30. júní 2019 og skilyrði hennar eru m.a. að ákvörðun um hámarkstaxtann sé tekin sameiginlega af bílstjórum og stjórnendum stöðvarinnar og að taxtinn sé sýnilegur viðskiptavinum. (Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2014)

Annað

Hvaða gögn má Samkeppniseftirlitið nota til að byggja rannsókn sína á?

Á grundvelli 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 hefur Samkeppniseftirlitið ríkar heimildir til að krefja fyrirtæki og aðra sem lögin taka til um upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála, þ.m.t. að fá gögn afhent til athugunar.  Samkeppniseftirlitið getur m.a. krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra, þ.m.t. skattyfirvöld og tollyfirvöld.

Samkeppniseftirlitið hefur einnig sérstaka lagaheimild í 20. gr. samkeppnislaga til þess að framkvæma húsleit og haldleggja gögn á starfsstað fyrirtækis og samtökum fyrirtækja í þeim tilvikum þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Við framkvæmd slíkra aðgerða skal eftirlitið fylgja ákvæðum sakamálalaga um leit og hald á munum. Þarf Samkeppniseftirlitið því að afla sér dómsúrskurðar um heimild til leitar og haldlagningar. Þau gögn sem aflað er í slíkum húsleitum má Samkeppniseftirlitið nota til að byggja rannsókn sína á. Geta leitarþolar þó borið lögmæti haldlagningar undir dóm á grundvelli sakamálalaga.

Þrátt fyrir ríkar heimildir Samkeppniseftirlitsins til þess að afla gagna til að byggja rannsóknir sínar á njóta fyrirtæki þó takmarkaðs þagnarréttar í samkeppnisrétti sem miðast við að fyrirsvarsmenn fyrirtækja þurfi ekki að tjá sig um spurningar og upplýsingar sem fela í sér huglægt mat um það hvort brotið hafi verið gegn samkeppnislögum.
Til þess að undirstrika þá ríku skyldu sem fyrirtæki og opinberir aðilar hafa til þess að afhenda eftirlitinu gögn varða brot á upplýsingaskyldu  m.a. stjórnvaldssektum eða dagsektum, sbr. 37. og 38. gr. laganna.

Geta einstaklingar borið ábyrgð vegna brota á samkeppnislögum?

Eva Ómarsdóttir sviðsstjóri/lögfræðingur hjá SamkeppniseftirlitinuÁrið 2007 var refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum afmörkuð nánar en áður gilti. Með breytingunum var refsiábyrgð einstaklinga gerð skýrari og nánar fjallað um verkaskiptinu og samvinnu samkeppnisyfirvalda og lögreglu við rannsókn brota gegn samkeppnislögum.

Refsiábyrgð einstaklinga vegna brota á samkeppnislögum er afmörkuð við brot sem fela í sér ólögmætt samráð en þau eru talin alvarlegustu samkeppnislagabrotin. Ástæða þess er sú að í málum þar sem grunur leikur á samráði eru miklir hagsmunir í húfi fyrir neytendur og atvinnulífið enda getur ólögmætt samráð fyrirtækja haft í för með sér verulegan efnahagslega skaða. Samkvæmt núgildandi samkeppnislögum getur einstaklingur, þ.e. starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis, sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sætt sektum eða fangelsi allt að sex árum. Nánar tiltekið tekur refsiábyrgðin til samráðs um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör, samráðs um skiptingu á mörkuðum og takmörkun á framleiðslu, samráðs um gerð tilboða, samráðs um að eiga ekki viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða neytendur og svo til upplýsingagjafar um þessi tilteknu atriði. Þá heyrir hér einnig undir samráð fyrirtækja sem hefur það að markmiði að fyrirtækin keppi ekki sín á milli.

Samkeppnislagabrot einstaklinga sæta einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Samkeppniseftirlitið metur í hvert sinn með tilliti til grófleika brots hvort kæra skuli mál til lögreglu. Mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið gæti samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Þá er rétt að taka það fram að Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann eða fyrirtækið sem hann starfar hjá haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna samráðsbrota sem geta leitt til sönnunar á brotunum eða teljast mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar í höndunum.

Samkeppniseftirlitinu  er heimilt að afhenda lögregluyfirvöldum gögn og upplýsingar sem aflað hefur verið og tengjast umræddum brotum sem til rannsóknar eru. Á sama hátt getur lögreglan afhent Samkeppniseftirlitinu gögn og upplýsingar sem máli skipta. Þá er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsóknina og lögreglu er jafnframt heimilt að taka þátt í aðgerðum samkeppnisyfirvalda.

Á að leita til Samkeppniseftirlitsins með kvartanir vegna óréttmætra viðskiptahátta, þar á meðal vegna rangra eða villandi auglýsinga?

Nei, kvörtunum og fyrirspurnum vegna óréttmætra viðskiptahátta, þar á meðal vegna rangra eða villandi auglýsinga, á að beina til Neytendastofu , en 1. júlí 2005 tók hún við þessum verkefnum af Samkeppnisstofnun og samkeppnisráði. Kveðið er á um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gegnsæi markaðarins í lögum nr. 57/2005

Hvert á að leita vegna mála sem varða samkeppni á raforkumarkaði?

