Samruni Almenna lífeyrissjóðsins og Lífsverk lífeyrissjóðs – umsagnarferli
Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar samruna Almenna lífeyrissjóðsins og Lífsverks lífeyrissjóðs.
Almenni lífeyrissjóðurinn og Lífsverk lífeyrissjóður eru sjálfstæðir lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Starfsemi sjóðanna felst í móttöku iðgjalda, vörslu og ávöxtun fjármuna sjóðfélaga, greiðslu lífeyris ásamt lánveitingum til einstaklinga.
Samrunatilkynning vegna samruna Almenna lífeyrissjóðsins og Lífsverks lífeyrissjóðs, þar sem tilkynnendur lýsa samrunanum og samkeppni frá sjónarhorni lífeyrissjóðanna, er aðgengileg hér .
Öllum hagaðilum og áhugasömum er hér með veitt tækifæri til þess að koma á framfæri sjónarmiðum vegna þessa samruna, til dæmis um möguleg áhrif samrunans á samkeppni varðandi móttöku og ávöxtunar lífeyrissparnaðar og veitingu fasteignalána til sjóðsfélaga, aðstæður á viðkomandi mörkuðum og um önnur atriði sem lífeyrissjóðirnir fjalla um í samrunatilkynningu eða atriði sem umsagnaraðili kann að vilja koma á framfæri vegna samrunans.
Umsagnir sendist með tölvupósti á gogn@samkeppni.is og vegna lögbundinna tímafresta í samrunamálum skulu þær berast eigi síðar en föstudaginn 12. desember nk.
Innihaldi umsagnir trúnaðarupplýsingar er mikilvægt að taka slíkt fram og senda einnig eintak þar sem trúnaðarupplýsingar hafa verið fjarlægðar.
