1.10.2021

CAP viðmiðin hafa gefið góða raun

  • Fanar-althjodlegt

Rúmlega tvö ár eru liðin síðan Alþjóðasamtök samkeppniseftirlita (International Competition Network, ICN) innleiddu svokölluð CAP viðmið. Þeim er ætlað að tryggja vandaðar rannsóknir og forðast einsleitni í meðferð mála en Samkeppniseftirlitið uppfyllir skilyrðin og var á meðal stofnaðila þeirra árið 2019. Samkeppnisyfirvöld í Ástralíu, Bandaríkjunum og Þýskalandi hafa veitt stýrihópnum sameiginlega formennsku frá upphafi en kosið er um stjórnarformennsku til þriggja ára í senn. Í dag eru 73 aðilar að CAP viðmiðunum.

Icn-logo

Eftir tvær vikur hefst ársfundur ICN í Búdapest í Ungverjalandi en á dögunum var gefin út skýrsla um CAP viðmiðin sem voru rædd sérstaklega á síðasta ársfundi samtakanna, í október 2020. Í skýrslunni er vitnað í Guðmund Hauk Guðmundsson, verkefnastjóra og alþjóðafulltrúa hjá Samkeppniseftirlitinu, sem sat pallborðsumræður um CAP verkefnið á síðasta ársfundi ásamt fulltrúum samkeppnisyfirvalda í Japan, Kanada, Mexíkó og Kenía. Þeir voru sammála um að CAP viðmiðin hafi gefið góða raun hingað til.

GudmundurHaukur_1633097708218„CAP viðmiðin veita í raun einstaka yfirsýn yfir meðferð samkeppnismála á Íslandi. Við gerð viðmiðanna gafst frábært tækifæri til að fara yfir það hvernig best sé að ná fram þeim markmiðum sem CAP viðmiðin leggja áherslu á auk þess sem yfirsýn næst yfir þær kvaðir sem á eftirlitinu hvíla og samspils ýmissa íslenskra lagaákvæða. Þá gafst okkur tækifæri til að eiga samtal við aðila sem voru áhugasamir um virkni málsmeðferðarinnar og vildu vita meira um viðmið og verkferla eftirlitsins,“ er haft eftir Guðmundi í skýrslunni sem má lesa hér.

CAP viðmiðin eru í stöðugri endurskoðun en þau veita gott tækifæri til að bera saman verkferla og viðmið hjá samkeppniseftirlitum um allan heim. Hér má nálgast CAP viðmið Samkeppniseftirlitsins á ensku.

Samkeppniseftirlitið leggur mikið upp úr alþjóðlegu samstarfi. Markmiðið með því er að efla tengsl samkeppnisyfirvalda innbyrðis með það fyrir augum að auka þekkingu þeirra sem starfa við rekstur samkeppnismála auk þess að rannsaka og bregðast við samkeppnislegum álitaefnum á tilteknum mörkuðum.