Vegna ætlaðra brota á samkeppnislögum á að leita til Samkeppniseftirlitsins. Rétt er hins vegar að taka fram að samkeppnislög eru almenn lög sem gilda um raforkumarkaðinn að því leyti sem sérlög á því sviði ganga ekki framar. Samkvæmt núgildandi lögum nær samkeppnin fyrst og fremst til framleiðslu og sölu rafmagns en flutningur þess og dreifing verður áfram sérleyfisstarfsemi, sem að meginstefnu til er undir eftirliti Orkustofnunar.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um raforkuverð og samninga við raforkusala á síðu Orkustofnunnar.

Hvernig fylgist Samkeppniseftirlitið með því hvort einstök fyrirtæki eða samsteypur séu að brjóta samkeppnislög?

StækkunarglerÍ gegn um vefsíðu okkar gefst almenningi kostur á að senda Samkeppniseftirlitinu ábendingar um mögulegt brot á samkeppnislögum. Við mat Samkeppniseftirlitsins á því hvort slíkar ábendingar gefa tilefni til rannsóknar er m.a. horft til þess hversu mikil áhrif meint brot eða samkeppnishömlur mögulega hafa á samkeppni og hversu alvarleg brotin geti verið.Sérfræðingar sem starfa hjá Samkeppniseftirlitinu fylgjast hver um sig með einum eða fleiri mörkuðum. Verði sérfræðingar eftirlitsins varir við óeðlilega hegðun á markaði geta þeir brugðist við og Samkeppniseftirlitið í framhaldi hafið rannsókn á málinu að eigin frumkvæði. Fyrstu skrefin í slíkri rannsókn eru oft þau að eftirlitið aflar gagna og upplýsinga um viðskiptahætti og starfsemi á viðkomandi markaði. Ef slík rannsókn gefur til kynna að ekki sé allt með felldu getur Samkeppniseftirlitið rannsakað málið nánar og gripið til aðgerða. Mál sem tekin eru til meðferðar að eigin frumkvæði Samkeppniseftirlitsins geta þannig hafist vegna ábendinga frá almenningi eða fyrirtækjum, upplýsinga sem birtast í fjölmiðlum og vegna mats á samkeppnisskilyrðum á einstökum mörkuðum. Samkeppniseftirlitið getur einnig tekið mál til rannsóknar á grundvelli formlegra erinda sem eftirlitinu berast frá fyrirtækjum eða öðrum sem hafa hagsmuna að gæta og telja á sér brotið. Í málsmeðferðarreglum Samkeppniseftirlitsins kemur fram að öllum sé heimilt að snúa sér til Samkeppniseftirlitsins og vekja athygli á atvikum sem þeir telja brjóta í bága við samkeppnislög.

Með hvaða hætti leiðbeinir Samkeppniseftirlitið fyrirtækjum?

benedikt_arnasonSamkeppniseftirlitið leggur áherslu á að upplýsingar sem nýtast sem leiðbeiningar um framkvæmd samkeppnislaga séu almenningi og fyrirtækjum aðgengilegar. Þannig heldur eftirlitið úti vefsíðu með fjölbreytilegum upplýsingum, þar sem birtar eru ákvarðanir, fréttir, pistlar, skýrslur, álit, og ýmislegt fræðsluefni. Vefsíðan var síðast endurskoðuð í október 2012 í því skyni að gera hana enn aðgengilegri fyrir notendur. Samkeppniseftirlitið er einnig á Fésbók og Tvitter. Þar er birt ýmislegt fræðsluefni í léttari kantinum, til viðbótar við hefðbundið efni. Auk framangreinds miðlar Samkeppniseftirlitið upplýsingum til fyrirtækja og annarra um nýjar ákvarðanir, fréttir og skýrslur.

Samkeppniseftirlitið hefur gefið út fjölda skýrslna um samkeppnisaðstæður á ýmsum mörkuðum, bæði eitt og sér og í samstarfi við samkeppniseftirlit á hinum Norðurlöndunum. Þessum skýrslum hefur oft verið fylgt eftir með ráðstefnum sem hafa verið fjölsóttar. Hér á þessum tengli má finna skýrslur Samkeppniseftirlitsins, ræður og kynningar.

Á það verður að leggja áherslu að fyrri ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins og álit sem birtast á vefsíðu eftirlitsins eiga að gefa markaðnum ríka leiðbeiningu. Á vefsíðu eftirlitsins má þannig t.d. í ákvörðunum finna greiningar á markaðsráðandi stöðu á fjöldamörgum mörkuðum. Í mörgum tilvikum er líka að finna ítarlega rökstudda leiðbeiningu um hvað markaðsráðandi fyrirtækjum er leyfilegt og hvað ekki. Samkeppniseftirlitið gefur hins vegar að öllu jöfnu fyrirtækjum ekki fyrirfram leiðbeiningu um hvort þau kunni að vera í markaðsráðandi stöðu. Þrátt fyrir þetta gefur Samkeppniseftirlitið fyrirtækjum og samtökum þeirra kost á að eiga fundi með starfsmönnum eftirlitsins þar sem unnt er að skiptast á upplýsingum og skoðunum um samkeppnismál. Það er rétt að árétta að það er mat Samkeppniseftirlitsins að fyrirtækin sjálf sem starfa á samkeppnismörkuðum  hafi bestar upplýsingar um hvort þau séu markaðsráðandi eða ekki. Ef stjórnandi telur sig geta beitt fyrirtækinu til þess að koma keppinauti út af markaðnum, þá veit hann líka að hann verður að gæta sín á því að gera það ekki með aðgerðum sem ekki byggja á sanngjörnum, málefnalegum viðskiptaháttum sem byggja á eðlilegum kostnaðarlegum forsendum. Það sem hann má ekki gera er nokkuð þekkt. Hann má t.d. ekki gera einkakaupasamninga, hann má ekki undirverðleggja og hann má ekki ráðast í sérstakar atlögur sem beint er gegn litlum keppinauti. En hann má keppa á eðlilegum forsendum.

