23.3.2020

COVID-19: Samkeppnisyfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu

Í dag sendu samkeppnisyfirvöld á EES-svæðinu, ásamt framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), frá sér sameiginlega yfirlýsingu er varðar samkeppniseftirlit og beitingu samkeppnisreglna vegna Covid-19. Samkeppniseftirlitið er aðili að yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á það að samkeppnisyfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu muni beita samkeppnisreglum og eftirliti í samræmi við þær samfélagslegu og efnahagslegu aðstæður sem nú eru uppi í Evrópu. Nú sem endranær sé mikilvægt að nýta samkeppnisreglur til að tryggja jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja. Markmið samkeppnisreglna séu einnig mikilvæg í efnahagserfiðleikum eins og þeim sem nú hellast yfir á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í yfirlýsingunni er jafnframt gerð grein fyrir því að hin fordæmalausa staða sem nú er uppi geti kallað á samstarf fyrirtækja til þess að tryggja aðföng og dreifingu mikilvægra vara til neytenda. Evrópsk samkeppnisyfirvöld muni að líkindum ekki grípa inn í nauðsynlegt samstarf af því tagi. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að fæst Evrópsku samkeppniseftirlitanna geta gefið fyrirtækjum fullvissu um að samstarf þeirra samræmist lögum. Samkvæmt íslensku samkeppnislögunum hefur Samkeppniseftirlitið hins vegar heimild til að veita slíka fullvissu með formlegri undanþágu frá banni við samstarfi keppinauta, ólíkt flestum eftirlitum í Evrópu.

Evrópsku samkeppnisyfirvöldin leggja einnig áherslu á mikilvægi þess að tryggja aðgengi að mikilvægum heilbrigðisvörum á samkeppnishæfu verði. Tekið verði strangt á viðleitni fyrirtækja til að nýta sér þá neyð sem nú ríkir með samráði eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Þá vekja eftirlitin athygli á þeim möguleika að framleiðendur ákveði hámarksverð á mikivægum vörum til að takmarka hættu á ómálefnalegum verðhækkunum.

Yfirlýsingin er aðgengileg hér. Samkeppniseftirlitið hefur áður kynnt áherslur sínar, en þær rýma vel við yfirlýsinguna, sbr. upplýsingasíðu sem aðgengileg er hér.