15.7.2025

Kaup Ölgerðarinnar á Kjarnavörum – umsagnarferli

Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar samruna Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf. og Kjarnavörur ehf.

Ölgerðin og dótturfélag þess Danól starfa við framleiðslu og sölu á drykkjarvörum, bæði gosdrykkjum og áfengum drykkjum, en einnig innflutning og heildsölu á ýmis konar matvöru og sérvöru, til dagvöruverslana, stóreldhúsa, veitingastaða, bakaría o.fl.

Kjarnavörur ehf. starfar við framleiðslu og heildsölu á ýmsum vörum, m.a. sósum, smjörlíki, grautum og sultum. Meðal þekktustu vörumerkja Kjarnavara hf. má nefna Ljóma smjörlíki, Smyrja viðbit, Kjarna sultur og grautar, Kjarna majónes og sósur og Úrvals sósur.

Samrunatilkynning vegna kaupa Ölgerðarinnar á Kjarnavörum, þar sem tilkynnandi lýsir samrunanum og samkeppni frá sínu sjónarhorni, er aðgengileg hér .

Öllum hagaðilum og áhugasömum er hér með veitt tækifæri til þess að koma á framfæri sjónarmiðum vegna þessa samruna, til dæmis um markaðsstöðu Ölgerðarinnar (Danól) og Kjarnavara, um möguleg áhrif samrunans á samkeppni, aðstæður á viðkomandi mörkuðum, og um önnur atriði sem fyrirtækin fjalla um í samrunatilkynningu eða sem umsagnaraðili kann að vilja koma á framfæri vegna samrunans.

Umsagnir sendist með tölvupósti á gogn@samkeppni.is og vegna lögbundinna tímafresta í samrunamálum skulu þær berast eigi síðar en föstudaginn 8. ágúst nk.

Innihaldi umsagnir trúnaðarupplýsingar er mikilvægt að taka slíkt fram og senda einnig eintak þar sem trúnaðarupplýsingar hafa verið fjarlægðar.