Hvernig getur almenningur komið upplýsingum til Samkeppniseftirlitsins?

Mannaudur_02Samkvæmt málsmeðferðarreglum Samkeppniseftirlitsins er öllum heimilt að snúa sér til Samkeppniseftirlitsins og vekja athygli á atvik sem þeir telja brjóta í bága við samkeppnislög eða raska samkeppni. Það eru nokkrar leiðir sem almenningur getur nýtt sér til að koma á framfæri upplýsingum til Samkeppniseftirlitsins.

Fyrst má nefna að unnt er að senda Samkeppniseftirlitinu ábendingar um möguleg samkeppnislagabrot í gegnum vefsíðu Samkeppniseftirlitsins, hvort sem er nafnlaust eða undir nafni. Samkeppniseftirlitið heldur utan um og fer yfir allar þær ábendingar sem því berast auk þess sem það kannar hvort ástæða sé til afskipta af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Slíkar ábendingar geta orðið grundvöllur að því að Samkeppniseftirlitið taki mál til rannsóknar að eigin frumkvæði. Rétt er að geta þess að sá sem sendir Samkeppniseftirlitinu ábendingu telst ekki vera formlegur aðili að máli sem mögulega hefst í kjölfar ábendingar hans.

Jafnframt er hægt að koma upplýsingum á framfæri við Samkeppniseftirlitið í í gegnum netfang Samkeppniseftirlitsins, samkeppni@samkeppni.is eða með því að hringja í síma 585-0700 og ræða við sérfræðingana sem starfa hjá Samkeppniseftirlitinu. Hjá Samkeppniseftirlitinu starfa bæði hagfræðingar og lögfræðingar auk annarra, en þessir sérfræðingar hafa m.a. það hlutverk að fylgist hver um sig með samkeppnisstöðunni á einum eða fleiri markaði.

Ennfremur má geta þess að Samkeppniseftirlitinu berast ýmsar upplýsingar á fundum sem Samkeppniseftirlitið á með bæði fyrirtækjum og öðrum aðilum á markaði.

Að lokum er þó rétt að benda á að þeir sem hagsmuna hafa að gæta og telja á sér brotið geta að sjálfsögðu sent Samkeppniseftirltiinu formleg erindi þar sem óskað er eftir að Samkeppniseftirlitið taki mál til rannsóknar á grundvelli erindisins. Upplýsingar um hvaða kröfur eru gerðar til formlegra erinda er að finna í 6. gr. málsmeðferðareglna Samkeppniseftirlitsins nr. 880/2005.

Eru samkeppnislög séríslenskt eða eru þau byggð á alþjóðlegum fyrirmyndum?

Núgildandi samkeppnislögbyggja að miklu leyti á alþjóðlegum fyrirmyndum en taka þó mið af íslenskum aðstæðum. Íslenskur samkeppnisréttur sækir um margt fyrirmynd til samkeppnisreglna Evrópusambandsins. Ber helst að nefna skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæði (EES samningurinn) og reglugerðir Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í EES samninginn.
Í því samhengi má nefna að þau ákvæði samkeppnislaga sem kveða á um bann gegn ólögmætu samráði  og misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu sinni eru byggð á samsvarandi ákvæðum EES samningsins. Auk þess byggja samrunareglur samkeppnislaga að miklu leyti á reglugerðum Evrópusambandsins um samruna. Við túlkun framangreindra ákvæða hefur Samkeppniseftirlitið því almennt hliðsjón af EES/ESB samkeppnisrétti.Að lokum má nefna að samkeppnisreglur EES samningsins gilda samhliða hinum íslensku samkeppnislögum. Er þeim beitt þegar samningar og ákvarðanir fyrirtækja á EES svæðinu geta haft bein eða óbein áhrif á viðskipti á svæðinu.

Hvaða mál heyra undir Neytendastofu frekar en Samkeppniseftirlitið?

Fram á mitt ár 2005 framfylgdi Samkeppnisstofnun (ásamt samkeppnisráði) banni og eftirliti með samkeppnishömlum og annaðist eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Þann 1. júlí 2005 var Neytendastofu komið á fót með lögum nr. 62/2005 og tók hún yfir síðastnefnda þáttinn í starfi Samkeppnisstofnunar ásamt fleiri verkefnum. Á sama tíma og Neytendastofa tók til starfa gengu í gildi samkeppnislög nr. 44/2005 og hóf Samkeppniseftirlitið þá starfsemi. Verkefni Samkeppniseftirlitsins felast í því samkeppniseftirliti sem Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð önnuðust áður.
 
