16.10.2019

Í tilefni af fjölmiðlaumfjöllun um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á flutningamarkaði

Í tilefni af umfjöllun Morgunblaðsins í dag vegna rannsóknar á ætluðu ólögmætu samráði Eimskips (Eimskipafélags Íslands hf. og tengdum félögum) og Samskipa (Samskipa Holding BV, Samskipa hf. og tengdum félögum) skal eftirfarandi tekið fram:

Í frétt Morgunblaðsins er vísað til þess að Samkeppniseftirlitið hafi í rannsókn á ætluðum samráðsbrotum Eimskips og Samskipa sinnt sakamálarannsókn. Þetta er ekki rétt. Lögum samkvæmt annast Samkeppniseftirlitið rannsókn á ætluðum samráðsbrotum fyrirtækja í stjórnsýslumáli. Rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum einstaklinga gegn samkeppnislögum sætir á hinn bóginn sakamálarannsókn hjá héraðssaksóknara. Í samkeppnislögum er mælt fyrir um samstarf Samkeppniseftirlitsins og héraðssaksóknara við rannsókn ætlaðra alvarlegra samráðsbrota. Í því fellst ekki að Samkeppniseftirlitið sinni sakamálarannsóknum á ætluðum brotum núverandi eða fyrrverandi starfsmanna og stjórnenda Eimskips og Samskipa. Við rannsókn á háttsemi umræddra fyrirtækja leitaði Samkeppniseftirlitið til Aldísar Hilmarsdóttur.

Í frétt Morgunblaðsins segir einnig að umrædd rannsókn á Eimskip hafi staðið yfir í tæp tíu ár. Hið rétta er að rannsóknin hófst með húsleitum sem voru gerðar hjá fyrirtækjunum 10. september 2013, sbr. einnig húsleit sem framkvæmd var hjá fyrirtækjunum 3. júní 2014. Hefur Samkeppniseftirlitið til rannsóknar hvort Eimskip og Samskip hafi haft með sér ætlað ólögmætt samráð á mörkuðum fyrir sjóflutninga, flutningsmiðlun og land­flutninga. Er rannsóknin hófst í september 2013 hafði Samkeppniseftirlitið haft til rannsóknar tiltekna háttsemi á land­flutninga­markaði, sem var ólokið. Við upphaf rannsóknarinnar 2013 voru tilteknir þættir þess máls sameinaðir hinu nýja máli, enda höfðu Samkeppniseftirlitinu borist ábendingar frá viðskiptavinum og keppinautum Eimskips og Samskipa sem settu málið í nýtt og annað samhengi.

Í tilefni af frétt Morgunblaðsins er einnig rétt að taka fram að málið hefur verið til samfelldrar rannsóknar og er hún vel á veg komin. Er umfang rannsóknarinnar, þar á meðal undirliggjandi gagnamagn, án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi. Ekki hafa orðið tafir á rannsókninni sem rekja má til Samkeppniseftirlitsins.

Líkt og fram kemur í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins frá 1. júlí 2019 gerði Eimskip kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem fyrirtækið krafðist þess að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á hendur fyrirtækinu yrði úrskurðuð ólögmæt og að henni skyldi hætt. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins 10. október sl. var niðurstaða dómstólsins sú að vísa þessum kröfum Eimskips frá héraðsdómi. Eimskip hefur nú kært niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar. Sú málsmeðferð er yfirstandandi og hefur Samkeppniseftirlitið skilað greinargerð til Landsréttar.