10.6.2022

Samkeppniseftirlitið veitir Kviku banka heimild til að kaupa færsluhirðingarsamninga úr fórum sameinaðs félags Rapyd og Valitors gegn skilyrðum

  • Untitled-design-85-

Eins og fram kemur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2022, Kaup Kviku banka á færsluhirðingarsamningum af sameinuðu félagi Rapyd og Valitors, sem birt er í dag, hefur Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn sinni á kaupum Kviku banka hf. („Kvika“) á færsluhirðingarsamningum úr fórum sameinaðs félags Rapyd Financial Network (2016) Ltd. („Rapyd“) og Valitors hf.

Eins og fram kom í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins vegna samruna Rapyd og Valitors, hafði Samkeppniseftirlitið þegar metið Kviku hæfan kaupanda að samningunum í skilningi sáttar sem Rapyd gerði við Samkeppniseftirlitið í tengslum við samruna Rapyd og Valitors. Með ákvörðun sinni nú heimilar Samkeppniseftirlitið Kviku formlega að kaupa það tilgreinda magn færsluhirðingarsamninga sem kveðið var á um að skyldi selt samkvæmt ákvörðun nr. 13/2022, Samruni Rapyd og Valitors, frá sameinuðu félagi Rapyd og Valitors, gegn skilyrðum sem Kvika hefur fallist á að hlíta með undirritun aðgreindrar sáttar við Samkeppniseftirlitið.

Fyrir liggur að Kvika mun tímabundið kaupa tiltekna þjónustu frá sameinuðu félagi, einkum á sviði tæknilegrar framkvæmdar og uppgjörs gagnvart alþjóðlegu kortafélögunum. Með sáttinni við Samkeppniseftirlitið hefur Kvika m.a. skuldbundið sig til þess að færa framangreind þjónustukaup til annars þjónustuveitanda sem ekki er umsvifamikill færsluhirðir á íslandi fyrir tiltekin tímamörk. Er þetta mikilvægur liður í því að tryggja varanlegt samkeppnislegt sjálfstæði Kviku frá sameinuðu félagi. Jafnframt er m.a. að finna í sáttinni ákvæði sem lúta að því að tryggja að færsluhirðingarþjónusta Kviku verði ekki rekin í dótturfélagi í eigu bankans nema að tilteknum skilyrðum fullnægðum.

Telur Samkeppniseftirlitið ekki þörf á frekari íhlutun vegna kaupa Kviku á umræddum færsluhirðingarsamningum en felast í ákvæðum téðrar sáttar Kviku við Samkeppniseftirlitið og ákvæðum áðurnefndrar sáttar Samkeppniseftirlitsins við Rapyd.

Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi fyrir sitt leyti metið samruna Rapyd og Valitors ásættanlegan út frá samkeppnissjónarmiði í ljósi þeirra skilyrða sem Rapyd féllst með gerð sáttar við Samkeppniseftirlitið, þá skal á það minnt að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands („Seðlabankinn“) hefur kaup Rapyd á Valitor ennþá til skoðunar og eru kaupin háð því að Seðlabankinn veiti samþykki sitt fyrir þeim. Þar sem sala færsluhirðingarsamninganna til Kviku byggja á því að af samruna Rapyd og Valitors verði, eru kaup Kviku á þeim einnig háð því að Seðlabankinn heimili Rapyd að kaupa Valitor.