Þessi forsaga kann að útskýra ástæðu þess að sumum er ekki að fullu ljóst hvaða verkefni heyra undir Neytendastofu og hver undir Samkeppniseftirlitið.
 
Lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er m.a. ætlað að tryggja að fyrirtæki beiti ekki óréttmætum viðskiptaháttum í kynningarstarfsemi sinni neytendum til tjóns. Örðugt er að skilgreina námvæmlega hvað felst í óréttmætum viðskiptaháttum en ákvæðin sem um þá fjalla fela í sér bann við rangri og villandi upplýsingagjöf um söluvöru m.a. í auglýsingum, bann við notkun villandi auðkenna m.a. á netinu og önnur bannákvæði í þessa veru. Í 8. gr. laganna um eftirlit með viðskiptaháttum segir að viðskiptahættir séu óréttmætir ef þeir brjóta í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og raska verulega eða eru líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda.
 
Í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er einnig að finna reglur um ábyrgðaryfirlýsingar, trúnaðarskyldur o.fl. Þær reglur snúa að skyldu seljenda vöru og þjónustu til að veita skriflegar leiðbeiningar ef þeirra er þörf við mat á eiginleikum vöru og þjónustu, banni við að veita ábyrgðaryfirlýsingar sem veita jafnan eða lakari rétt en lagareglur, banni við því að afla eða reyna að afla sér í atvinnustarfsemi með ótilhlýðilegum hætti atvinnuleyndarmálum og banni við að nýta opinber og alþjóðleg merki án leyfis í markaðssetningu og kynningu.
 
Loks er í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu að finna ákvæði um verðmerkingar og gagnsæi markaðarins. Í 17. gr. laganna segir að fyrirtæki sem selji vöru eða þjónustu til neytenda skuli merkja vöru og þjónustu með verði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustað að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það. Neytendastofa framkvæmir kannanir á því hvort fyrirtæki uppfylli þessar skyldur sínar.
Neytendastofa hefur einnig eftirlit með ýmsum öðrum lögum þ. á m. lögum nr. 80/1994 um alferðir, lögum nr. 121/1994 um neytendalán, lögum nr. 46/2000 um húsgöngu- og fjarsölusamninga og lögum nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

Hvað eru aðgangshindranir?

Það fylgir því venjulega einhver kostnaður og fyrirhöfn fyrir fyrirtæki að hefja starfsemi á nýjum markaði. Þær hindranir sem fyrirtækin þurfa að yfirstíga til að geta starfað á mörkuðum sem þau hafa ekki starfað á áður eru oft nefndar aðgangshindranir (e. barriers to entry). Sú skilgreining fræðimanna á aðgangshindrunum sem margir hagfræðingar virðast geta sammælst um er höfð eftir George Stigler (1911 - 1991), sem kenndur er við svonefnda Chicago-hagfræði og fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1982. Skilgreining Stiglers á aðgangshindrunum var á þann veg að þær fælust í "þeim framleiðslukostnaði sem fyrirtæki sem vilja komast inn á markað þurfa að bera umfram þau fyrirtæki sem eru starfandi fyrir á markaðinum." Til eru ýmsar aðrar skilgreiningar á aðgangshindrunum, til dæmis sú, að aðgangshindrun sé allt það, sem gerir fyrirtækjum sem starfa á markaði kleift að hafa óvenju mikinn hagnað af rekstri sínum án þess að þurfa að óttast að ný fyrirtæki komi inn á markaðinn. Þá er einnig til sú skilgreining að aðgangshindrun sé allt það sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki komi inn á nýjan markað, þegar sú innkoma eykur þjóðhagslega velferð.

Ef engar aðgangshindranir eru til staðar á markaði þá er viðbúið að ný fyrirtæki komi og hefji starfsemi á honum um leið og hagnaðartækifæri gefast á honum. Þetta hefur þá afleiðingu að slíkur markaður getur verið skilvirkari en markaðir sem hafa aðgangshindranir.  Ýmsar gerðir aðgangshindrana eru einkenni margvíslegra markaða og umtalsverður tími samkeppnieftirlita víða um heim fer í að reyna að minnka, eða fjarlægja, þær aðgangshindranir sem eru til staðar til að auka skilvirkni þeirra.  

Þrír flokkar aðgangshindrana

Samkeppnisyfirvöld víða um heim líta almennt á þrjár tegundir aðgangshindrana í rannsóknum sínum sem gjarna er skipt niður í eftirtalda flokka eftir eðli þeirra:

 1. Náttúrulegar aðgangshindranir
 2. Hindranir sem stafa af lögum og reglugerðum
 3. Hindranir vegna hegðunar þeirra fyrirtækja sem starfa á markaðnum

Til náttúrulegra aðgangshindrana telst t.d. sokkinn kostnaður. Sokkinn kostnaður telst vera sá kostnaður sem ekki er hægt að endurheimta ef fyrirtæki sem hefur hafið starfsemi ákveður að hætta starfsemi. Í atvinnugreinum þar sem mikil stærðarhagkvæmni er til staðar getur sú staðreynd ein og sér falið í sér aðgangshindrun þar sem fyrirtæki þurfa þá í flestum tilvikum að ná ákveðinni lágmarksstærð til þess að geta framleitt viðkomandi vöru með hagkvæmum hætti.

