10.7.2020

Samkeppniseftirlitið býður nemendur við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands velkomna í starfsþjálfun

Samkeppniseftirlitid_editSamkeppniseftirlitið hefur nú undirritað samning við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands um starfsþjálfun nemenda hjá stofnuninni. Starfsþjálfunin miðar að því að auka þekkingu og hæfni viðkomandi nema.

Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins var ánægður með samninginn og sagði: „Samkeppniseftirlitið leggur mikla áherslu á góð tengsl stofnunarinnar við fræðimenn og nema. Með þessu samstarfi gefst nemendum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands tækifæri til þess að öðlast innsýn í starf eftirlitsins og vinna að spennandi verkefnum sem auka hæfni viðkomandi til að beita hagfræðilegri nálgun í námi og starfi. Til viðbótar er starfsþjálfun frábær vettvangur fyrir nema til að átta sig betur á hvar áhugasvið þeirra liggur og hjálpar þeim því þannig að finna framhaldsnám við hæfi. Við hlökkum til að taka vel á móti nemendum Viðskiptafræðideildar.“

Ásta Dís Óladóttir, dósent í Viðskiptafræðideild var ánægð með að bæta Samkeppniseftirlitinu við í glæsilegan hóp fyrirtækja og stofnana sem munu bjóða viðskiptafræðinemum á þriðja ári möguleikann á að sækja um starfsþjálfun á komandi vetri og sagði: „Ég tek undir það sem Valur segir, það er mjög mikilvægt fyrir nemendur að fá innsýn í störf stofnana á borð við Samkeppniseftirlitið. Hvað starfsfólk eftirlitsins gerir og af hverju. Ástæða þess að ég nefni þetta er að eftirlitið hefur í gegnum tíðina verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og fólk haft ýmsar skoðanir á vinnubrögðum og niðurstöðum mála. Fyrir mig persónulega var það afar lærdómsríkur tími að sitja í stjórn Samkeppniseftirlitsins á sínum tíma, ég fékk allt aðra sýn á marga hluti og skildi ýmsar ákvarðanir betur” sagði Ásta Dís Óladóttir, dósent í Viðskiptafræðideild.