
Samkeppniseftirlitið leitar að metnaðarfullum og drífandi einstaklingi í nýtt starf sem sérfræðingur í miðlun og kynningarmálum. Starfið felur í sér ábyrgð, yfirsýn og umsjón með kynningar-, leiðbeiningar- og vefmálum Samkeppniseftirlitsins ásamt því að taka þátt í innleiðingu stafrænna lausna og ýmissa þróunarverkefna. Þá felur starfið einnig í sér náið samstarf við stjórnendur og starfsfólk Samkeppniseftirlitsins.
Umsóknarfrestur er til og með 9. janúar 2026. Með umsókn þarf að fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf. Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Haukur Guðmundsson, verkefnastjóri (gudmundurh@samkeppni.is) og Karítas Margrét Jónsdóttir, rekstrarstjóri (karitas@samkeppni.is) í síma 585-0700.
Sótt er rafrænt um starfið á starfatorg.is . Starfshlutfall er 100%. Laun eru skv. kjarasamningi fjármálaráðuneytisins og hlutaðeigandi stéttarfélags. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst en það er þó samkomulagsatriði. Öllum umsóknum verður svarað að ráðningu lokinni.
Samkeppniseftirlitinu er falið að framfylgja samkeppnislögum, en í því felst m.a. að birta úrlausnir sem hafa almenna þýðingu, leiðbeina markaðsaðilum, benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari og vera að öðru leyti málsvari þeirra hagsmuna sem samkeppnislögum er ætlað að vernda. Samkeppniseftirlitið nýtur sjálfstæðis í þessum verkefnum, en jafnframt eru gerðar kröfur um víðtæka upplýsingagjöf. Sérfræðingi í miðlun og kynningarmálum er ætlað að halda utan um þessi verkefni og koma jafnframt að framþróun samkeppniseftirlits til samræmis við það sem best gerist í nágrannalöndum.
Hjá Samkeppniseftirlitinu starfar fjölbreyttur og þverfaglegur hópur sérfræðinga sem hefur brennandi áhuga á samkeppnismálum. Samkeppniseftirlitið leggur áherslu á að starfsmenn þess fái tækifæri til að sinna spennandi verkefnum, þróast í starfi og viðhalda jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
Samkeppniseftirlitið áskilur sér rétt til þess að ráða á grundvelli auglýsingarinnar næstu sex mánuði eftir birtingu hennar, sbr. reglur um auglýsingar á lausum störfum nr. 1000/2019. Við ráðningar hjá Samkeppniseftirlitinu er tekið mið af jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun stofnunarinnar.
"*" indicates required fields