23.9.2025

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir að dagsektir skuli leggjast á SVEIT

  • Untitled-design-2022-11-21T091109.734

Þann 11. júní sl. tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun um að leggja dagsektir á Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) vegna brota samtakanna á lagaskyldu til þess að afhenda eftirlitinu gögn. Voru dagsektirnar lagðar á til þess að knýja á um að SVEIT fari að samkeppnislögum og afhendi umkrafin gögn. Var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að SVEIT hefði vanrækt ótvíræða skyldu um afhendingu gagna og brotið þar með gegn 19. gr. samkeppnislaga. Skyldi SVEIT greiða dagsektir að fjárhæð 1.000.000 kr. á dag þar til umbeðin gögn hafa verið afhent Samkeppniseftirlitinu.

SVEIT kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Byggði SVEIT á því að Samkeppniseftirlitið hefði ekki heimild til þess að rannsaka ætluð samráðsbrot og að gagnabeiðni eftirlitsins hefði verið of umfangsmikil. Með úrskurði sínum í dag staðfesti áfrýjunarnefnd hins vegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Skal SVEIT greiða dagsektir að fjárhæð 1.000.000 kr. á dag ef gögnin hafa ekki borist Samkeppniseftirlitinu fyrir 6. október nk.

 

Bakgrunnsupplýsingar

Tildrög þessa eru að þann 14. mars 2025 barst Samkeppniseftirlitinu kvörtun Alþýðusambands Íslands, Eflingar-Stéttarfélags og Starfsgreinasambands Íslands vegna „ólögmæts verðsamráðs fyrirtækja á veitingamarkaði og ólögmæts verðsamráðs innan Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði“. Er því haldið fram að gerð SVEIT á einhliða kjarasamningi við félagið Virðingu, þar sem kveðið er á um launakjör á veitingamarkaði, hafi farið gegn samkeppnislögum. Í kvörtuninni er rökstutt að félagið Virðing sé „gervistéttarfélag“ og jafnframt að undanþága 2. mgr. 2. gr. samkeppnislaga frá gildissviði laganna vegna „launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum“ eigi ekki við.

Samkeppniseftirlitið ákvað að hefja rannsókn og óskaði eftir gögnum frá SVEIT, tilteknum aðildarfyrirtækjum SVEIT og Virðingu. Gögn hafa borist frá Virðingu og aðildarfyrirtækjum SVEIT sem gagnabeiðni var beint til.

 

SVEIT hins vegar hafnaði ítrekað kröfu Samkeppniseftirlitsins um afhendingu gagna. Hafa samtökin krafist þess að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðum brotum á samkeppnislögum verði felld niður. Til stuðnings þessu er m.a. staðhæft að Samkeppniseftirlitið hafi „engar heimildir til að hefja rannsókn vegna stofnunar stéttarfélags, aðdraganda kjarasamningsgerðar, efnis kjarasamnings eða gildi hans, sbr. 1. og 2. gr. samkeppnislaga.“

 

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um dagsektir var bent á að undanþága 2. mgr. 2. gr. samkeppnislaga frá gildissviði laganna vegna launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum sé í samkeppnisrétti háð tilteknum skilyrðum. Ef viðkomandi samningur uppfyllir ekki þau skilyrði og telst því ekki kjarasamningur í skilningi samkeppnisréttarins getur hann falið í sér ólögmætt samráð viðkomandi fyrirtækja og samtaka þeirra um laun launþega (e. wage fixing).

Slík brot fara gegn 10. gr. samkeppnislaga, sbr. 12. gr. laganna, og teljast að jafnaði alvarleg og til þess fallin að valda tjóni. Rannsókn samkeppnisyfirvalda í málum af þessum toga felst m.a. í því að leggja mat á hvort um raunverulegan kjarasamning sé að ræða eða ekki. Ákvæði 19. gr. samkeppnislaga veita Samkeppniseftirlitinu ríkar heimildir til þess að kalla eftir öllum nauðsynlegum gögnum í þágu rannsóknar málsins. Þetta er staðfest í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í dag.