28.9.2020

Sameiginleg yfirlýsing norrænu samkeppniseftirlitanna um stafræna markaði og þróun evrópskrar samkeppnislöggjafar

Norrænu samkeppniseftirlitin hafa í dag birt sameiginlega yfirlýsingu um sýn þeirra á samkeppni, samkeppniseftirlit og þróun regluverks á tímum stafrænna markaða (e. digital markets). Yfirlýsingin er framlag norrænu samkeppniseftirlitanna til þeirrar umræðu sem nú á sér stað um samkeppniseftirlit á stafrænum mörkuðum og mögulegar breytingar á Evrópsku regluverki.

Aukin stafræn tækni hefur leitt til nýrra tækifæra, en jafnframt kallað fram nýjar áskoranir. Á alþjóðlegum vettvangi er nú rætt um hvernig og með hvaða hætti skuli móta lagaumgjörð og tryggja skilvirkt eftirlit með samkeppni, neytendum til hagsbóta. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú til skoðunar að styrkja verulega heimildir samkeppnisyfirvalda til þess að standa vörð um samkeppni í hinu breytta umhverfi. Yfirlýsing norrænu eftirlitanna er innlegg í þá umræðu.

Í yfirlýsingunni er fjallað um þann ábata sem leitt hefur af stafrænum markaðstorgum (e. digital platforms), þær áskoranir sem aukin umsvif þeirra hafa í för með sér og hvað læra megi af framkvæmd samkeppnisreglna á Norðurlöndunum.

Áskoranir sem tengjast stafrænum mörkuðum er oft á tíðum alþjóðlegar í eðli sínu. Því leggja norrænu samkeppniseftirlitin áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu, samræmdar beitingar samkeppnisreglna í Evrópu og að samkeppniseftirlit sé fyrirsjáanlegt og gagnsætt.

Norrænu samkeppniseftirlitin styðja jafnframt yfirstandandi athugun framkvæmdastjórnar ESB á því hvort þörf sé að auka heimildir samkeppnisyfirvalda til íhlutunar á mörkuðum almennt.

Nordisk-rapport-logo


Forstjórar norrænu samkeppniseftirlitanna:

 „Norrænu samkeppniseftirlitin hafa sterk tengsl og langa sögu um samvinnu sem byggir á sameiginlegum gildum landanna. Eftirlitin virða norræna samvinnu mikils og það er okkur mikil ánægja að gefa út þessa sameiginlegu yfirlýsingu sem framlag til umræðunnar.“

Yfirlýsingin er aðgengileg hér.

Sameiginleg frétt norrænu eftirlitanna á ensku er aðgengileg hér.