23.3.2020

Samkeppniseftirlitið heimilar samstarf lánveitenda til þess að fresta innheimtu skulda

Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað samstarf lánveitenda á vettvangi Samtaka fjármálafyrirtækja og Landssambands lífeyrissjóða, sem miðar að því koma til framkvæmda tímabundinni frestun á innheimtu lána fyrirtækja. Eru þessar aðgerðir liður í viðbrögðum við COVID-19.

Samstarfið er bundið skilyrðum sem ætlað er að tryggja enn frekar hagsmuni fyrirtækja sem nú standa frammi fyrir óvæntum rekstrarerfiðleikum af völdum COVID-19. Þannig eiga skilyrðin að tryggja að samstarf lánveitenda komi ekki í veg fyrir að einstakir lánveitendur geti veitt viðskiptavinum sínum frekari greiðsluerfiðleikaúrræði en samkomulagið kveður á um.

Einnig stuðla skilyrðin að því að lánveitendur geti aðlagað afgreiðslu frestana að fenginni reynslu og að öðru leyti komið til móts við þarfir lífvænlegra fyrirtækja.

Ákvörðunin felur í sér undanþágu frá banni samkeppnislaga við samstarfi keppinauta. Ákvörðunin (nr. 13/2020) er aðgengileg hér.