14.8.2025

Samkeppniseftirlitið hefur rannsókn á Storytel

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að hefja formlega rannsókn á því hvort Storytel Iceland ehf. og Storyside AB (saman nefnd „Storytel“) hafi brotið gegn banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sem kveðið er á um í 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. EES-samningsins.

Storytel Iceland ehf. rekur streymisveitu fyrir hljóð- og rafbækur á Íslandi. Storyside AB annast útgáfu á bókum sem boðnar eru fram á streymisveitunni. Umrædd félög eru í eigu Storytel AB sem er skráð í Svíþjóð og tekur rannsókn Samkeppniseftirlitsins einnig til móðurfélagsins.

Málið á rætur sínar að rekja til kvörtunar frá Rithöfundasambandi Íslands (RSÍ). Frá því að kvörtunin barst hefur Samkeppniseftirlitið við forskoðun málsins aflað upplýsinga, m.a. frá Storytel, sem hefur hafnað því að vera markaðsráðandi eða hafa misnotað slíka stöðu.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins mun í fyrsta lagi beinast að því hvort Storytel teljist markaðsráðandi, en fyrirtæki í slíkri stöðu hafa sérstökum skyldum að gegna um að grípa ekki til neinna aðgerða sem raskað geta samkeppni á markaði.

Í öðru lagi er til rannsóknar hvort viðskiptaskilmálar Storytel gagnvart útgefendum/rithöfundum teljist ósanngjarnir og hvort markaðssetning og framsetning bókatitla hjá Storytel sé samkeppnishamlandi.

Í kvörtun er vísað til þess að RSÍ telji að hljóðbækur sem eru útgefnar af Storyside eða öðrum útgáfum tengdum Storytel samstæðunni geti verið í sérstökum forgangi við framsetningu og efnisvali í streymisveitu Storytel á kostnað efnis frá öðrum og fái þannig meiri hlustun. Framangreint hafi annars vegar þau áhrif að Storytel reyni að þvinga höfunda til þess að semja beint við Storyside frekar en aðra útgefendur og hins vegar að Storytel haldi tekjum innan samstæðunnar þar sem þóknanir séu tengdar við hlustun. Lýsing kvartanda á meintri háttsemi gefur tilefni til að rannsakað sé hvort um ólögmæta sjálfsforgangsröðun (e. self-preferencing) kunni að vera að ræða.

Samkeppniseftirlitið hefur óskað eftir liðsinni sænska samkeppniseftirlitsins við rannsókn málsins á grundvelli samstarfssamnings milli norrænu samkeppniseftirlitanna.

Málið hefur einnig verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna meintra brota gegn 54. gr. EES-samningsins sem er beitt samhliða ákvæðum íslenskra samkeppnislaga þegar talið er að meint misnotkun kunni að hafa áhrif á viðskipti milli samningsaðila/aðildarríkja.

Samkeppniseftirlitið áréttar að ákvörðun um að hefja formlega rannsókn felur hvorki í sér að eftirlitið hafi komist að niðurstöðu um brot né vísbendingu um endanlega niðurstöðu rannsóknarinnar. Ákvörðunin felur eingöngu í sér að formleg rannsókn sé hafin.