Lög og reglugerðir geta í mörgum tilfellum stuðlað að jákvæðum ytri áhrifum, t.d. verndun umhverfisins eða verndun fjármálastöðugleika, en geta einnig falið í sér ákveðnar aðgangshindranir. Sem dæmi má nefna að í mörgum tilfellum þurfa fyrirtæki að hafa ákveðin leyfi til þess að geta stundað starfsemi sína. Ef fjöldi leyfa er takmarkaður og viðskipti með þau eru ekki stunduð á frjálsum markaði getur verið erfitt fyrir nýtt fyrirtæki að koma inn á markaðinn.

Loks getur hegðun fyrirtækja er starfa á markaðnum virkað sem aðgangshindrun. Þau geta gert innkomu nýrra aðila óaðlaðandi með því til dæmis að fjárfesta í umframafkastagetu. Þau geta í sumum tilvikum líka búið svo um hnútana að það verði ekki aðlaðandi fyrir viðskiptavini þeirra að færa viðskipti sín annað. Dæmi um slíkt er notkun svonefndra tryggðarafslátta.

Aðgerðir til þess að minnka aðgangshindranir

Við meðferð mála hjá Samkeppniseftirlitinu er ávallt horft til þess hvaða aðgangshindranir eru til staðar á þeim markaði sem er til skoðunar hverju sinni og reynt að meta hvort unnt sé að draga úr, eða fjarlægja þessar aðgangshindranir. Þegar aðgangshindranir stafa af lögum, reglugerðum eða aðgerðum opinberra aðila getur stofnunin beitt sér fyrir því, t.d. með útgáfu álita, að dregið verði úr hindrununum, t.d. með breytingu á lögum. Þegar hindranirnar stafa hins vegar af hegðun markaðsráðandi fyrirtækja er starfa á markaðnum, getur stofnunin rannsakað málið nánar og gripið til aðgerða þegar þess er þörf.

Hvernig er samþjöppun á markaði mæld?

Ólafur Þorsteinsson hagfræðingur hjá SamkeppniseftirlitinuHugtakið „samþjöppun“ eða „samþjöppunarstig“ (e. concentration) á sér uppruna í atvinnuvegahagfræði (e. theory of industrial economics) og vísar það til þess hvernig markaðshlutdeild skiptist á milli fyrirtækja á tilteknum markaði. Í þessu sambandi er talað um samþjöppunarstuðul en hann er reiknaður í því skyni að varpa ljósi á það hversu virk samkeppni ríkir á tilteknum markaði.

Samþjöppunarstuðull er ýmist reiknaður með því að leggja saman markaðshlutdeild tiltekins fjölda stærstu fyrirtækjanna á viðkomandi markaði eða reikna gildi samkvæmt hinni svonefndu Herfindahl-Hirschman vísitölu.

Þegar samanlögð markaðshlutdeild stærstu fyrirtækjanna er reiknuð er oftast miðað við fjögur stærstu fyrirtækin en einnig er hægt að miðað við fleiri eða færri fyrirtæki en fjögur stærstu. Samtala markaðshlutdeilda tveggja stærstu fyrirtækjanna er táknuð með C2, samsvarandi samtala fjögurra stærstu með C4, o.s.frv. Ef fjögur stærstu fyrirtæki á tilteknum markaði eru með markaðshlutdeildirnar 40%, 25%, 15% og 10% þá tekur C4 gildið 90. Í þessu dæmi tæki C2 þá gildið 65.

Herfindahl-Hirschman vísitalan (e. Herfindahl-Hirschman Index, skammstafað HHI)  er reiknuð þannig að markaðshlutdeild sérhvers fyrirtækis á tilteknum markaði er hafin upp í annað veldi og síðan eru þessar ferningstölur allar lagðar saman til að fá út gildi vísitölunnar fyrir viðkomandi markað.

HHI = MH12 + MH22 + MH32 + MH42 …+ MHn2

Í jöfnunni hér að ofan stendur MH12fyrir markaðshlutdeild fyrirtækis númer 1 í öðru veldi, MH22stendur fyrir markaðshlutdeild fyrirtækis númer 2 í öðru veldi, o.s.frv. Ef þrjú stærstu fyrirtækin sem starfa á tilteknum markaði hafa markaðshlutdeildirnar 50%, 30% og 20% er gildi HHI vísitölunnar 3.800 (= [50 × 50] + [30 × 30] + [20 × 20]).

Í þessu sambandi skal þess getið að markaðshlutdeild er almennt reiknuð út frá tekjum fyrirtækja en eðli sumra markaða getur gefið tilefni til að meta markaðshlutdeild út frá öðrum hagrænum þáttum í starfsemi fyrirtækja, s.s. eignum.

