Samrunaeftirlit á Íslandi – skýrsla Viðskiptaráðs
Viðskiptaráð Íslands boðaði til málfundar á Kjarvalsstofu þriðjudaginn sl. þar sem ráðið kynnti úttekt á samrunaeftirliti og skýrslu sem gefin var út sama dag. Á fundinum fóru fram gagnlegar pallborðsumræður þar sem Samkeppniseftirlitið tók þátt.
Í tilefni af skýrslunni hefur Samkeppniseftirlitið nú birt rit nr. 5/2025 – Á hlykkjóttum vegi eða beinni braut? Rit Samkeppniseftirlitsins um samrunaeftirlit og skýrslu Viðskiptaráðs Íslands . Í ritinu eru teknar saman upplýsingar um rekstur samrunamála og brugðist við upplýsingum og ályktunum í skýrslu Viðskiptaráðs sem ekki gefa rétta mynd af samrunarannsóknum á Íslandi.
Í riti eftirlitsins er að finna umfjöllun um skilvirkni og rekstur samrunamála undanfarin ár sem m.a. varpa ljósi á eftirfarandi:
- Íslensk fyrirtæki (viðskiptavinir og keppinautar samrunaaðila) eru virkir þátttakendur í rannsókn samrunamála, og sjónarmið þeirra verða oft tilefni ítarlegri rannsókna á fyrirhuguðum samrunum.
- Veltumörk, sem ákvarða hvaða samruna þurfi að tilkynna til Samkeppniseftirlitsins, þurfa að taka mið af verndarhagsmunum.
- Heimild til að kalla eftir samrunatilkynningum er skýr í íslenskum lögum.
- Eðlilegt er að hlutfall íhlutana í samrunamálum sé hátt í samanburði við stærri lönd.
- Þorri samrunarannsókna tekur skamman tíma og tímafrestir eru sjaldnast fullnýttir.
- Forviðræður auka skilvirkni samrunaeftirlits.