23.5.2022

Samkeppniseftirlitið heimilar samruna Rapyd og Valitors með skilyrðum sem leiða m.a. til þess að Kvika banki haslar sér völl í færsluhirðingu

  • Untitled-design-84-

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samruna Rapyd og Valitors með skilyrðum eins og fram kemur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr.13/2022, Samruni Rapyd og Valitors, sem birt er í dag. Þar með hefur Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn sinni á kaupum Rapyd Financial Network (2016) Ltd. („Rapyd“) á öllu hlutafé í Valitor hf. („Valitor“). 

Dótturfélag Rapyd er Rapyd Europe hf., sem áður hét Korta hf., en félagið stundar greiðsluþjónustustarfsemi meðal annars hér á landi, líkt og Valitor. Með viðskiptunum hyggst Rapyd sameina rekstur Valitors og Rapyd Europe hf.

Samruninn hefur fyrst og fremst áhrif á mörkuðum fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum, þ.e. vegna viðskipta á sölustað á Íslandi (óháð uppgjörsmynt) og vegna netviðskipta með uppgjöri í íslenskum krónum.*

Það er niðurstaða rannsóknarinnar að ef hin áformuðu kaup Rapyd á Valitor hefðu gengið fram óbreytt og án íhlutunar hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70-75% fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum.** Samruninn hefði því leitt til afgerandi markaðsráðandi stöðu sameinaðs félags eða eftir atvikum styrkingar á mögulegri markaðsráðandi stöðu Valitors. Telur Samkeppniseftirlitið að samrunaaðilar séu nánir keppinautar á markaði og að talsverðar aðgangshindranir séu til staðar. Að mati Samkeppniseftirlitsins hefði samruninn verið til þess fallinn að hindra virka samkeppni í skilningi samkeppnislaga.

Við rekstur málsins brugðust samrunaaðilar við frummati Samkeppniseftirlitsins með því að óska eftir viðræðum um sátt í málinu og leggja til aðgerðir til þess að eyða skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni. Leiddu viðræðurnar til þess að Rapyd gerði sátt við Samkeppniseftirlitið um tilteknar aðgerðir.

Í aðgerðunum felst meðal annars að Rapyd skuldbindur sig til þess að selja frá sér fjölbreytt safn færsluhirðingarsamninga til hæfs kaupanda sem samsvarar hærri markaðshlutdeild á meginmarkaði málsins en markaðshlutdeild Rapyd Europe hf. Með sölunni fer markaðshlutdeild hins sameinaða fyrirtækis jafnframt marktækt niður fyrir 50%.

Á meðan á meðferð málsins stóð hófu samrunaaðilar söluferli sem miðaði að þessu og gerðu að lokum samning við Kviku banka hf. („Kvika“) um kaup á fjölbreyttu safni færsluhirðingarsamninga.

Í þessu felst að Rapyd hefur skuldbundið sig til að koma í veg fyrir þá samþjöppun sem af samrunanum hefði leitt. Skapar salan jafnframt aðstæður fyrir nýjan aðila, Kviku, sem þegar veitir greiðslutengda þjónustu undir vörumerkjum Netgíró og Aur, til að hasla sér völl á færsluhirðingarmarkaði og keppa um viðskipti við söluaðila.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:

„Virk samkeppni á greiðslukorta- og greiðsluþjónustumörkuðum skiptir miklu máli og hefur áhrif á verð vöru og þjónustu til neytenda á Íslandi. Það er því þýðingarmikið að allir sem að þessu máli koma tryggi að þau skilyrði sem sett eru fyrir kaupum Rapyd á Valitor gangi fram samkvæmt efni sínu. Með því yrði skapaður jarðvegur fyrir jákvæðar breytingar á þessu sviði, neytendum til hagsbóta.“

Nánar um skuldbindingar Rapyd og Kviku

Í sáttinni við Rapyd er að finna ítarleg skilyrði sem tryggja eiga að það safn samninga sem selt er sé fjölbreytt, meðal annars hvað stærðar- og atvinnugreinadreifingu söluaðila varðar. Um leið er skilyrðunum ætlað að koma í veg fyrir óhagræði fyrir viðskiptavini í færsluhirðingu (söluaðila), en eðli máls samkvæmt verður ekki gengið á rétt þeirra til að velja sér þjónustuaðila í færsluhirðingu, að teknu tilliti til gildandi samninga.