HHI vísitalan getur tekið gildi á bilinu nálægt núlli þegar mjög mörg smá fyrirtæki starfa á markaði og upp í 10.000, sem er gildið sem fæst þegar eitt fyrirtæki hefur 100% markaðshlutdeild (einokun). Markaðir sem hljóta HHI gildi undir 1000 eru almennt taldir vera virkir samkeppnismarkaðir. Markaðir sem hafa HHI gildi á bilinu 1000 til 1800 hafa verið taldir í meðallagi samþjappaðir markaðir. Markaðir með gildi á bilinu 1800 til 2000 nálgast það að vera mjög samþjappaðir. Markaðir sem hafa HHI gildi yfir 2000 eru álitnir mjög samþjappaðir markaðir. Þannig má segja að þegar fá stór fyrirtæki starfa á markaði sé samþjöppunarstuðullinn fyrir viðkomandi markað tiltölulega hár sem endurspeglar fremur takmarkaða samkeppni. Aftur á móti er samþjöppunarstuðullinn lágur þegar markaðurinn samanstendur af mörgum smáum fyrirtækjum en það bendir til þess að samkeppni á markaðnum sé virk.

Mælikvarðar á samþjöppun á markaði eru einkum notaðir af samkeppnisyfirvöldum til að leggja mat á áhrif fyrirhugaðra samruna á samkeppnisvirkni á markaði. Rétt er að taka fram að ýmis önnur sjónarmið eru einnig höfð til viðmiðunar við mat á áhrifum samruna á samkeppni.

Hvernig eru sektir í samkeppnismálum ákvarðaðar?

Eva Ómarsdóttir sviðsstjóri/lögfræðingur hjá SamkeppniseftirlitinuSamkeppniseftirlitið hefur heimild í samkeppnislögum til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum samkeppnislaga.  Megintilgangur stjórnvaldssekta er að hafa almenn og sérstök varnaðaráhrif sem stuðla að framkvæmd samkeppnislaga og þar með að aukinni samkeppni. Stjórnvaldssektum er jafnframt ætlað að bæta eftirfylgni og gera samkeppnislögin skilvirkari.

Sektir á fyrirtæki vegna brota á samkeppnislögum geta numið allt að 10% af ársveltu fyrirtækja. Þannig gæti fyrirtæki sem hefur 10 milljarða kr. ársveltu sem þátt hefur tekið í alvarlegu og umfangsmiklu samkeppnislagabroti um margra ára skeið þurft að greiða allt að einum milljarði króna í sekt verði sök fyrirtækisins sönnuð. Samkvæmt samkeppnislögum skal Samkeppniseftirlitið við ákvörðun á fjárhæð sekta hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Fleiri þættir geta komið til skoðunar, ýmist til hækkunar eða lækkunar sekta, t.d. stærð fyrirtækja sem teljast brotleg, huglæg afstaða stjórnenda og hagnaðarsjónarmið.

Ýmsir aðrir þættir geta jafnframt haft áhrif við ákvörðun sekta hjá Samkeppniseftirlitinu. Til að mynda er unnt að fella niður eða lækka sektir ef fyrirtæki sem hefur tekið þátt í ólögmætu samráði hefur haft frumkvæði að því að upplýsa samkeppnisyfirvöld um hið ólögmæta samstarf. Með því að koma upp um samstarfið og vinna með Samkeppniseftirlitinu að rannsókn þess geta fyrirtækin komist hjá sektum eða sektargreiðslur þeirra orðið mun lægri en ella. Samkeppniseftirlitið hefur sett sér reglur um niðurfellingu og lækkun sekta sem gerir fyrirtækjum sem taka þátt í ólögmætu samráði kleift að draga sig út úr samstarfinu og má nálgast þær hér.

Samkeppniseftirlitið getur einnig lokið málum með sátt og fellt niður eða lækkað sektir hjá fyrirtækjum sem að eigin frumkvæði stíga fram og veita upplýsingar um eða viðurkenna samkeppnislagabrot. Þá má falla frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða af öðrum ástæðum sé ekki talin þörf á slíkum sektum til að stuðla að og efla virka samkeppni.

Getur Samkeppniseftirlitið ákveðið að taka sum mál ekki til meðferðar eða forgangsraðað málum?

Birgir Óli EinarssonSamkeppniseftirlitið er eftirlitsstjórnvald sem er ætlað að efla samkeppni í viðskiptum og beita þeim úrræðum sem samkeppnislög heimila í því skyni að stuðla að því að markmið laganna náist. Starfsemi Samkeppniseftirlitsins felst þannig ekki í því að veita borgurunum tiltekin réttindi heldur að vinna gegn því að fyrirtæki og opinberir aðilar raski samkeppni. Þannig er meginhlutverk Samkeppniseftirlitsins fólgið í því að framfylgja þeirri stefnu sem mörkuð er með samkeppnislögum, en ekki fyrst og fremst að leysa úr deilumálum. Til þess að framfylgja stefnu laganna og sinna eftirliti sem Samkeppniseftirlitinu er falið er nauðsynlegt að eftirlitið geti í aðalatriðum stýrt sjálft nýtingu þess mannafla sem það hefur yfir að ráða til þess að sinna verkefnum sem brýnast þykir að sinna í því skyni að efla samkeppni og stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum.

