
Opinn fundur fimmtudaginn 19. febrúar frá kl. 9:00 til 11:20
Vinnustofur með stjórnvöldum og innkaupaaðilum ríkisins dagana 17. til 18. febrúar
Staðsetning: Hótel Reykjavík Grand, Sigtúni 8 Reykjavík – Háteigur
Fimmtudaginn 19. febrúar efna Samkeppniseftirlitið, Stjórnarráðið og OECD til opins fundar um samkeppni í opinberum útboðum og leiðir til að opna markaði og bæta regluverk.
Dagskrá:
8:30 – 9:00 Skráning og kaffi
9:00 – 9:15 Opnunarávarp – Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra
9:20 – 9:40 Despina Pachnou, sérfræðingur OECD fjallar um samkeppni í opinberum útboðum og hvernig hægt er að verjast samráði
9:40 – 10:00 Federica Maiorano, sérfræðingar OECD, fjalla um samkeppnismat á regluverki stjórnvalda og hvernig það leiðir til aukinnar skilvirkni, minni reglubyrði og opnari markaða
10:00 – 10:40 Pallborð I: Ferlin í framkvæmd
10:40 – 11:20 Pallborð II: Stóra myndin
Fundarstjóri: Eva Ómarsdóttir, verkefna- og teymisstjóri hjá Samkeppniseftirlitinu.
Hægt er að skrá sig á opna fundinn hér – SKRÁNING
Á fundinum verður kynnt íslensk útgáfa af nýlega birtum leiðbeiningum OECD um varnir gegn samráði í útboðum. Einnig verða kynntar leiðbeiningar OECD um samkeppnismat á regluverki stjórnvalda.
Framsögur og pallborð I fara fram á ensku.
Beint streymi verður af fundinum
Vinnustofa um samkeppnismat á regluverki stjórnvalda
Þriðjudaginn 17. febrúar, kl. 9:00 til 14:30, verður stjórnendum og starfsmönnum ráðuneyta, Alþingis og annarra stofnana sem koma að mótun og setningu regluverks boðið að sitja vinnustofu um samkeppnismat á regluverki.
Samkeppnismat er aðferðafræði sem OECD hefur beint til aðildarríkja að nýta til þess að koma auga á samkeppnishindranir í regluverki. Með því að komast hjá og ryðja úr vegi slíkum hindrunum er hægt að opna markaði, efla samkeppni og draga úr reglubyrði. OECD hefur gefið út leiðbeiningar um beitingu samkeppnismats (Competition Assessment Toolkit), sem farið verður yfir á vinnustofunni og framkvæmdin sett í íslenskt samhengi.
Vinnustofa um opinber útboð og baráttuna gegn samráði í útboðum
Miðvikudaginn 18. febrúar, kl. 9:00 – 14:50, verður stjórnendum og starfsmönnum innkaupastofnana ríkisins, ráðuneyta og annarra sem koma að opinberum innkaupum boðið að sitja vinnustofu um opinber útboð og varnir gegn samráði í útboðum.
Opinber innkaup nema nú um stundir hundruðum milljarða króna á ári hverju. Samráð í innkaupum er sérstaklega skaðlegt og er til þess fallið að valda hinu opinbera, og þar með almenningi, stórfelldu tjóni. Á hinn bóginn eru vel útfærð útboð til þess fallin að hið opinbera fái meiri og betri þjónustu eða vörur fyrir lægra verð.
Alþjóðleg reynsla sýnir því að árvekni og vandað verklag í útboðum skilar miklum ábata fyrir hið opinbera. Um leið geta vönduð útboð, þar sem samráð bjóðenda fær ekki þrifist, örvað samkeppni á mörkuðum og þannig stuðlað að því að fleiri keppi í sambærilegum útboðum í framtíðinni.
OECD hefur beint tilmælum til aðildarríkja um beitingu útboða í opinberum innkaupum. Jafnframt hefur OECD uppfært og gefið út leiðbeiningar um varnir gegn ólögmætu samráði í útboðum (Guidelines for Fighting Bid Rigging in Public Procurement). Þar er bent á leiðir til þess að auka samkeppni í útboðum og koma auga á mögulegt samráð í útboðum. Íslensk útgáfa leiðbeininganna verður kynnt á fundunum. Farið verður yfir þetta á vinnustofunni og framkvæmdin sett í íslenskt samhengi.
"*" indicates required fields