Rapyd mun tímabundið veita Kviku þjónustu, einkum á sviði tæknilegrar framkvæmdar og uppgjörs gagnvart alþjóðlegu kortafélögunum. Jafnframt felst í þessari þjónustu að Kvika getur starfað tímabundið á grundvelli aðalleyfa samrunaaðila frá alþjóðlegu kortakerfunum. Stuðlar þetta að því að yfirfærsla viðskiptasambandanna og þjónusta Kviku við söluaðila í framhaldinu gangi hnökralaust fyrir sig á umskiptatímabilinu.

Til þess að tryggja að þessi áform skili árangri hefur Kvika einnig gert sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem félagið skuldbindur sig meðal annars til þess að færa framangreind þjónustukaup sín fyrir tiltekin tímamörk frá samrunaaðilum til annars þjónustuveitanda sem ekki er umsvifamikill færsluhirðir á íslenska markaðnum. Er þetta mikilvægur liður í því að tryggja varanlegt samkeppnislegt sjálfstæði Kviku frá sameinuðu félagi.

Í tengslum við hina tímabundnu þjónustu sem Rapyd veitir Kviku, hefur félagið skuldbundið sig til að koma á tilteknum aðskilnaði og verkefnaaðgreiningu innan sameinaðs félags í því skyni að vinna gegn því að það geti nýtt sér viðkvæmar viðskiptaupplýsingar um starfsemi Kviku sér til framdráttar. Þá er Rapyd óheimilt að kaupa aftur hina seldu samninga í 10 ár og óheimilt að keppa um viðskipti við söluaðila í hinum seldu samningum í tiltekinn tíma eftir að tímabundnum þjónustukaupum Kviku af þeim lýkur.

Framkvæmd samrunans er háð því að tilteknir fyrirvarar séu uppfylltir. Við birtingu ákvörðunar þessarar liggur fyrir að þessir fyrirvarar geti talist uppfylltir.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er gerð ítarleg grein fyrir rannsókn málsins og niðurstöðum. Meðal annars er fjallað um skilyrði fyrir samrunanum og sátt Samkeppniseftirlitsins við Rapyd. Einnig koma fram í ákvörðuninni helstu forsendur að baki sátt Samkeppniseftirlitsins við Kviku.

Ákvörðunin er aðgengileg hér.

Bakgrunnsupplýsingar – fyrri athuganir:

Samkeppniseftirlitið hefur á síðustu árum rannsakað mögulegar samkeppnishindranir á greiðsluþjónustumörkuðum og gripið til íhlutunar í nokkrum málum. Nefna má eftirfarandi mál:

- Ákvörðun nr. 8/2015. Íhlutun gagnvart Landsbankanum, Arion banka, Íslandsbanka, Valitor og Borgun, einkum vegna ólögmæts samráðs um milligjöld. Fyrirtækin gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem fyrirtækin viðurkenndu brot, greiddu sektir að fjárhæð samtals 1.650 milljónir króna og skuldbundu sig til margvíslegra breytinga á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði.

- Ákvörðun nr. 8/2013. Íhlutun vegna misnotkunar Valitors á markaðsráðandi stöðu sinni. Lagðar á stjórnvaldssektir að fjárhæð 500 milljónir króna. Íhlutunin var staðfest í Hæstarétti Íslands, með dómi þann 28. apríl 2016.

- Ákvörðun nr. 4/2008. Íhlutun vegna ólögmæts samráðs á vettvangi Valitors (áður Greiðslumiðlunar), Borgunar (áður Kreditkorta) og Fjölgreiðslumiðlunar (síðar Greiðsluveitunnar) og misnotkunar Valitor á markaðsráðandi stöðu. Fyrirtækin gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem þau viðurkenndu brot, greiddu sektir samtals að fjárhæð 735 milljónir króna, og skuldbundu sig til aðgerða til að tryggja að brot endurtækju sig ekki.


Stjörnumerktar útskýringar: 

* Færsluhirðing felur í meginatriðum í sér þjónustu sem gerir söluaðila kleift að taka við greiðslukortum sem greiðslu í viðskiptum og tryggir að söluaðili fái andvirði þess sem greitt er fyrir með greiðslukorti gert upp við sig.

** Við mat á markaðshlutdeild í málinu tók Samkeppniseftirlitið tillit til áhrifa þess að nokkrir veigamiklir söluaðilar gerðu samninga um að færa þjónustukaup sín ýmist til Valitors eða Rapyd á síðari hluta ársins 2021. Þetta hafði veruleg áhrif á mat á hlutdeild Valitors og einnig jókst hlutdeild Rapyd við þetta.