Með núgildandi samkeppnislögum var þessi umgjörð styrkt og Samkeppniseftirlitinu veitt sérstök heimild til að ákveða hvaða mál gefi tilefni til rannsóknar. Sú heimild sækir að nokkru leyti fyrirmynd sína til evrópsks samkeppnisréttar þar sem m.a. Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn ESB hafa heimild til að forgangsraða málum.

Hvernig ver Samkeppniseftirlitið tíma sínum?

Benedikt ÁrnasonSamkeppniseftirlitið er lítil stofnun með einungis rúmlega 20 starfsmenn. Verkefnin eru hins vegar víðfeðm og ná til alls atvinnulífsins. Eftir hrun hefur verkefnum fjölgað um 80% á sama tíma og fjárheimildir eftirlitsins til hefðbundinna verkefna hafa dregist saman um 20% að raungildi. Af þessum sökum hefur Samkeppniseftirlitið þurft að beita stífri forgangsröðun verkefna. Þannig fór t.d. um þriðjungur ráðstöfunartíma eftirlitsins á árinu 2012 í mál sem farið var í að frumkvæði Samkeppniseftirlitsins en þetta hlutfall nam að jafnaði um helmingi af ráðstöfunartímanum á árunum fyrir hrun og fyrstu árin eftir hrun.

Mál sem tekin eru til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu eru misjöfn að vöxtum. Mikill tími fer í fá stór mál – þannig tóku 15 mál um helming ráðstöfunartíma eftirlitsins á árinu 2012. Hinn helmingurinn skiptist á um 300 mál.

Mestur tími Samkeppniseftirlitsins á síðustu fjórum árum hefur farið í rannsóknir á misnotkun á markaðsráðandi stöðu en um 35% af ráðstöfunartíma eftirlitsins hefur farið í þau mál að meðaltali frá 2009 til 2012. Um 25% af ráðstöfunartímanum hefur farið í rannsóknir á ólögmætu samráði, um 20% í samrunamál, 15% í markaðsgreiningar og 5% í opinberar samkeppnishömlur.

Samkeppniseftirlitið ver um tveimur þriðju hluta af ráðstöfunartíma sínum í fjóra markaði, þ.e. fjármálaþjónustu, dagvörumarkað, fjarskipti og samgöngur og ferðamál.

Til hvaða fyrirbyggjandi aðgerða geta fyrirtæki gripið til að lágmarka hættuna á samkeppnislagabrotum?

Það er ýmislegt sem stjórnendur fyrirtækja á markaði geta gert til þess að lágmarka hættuna á því að fyrirtækið brjóti gegn samkeppnislögum. Það mikilvægasta í því sambandi er að þekkja ákvæði laganna sem banna samkeppnishamlandi samstarf fyrirtækja og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Í því samhengi er nauðsynlegt fyrir stjórnendur og aðra starfsmenn að þekkja og vera meðvitaðir um samkeppnislega stöðu fyrirtækisins. Þekking á samkeppnislegri stöðu fyrirtækisins stuðlar  að upplýstari og skjótari ákvörðunum í rekstri og virkari samkeppni til ábata fyrir bæði fyrirtækið og neytendur auk þess sem hún kann að koma í veg fyrir lögbrot þess.

Liður í fyrirbyggjandi aðgerðum stærri fyrirtækja til að koma í veg fyrir brot á samkeppnislögum getur verið falinn í því að halda reglulega samkeppnisréttarnámskeið og útbúa samkeppnisréttarhandbók fyrir helstu stjórnendur og starfsmenn. Gott tæki til að stuðla að því að fyrirtæki starfi í samræmi við samkeppnislög er að móta samkeppnisstefnu í rekstri fyrirtækisins. Slík stefna getur m.a. falið í sér að gerð er sú krafa að allir stjórnarmenn, stjórnendur og aðrir starfsmenn séu upplýstir um þær kröfur sem samkeppnislög gera til fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Skipun sérstaks samkeppnisregluvarðar getur einnig verið góð leið til að lágmarka áhættu á samkeppnislagabrotum hjá fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu. Þá getur innleiðing sérstakrar samkeppnisréttaráætlunar jafnframt verið gott tæki í þessu tilliti. Innleiðing slíkrar áætlunar þekkist víða í nágrannaríkjum okkar. Í áætluninni felst m.a. greining á helstu áhættuþáttum í starfsemi fyrirtækisins.

Svo hægt sé að leggja raunhæft mat á samkeppnislega áhættu fyrirtækis þurfa að liggja fyrir svör við ýmsum spurningum um þætti sem lúta að þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á, markaðsstöðu, viðskipta- og samkeppnisháttum o.fl. Má t.d. nefna eftirfarandi þætti: Hverjir eru þeir vöru- og landfræðilegu markaðir sem fyrirtækið starfar á? Er fyrirtækið í markaðsráðandi stöðu á einhverjum á þeim mörkuðum? Hvaða skuldbindingar eru lagðar á viðskiptavini? Eru samningar fyrirtækisins og skilmálar í samræmi við kröfur samkeppnislaga? Hvernig er verðlagningu háttað? Eru starfsmenn í samskiptum við keppinauta fyrirtækisins?

