4.11.2021

Ný upplýsingasíða um hagsmunasamtök fyrirtækja og samkeppnisreglur

  • Grottuviti

Samkeppniseftirlitið hefur komið á fót upplýsingasíðu tileinkaðri hagsmunasamtökum fyrirtækja og samkeppnisreglum sem um þau gilda. Þátttaka hagsmunasamtaka í opinberri umræðu hefur verið í kastljósinu að undanförnu en upplýsingasíðunni er ætlað að skýra ákvæði samkeppnislaga sem snúa að hagsmunasamtökum fyrirtækja.

Á síðunni er safnað saman upplýsingum um reglur og beitingu reglna sem koma eiga í veg fyrir að starf hagsmunasamtaka fyrirtækja skaði samkeppni á mörkuðum. Þessar reglur hafa verið staðfestar í framkvæmd bæði hér á landi og erlendis. Þá eru þessar upplýsingar einnig gagnlegar fyrir neytendur, viðskiptavini fyrirtækja og aðra sem vilja skapa virkt aðhald á mörkuðum.

Starf hagsmunasamtaka fyrirtækja getur verið gagnlegt og haft jákvæð áhrif á mörkuðum, til að mynda í umræðu á vettvangi stjórnvalda um leiðir til að bæta rekstrar- og starfsskilyrði fyrirtækja og viðkomandi atvinnugreinar í heild sinni. Á hinn bóginn setja samkeppnislög hagsmunasamtökum mikilvægar skorður.

Á upplýsingasíðunni er leitast við að svara spurningum sem tengjast málaflokknum en ef frekari spurningar vakna má endilega senda athugasemdir á samkeppni@samkeppni.is.

Hér má nálgast upplýsingasíðuna.