Landsvirkjun sektuð vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum
Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun um að leggja 1,4 milljarð króna sekt á Landsvirkjun. Eftir ítarlega rannsókn hefur Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun hafi með alvarlegum hætti misnotað markaðsráðandi stöðu sína með verðlagningu á raforku í útboðum Landsnets á árunum 2017 til 2021. Verðlagning Landsvirkjunar í umræddum útboðum gerði það að verkum að viðskiptavinir Landsvirkjunar, sem versluðu raforku af Landsvirkjun og tóku þátt í útboðum Landsnets í samkeppni við Landsvirkjun, gátu ekki selt raforkuna nema með tapi.
Háttsemi Landsvirkjunar vann gegn því að nýir og minni keppinautar á raforkumarkaði næðu fótfestu og gætu þannig aukið samkeppni fyrirtækjum og einstaklingum til hagsbóta.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Virk samkeppni á raforkumarkaði hefur úrslitaþýðingu fyrir samkeppnishæfni Íslands og hagsmuni þeirra sem hér búa. Ef rétt er á málum haldið getur virk samkeppni stuðlað að raforkuöryggi, flýtt fyrir orkuskiptum, hraðað öðrum nýjungum og tryggt okkur hagstætt raforkuverð til framtíðar litið.
Í þessu ljósi skiptir miklu máli hvernig stór og rótgróin raforkufyrirtæki, oftast í opinberri eigu, haga sinni starfsemi. Þessi ákvörðun fjallar um það.“
Ákvörðunin er aðgengileg hér .
Viðskiptin sem rannsóknin beindist að
Þegar rafmagn er flutt milli staða og landshluta tapast hluti hennar. Þetta kallast flutningstöp. Eitt af hlutverkum Landsnets sem kerfisstjóra raforkukerfisins á Íslandi er að kaupa raforku til þess að bæta upp fyrir flutningstöpin. Til þess að mæta flutningstöpunum, stóð Landsnet fyrir útboðum á rannsóknartímabilinu 2017-2021. Ný og smærri fyrirtæki litu á þessi viðskipti sem tækifæri til að ná betri fótfestu á raforkumarkaði.
Landsvirkjun er langstærsti framleiðandi og heildsali raforku á Íslandi. Fyrirtækið selur því raforku til annarra raforkufyrirtækja, bæði fyrirtækja sem ekki framleiða raforku og minni framleiðenda sem þurfa á frekari raforku að halda. Í útboðum Landsnets var staða Landsvirkjunar því tvíþætt; annars vegar að sjá þátttakendum útboðsins fyrir raforku að verulegum hluta og hins vegar að keppa um viðskiptin.
Landsvirkjun var, eins og öðrum fyrirtækjum, heimilt að taka þátt í útboðum Landsnets. Hins vegar þurfti verðlagning Landsvirkjunar í útboðunum að samræmast skyldum hennar sem markaðsráðandi fyrirtækis.
Nú hefur Landsnet kynnt breytingar á fyrirkomulagi við öflun raforku vegna flutningstapa, en þær breytingar hafa ekki áhrif á mikilvægi þess að taka afstöðu til fyrri háttsemi Landsvirkjunar.
Brot Landsvirkjunar
Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Landsvirkjun sé markaðsráðandi í framleiðslu og heildsölu á raforku á Íslandi. Er sú niðurstaða í samræmi við eigið mat fyrirtækisins eins og það birtist í innanhúsögnum og í yfirlýsingum þess á opinberum vettvangi.
Jafnframt er það niðurstaða eftirlitsins að Landsvirkjun hafi á tímabilinu 2017-2021 misnotað markaðsráðandi stöðu sína, með því að selja í mörgum tilvikum keppinautum sínum rafmagn í heildsölu á hærra verði en Landsvirkjun bauð sjálf í útboðum Landsnets. Þannig misnotaði Landsvirkjun markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir framleiðslu og heildsölu rafmagns (efra sölustig) með því að beita verðþrýstingi á markaði fyrir raforkukaup vegna flutningstapa (neðra sölustig).
