30.6.2025

Samkeppniseftirlitið beinir tilmælum til stjórnvalda vegna gæðaeftirlits endurskoðendaráðs

Samkeppniseftirlitið hefur birt álit nr. 1/2025 , Framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda sem fjallar um tilhögun og framkvæmd gæðaeftirlits með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Endurskoðendaráð annast eftirlitið samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/2019. Í álitinu eru reifaðar ályktanir sem draga má af athugunum Samkeppniseftirlitsins á framkvæmd gæðaeftirlitsins.

Í framkvæmd er eftirlitinu útvistað til starfandi endurskoðenda, en í því getur falist að endurskoðendur séu fengnir til að framkvæma gæðaeftirlit hjá keppinautum sínum. Það er niðurstaða athugunar Samkeppniseftirlitsins að núgildandi tilhögun á gæðaeftirliti með endurskoðunarfyrirtækjum og endurskoðendum sé til þess fallin að skaða samkeppni á viðkomandi markaði og stríði þannig gegn markmiði samkeppnislaga.

Með álitinu beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til stjórnvalda að breyta núverandi framkvæmd á eftirlitinu, en á meðan sú endurskoðun stendur yfir að sporna gegn því að eftirlitið sé í höndum beinna keppinauta þeirra aðila sem sæta eftirliti hverju sinni.

Álitið er sett fram á grundvelli 18. gr. samkeppnislaga, en samkvæmt ákvæðinu skal Samkeppniseftirlitið vekja athygli ráðherra á því í áliti ef það telur að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laganna eða torveldi frjálsa samkeppni. Einnig byggir álitið á c-lið 1. mgr. 8. gr. sömu laga, sem mælir fyrir um að Samkeppniseftirlitið skuli gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra aðila að markaði.