13.3.2020

Samkeppniseftirlitið heimilar samstarf sem miðar að því að tryggja fullnægjandi aðgengi að lyfjum

Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað samstarf keppinauta á vettvangi innflutnings og dreifingar á lyfjum sem nauðsynlegt er til að bregðast við þeirri almannavá sem stafar af COVID-19. Um er að ræða undanþágu frá banni við samkeppnishindrandi aðgerðum og samráði fyrirtækja. Undanþágubeiðnin barst í lok dags í gær.
Samstarfið er m.a. bundið þeim skilyrðum að Lyfjastofnun meti samstarfið nauðsynlegt hverju sinni. Jafnframt er áskilið að Lyfjastofnun sé þátttakandi eða sé gefinn kostur á að vera þátttakandi í öllum samskiptum sem lúta að samstarfinu.

Samkeppniseftirlitið hefur haft samráð við Lyfjastofnun við útfærslu á ákvörðuninni, auk þess sem aflað var umsagnar frá Embætti landlæknis. Það er í kjölfarið hlutverk Lyfjastofnunnar og viðkomandi fyrirtækja og samtaka að útfæra skilvirkt verklag til að framkvæma það samstarf sem undanþága þessi heimilar.

Ákvörðunin er aðgengileg hér.

Samkeppniseftirlitið hefur áður veitt Samtökum í ferðaþjónustu undanþágu til að bregðast við vanda sem stafar af COVID-19, sbr. ákvörðun nr. 9/2020. Þá hefur eftirlitið á síðustu dögum heimilað samskipti fyrirtækja á ýmsum sviðum sem miðar að því að tryggja órofinn rekstur og fullnægjandi aðföng.