Keppinautum Landsvirkjunar, sem keyptu raforku í heildsölu af Landsvirkjun og kepptu jafnframt við fyrirtækið í útboðum Landsnets, var með þessari háttsemi gert ómögulegt að jafna eða bjóða betra verð en Landsvirkjun, nema tapa á þeim viðskiptum.
Samkeppniseftirlitið telur að með háttsemi sinni hafi Landsvirkjun takmarkað möguleika lítilla keppinauta fyrirtækisins til að starfa og þar með hamlað aukinni samkeppni á raforkumörkuðum. Þá hafi háttsemi Landsvirkjunar verið til þess fallin að raska samkeppni á raforkumörkuðum með alvarlegum hætti og á mikilvægu tímabili fyrir þróun raforkumarkaðarins.
Sektirnar
Samkeppniseftirlitinu er ætlað að grípa til íhlutunar vegna brota á samkeppnislögum og beita í því skyni stjórnvaldssektum. Skiptir þar ekki máli hvort hlutaðeigandi fyrirtæki eru í eigu hins opinbera eða einkaeigu. Er stjórnvaldssektum ætlað að skapa varnaðaráhrif, þ.e. að draga úr líkunum á að viðkomandi fyrirtæki eða aðrir fari á svig við samkeppnislög að nýju.
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að leggja á 1,4 milljarð króna sekt á Landsvirkjun tekur mið af alvarleika brotanna og hinu langa brotatímabili, en brotin stóðu yfir á tímabilinu 2017-2021. Þá dró jafnframt ekki úr brotunum þrátt fyrir að Landsvirkjun hafi verið meðvitað um að háttsemin væri til rannsóknar og að háttsemin kynni að vera ólögmæt.
Rannsóknin - kvartanir minni keppinauta og sáttarviðræður
Rannsóknin hófst formlega 2. júní 2021, en Samkeppniseftirlitinu bárust kvartanir frá bæði Orku Náttúrunnar og N1 Rafmagni. Undir rannsókn málsins óskaði Landsvirkjun eftir viðræðum um sátt í málinu, en þær viðræður leiddu ekki til niðurstöðu. Í framhaldinu birti Samkeppniseftirlitið Landsvirkjun svokallað andmælaskjal, en þar var gerð ítarleg grein fyrir frummati eftirlitsins. Komu Landsvirkjun og kvartendur ítarlegum sjónarmiðum að við rannsókn málsins.
Samkeppni á raforkumörkuðum – þýðing Landsvirkjunar og annarra keppinauta
Landsvirkjun er í eigu íslenska ríkisins og gegnir mikilvægu kerfislegu hlutverki í samfélaginu. Landsvirkjun heyrir undir almenna eigendastefnu ríkisins. Markmið eigendastefnu ríkisins er m.a. að efla og styrkja samkeppni á viðeigandi mörkuðum og eiga félög í eigu íslenska ríkisins, þ.m.t. Landsvirkjun, að stefna að því að auka samkeppni og draga úr fákeppni með starfsemi sinni.
Rannsókn þessa máls laut að háttsemi fyrirtækis sem hefur sögulega sterka stöðu og er í eigu íslenska ríkisins. Þá eiga brotin sér stað eftir að raforkumarkaðir höfðu gengið í gegnum breytingar, með gildistöku raforkulaga árið 2003, þar sem að opnað var fyrir innkomu nýrra keppinauta m.a. í því skyni að skapa forsendur fyrir samkeppni.
Átti háttsemin sér stað á samkeppnislega viðkvæmu tímabili þegar hið markaðsráðandi fyrirtæki naut mikils markaðsstyrks á meðan nýir aðilar komu inn á markaðinn og voru í uppbyggingarfasa. Reynslan sýnir að minni keppinautar, þ.á m. þeir sem starfa einvörðungu á smásölustigi og framleiða ekki rafmagn, geta komið með nýjungar og breytta þjónustu inn á markaðinn, notendum til hagsbóta.