4.9.2025

Samkeppniseftirlitið leggur áherslu á mikilvægi virkrar samkeppni við mótun atvinnustefnu

Samkeppniseftirlitið hefur skilað umsögn um áform ríkisstjórnarinnar um atvinnustefnu til næstu tíu ára. Í umsögninni er lögð sérstök áhersla á að virk samkeppni sé grundvallarforsenda árangursríkrar atvinnustefnu sem stuðlar að verðmætasköpun, nýsköpun, framleiðni og sjálfbærum hagvexti.

Samkeppniseftirlitið bendir á að stjórnvöld þurfi að hafa eftirfarandi atriði í huga við mótun atvinnustefnunnar:

  • Samkeppnismat verði lögfest og innleitt sem fastur liður í allri stefnumótun og undirbúningi laga og reglugerða.
  • Við hönnun atvinnustefnu verði byggt á sjö viðmiðum sem OECD leggur til í nýrri skýrslu.
  • Nýta reynslu annarra ríkja af einföldun og endurskoðun regluverks.
  • Forðast sértækan stuðning sem raskar samkeppni.
  • Tryggja jafnræði og skilvirkt regluverk sem auðveldar nýjum aðilum aðgang að mörkuðum.
  • Efla umgjörð um opinber innkaup sem eitt öflugasta tækið til að nýta skattfé betur, auka virka samkeppni og styðja við nýsköpun.

Jafnframt vekur Samkeppniseftirlitið athygli á þeim áhættuþáttum sem OECD hefur bent á í tengslum við atvinnustefnu, m.a. að stjórnvöld hafi almennt ekki nægar upplýsingar til að velja „sigurvegara“, að sterkir hagsmunaaðilar geti haft of mikil áhrif á stefnu í eigin þágu og að ríkisstuðningur geti dregið úr hvötum til nýsköpunar. Þá skorti sum lönd stjórnsýslugetu til að framfylgja atvinnustefnu, stefna af þessu tagi einnig leitt til verndarstefnu gagnvart útlöndum eða stuðnings sem ekki er þörf á þar sem fjárfesting hefði hvort sem er átt sér stað („windfall effects“).

„Samkeppniseftirlitið telur mikilvægt að vandað sé til verka í samráðsferlinu sem nú er hafið vegna fyrirhugaðrar atvinnustefnu, þar sem hún mun hafa áhrif á starfsumhverfi og þróun atvinnulífsins til langs tíma. Í því samhengi er mikilvægt fyrir stjórnvöld að vera meðvituð um að virk samkeppni er grundvöllur flestra þeirra markmiða sem sett eru fram í áformaskjalinu.“ segir í umsögninni.