Það eru yfirleitt fyrirtækin sjálf sem hafa bestar upplýsingar um stöðu sína á markaðnum og hvort þau séu markaðsráðandi eða ekki. Ef stjórnandi telur sig t.d. geta beitt fyrirtækinu til þess að koma keppinauti út af markaðnum, þá eru allar líkur á að slíkar aðgerðir myndu fela í sér samkeppnislagabrot. Það sem markaðsráðandi fyrirtæki má ekki gera er nokkuð þekkt. Það má t.d. ekki gera einkakaupasamninga, það má ekki beita sk. skaðlegri undirverðlagningu og það má ekki ráðast í sérstakar atlögur sem beint er gegn litlum keppinauti. En það má keppa á eðlilegum forsendum. Séu fyrirtæki í einhverjum vafa um það hvort tiltekin háttsemi sé í samræmi við samkeppnislög eru ýmsar leiðir færar í því sambandi. Fyrirtæki geta leitað sér sérfræðiálits eða kynnt sér upplýsingar um markaði og samkeppnismál sem þegar liggja fyrir. Ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins, auk margs konar upplýsinga- og fræðsluefnis, eru birtar á heimasíðu eftirlitsins og gefa markaðnum ríka leiðbeiningu.

Er meiri hætta á röskun á samkeppni í smærri hagkerfum líkt og á Íslandi?

Magnús Þór KristjánssonÍ þessari spurningu merkir orðið „samkeppni“ keppni fyrirtækja á mörkuðum, þ.e. viðleitni fyrirtækja til að afla sér viðskipta, ef því er að skipta á kostnað keppinauta, með því að bjóða lágt vöruverð og góða þjónustu.  Ef samkeppni er takmörkuð er tilhneiging til þess að verð hækki umtalsvert umfram kostnað við framleiðslu, dreifingu og sölu á vöru eða þjónustu. Þá kunna gæði vöru eða þjónustu og hvati til að koma fram með nýjungar að dvína ef virk samkeppni er ekki til staðar. Virk samkeppni aftur á móti veitir fyrirtækjum aðhald þannig að þau haldi verði í lágmarki og auki gæði þess sem þau selja.

Ísland er fámennt og strjálbýlt land ef miðað er við helstu samanburðarlönd, t.d. Bretland, Noreg og Danmörk. Þá er Ísland eyja sem takmarkar í flestum tilvikum stærð landfræðilegra markaða hér á landi, m.a. vegna tíma og kostnaðar við að flytja vörur og þjónustu til landsins. Af þeim sökum veita fyrirtæki sem starfa í nágrannalöndum Íslands takmarkað samkeppnislegt aðhald hér á landi. Af framangreindu leiðir að oft starfa tiltölulega fá fyrirtæki á mikilvægum samkeppnismörkuðum á Íslandi. Þegar aðstæður á markaði eru með þessum hætti er talað um slíka markaði sem fákeppnismarkaði (e. oligopoly).

Á fákeppnismörkuðum er mikil samþjöppun fyrirtækja. Ein aðferð til að meta samþjöppun á einstökum mörkuðum er styðjast við svonefndan Herfindahl-Hirschman samþjöppunarstuðull (HHI). Er þessi stuðull bæði notaður af bandarískum og evrópskum samkeppnisyfirvöldum. HHI stuðullinn er samanlagt margfeldi markaðshlutdeildar hvers þeirra fyrirtækja sem starfa á viðkomandi markaði. Gildi stuðulsins liggur á milli talnanna 0 og 10.000. Eftir því sem það er hærra, þeim mun meiri er markaðssamþjöppunin. Litið er svo á að HHI stuðull undir 1000 gefi til kynna að samþjöppun á markaði sé lítil, HHI stuðull milli 1000-1800 þýði miðlungssamþjöppun á markaði og hún sé mikil þegar HHI stuðull er hærri en 1800. Samkeppnisyfirvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu í ýmsum ákvörðunum sínum sem varða mikilvæga neytendamarkaði hér á landi að samþjöppun sé töluverð á viðkomandi mörkuðum. Eftir því sem samþjöppun á markaði er meiri er almennt meiri hætta á samkeppnishömlum. Á það sérstaklega við um brot á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 sem bannar misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þá getur mikil samþjöppun á markaði haft töluverð áhrif við mat á samkeppnislegum áhrifum samruna fyrirtækja.

Loks kann sú staða þegar fá stór fyrirtæki starfa á tilteknum markaði og margs konar félagsleg tengsl eru á milli stjórnenda fyrirtækjanna, eins og algengt er hér á landi, að leiða til þess að meiri hætta verði á því að keppinautar samhæfi hegðun sína. Slík samhæfing getur falist í því að fyrirtækin taki gagnkvæmt tillit hvert til annars í starfsemi sinni eða að þau hafi með sér ólögmætt samráð. Í samræmi við framangreint verður að telja að almennt sé meiri hætta á röskun á samkeppni í smærri hagkerfum, auk þess sem samkeppni er yfirleitt takmörkuð fyrir. 


Samkeppnisreglur

Tungumál
Áskrift

Póstlisti Samkeppniseftirlitsins