24.8.2022

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á störfum Samkeppniseftirlitsins

Ríkisendurskoðun telur málsmeðferð í eðlilegu horfi en setur fram úrbótatillögur

  • Untitled-design-99-

Í dag var birt skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu sem ber yfirskriftina „Samkeppniseftirlitið – Samrunaeftirlit og árangur“.

Til grundvallar stjórnsýsluúttektinni lá beiðni Alþingis um skýrslu ríkisendurskoðanda frá 19. maí 2021, sbr. þskj. 1451 – 798. mál. Í greinargerð með beiðninni er hún einkum rökstudd með eftirfarandi hætti:

Atvinnulífið hefur lengi gagnrýnt málsmeðferðartíma Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum og telur brýnt að hraða ferlinu og lágmarka kostnað fyrirtækja og atvinnulífs vegna fyrirhugaðra samruna. Til samanburðar hefur verið greint frá því að framkvæmd samrunamála á vettvangi Evrópusambandsins og í Noregi sé mun skilvirkari og skjótari en hér á landi.

Málsmeðferð í eðlilegu horfi

Við stjórnsýsluúttektina tók Ríkisendurskoðun til athugunar málsmeðferð og úrlausn þeirra 100 samrunamála sem Samkeppniseftirlitið rannsakaði á tímabilinu 2018-2020. Í niðurstöðum stjórnsýsluúttektarinnar (bls. 11, 2. mgr.) segir eftirfarandi um málshraða og málsmeðferð samrunamála:

Að mati Ríkisendurskoðunar verður ekki séð að á tímabilinu 2018-2020 hafi málsmeðferðartími samrunamála verið óeðlilega langur eða að viðvarandi veikleikar í afgreiðslu þeirra hafi grafið undan skilvirkni, árangri og hagkvæmni starfseminnar.

Í niðurstöðunum er hins vegar bent á að upp hafi komið erfið mál sem hafi reynt á lögbundna tímafresti og sættir ekki reynst farsælar málalyktir frá sjónarhóli viðkomandi samrunaaðila. Um þetta segir síðan í niðurstöðunum:

Í því samhengi verður þó að hafa hugfast að íhlutunum Samkeppniseftirlitsins í samruna er ætlað að verja almannahagsmuni á grundvelli samkeppnislaga. Eðli málsins samkvæmt verða málalyktir slíkra mála því sjaldnast í samræmi við það sem vilji samrunaaðila stóð til í upphafi.

Í úttektinni er rakið að í einungis tveimur tilvikum af 100 hafi mál verið afgreidd á II. fasa sem unnt hefði verið að afgreiða á I. fasa. Tafir í öðru þessara mála, eða 1% tilvika, hafi mátt rekja til óskilvirkrar málsmeðferðar af hálfu Samkeppniseftirlitsins.

Í skýrslunni er jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að nýlegar breytingar Samkeppniseftirlitsins á reglum um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum nr. 1390/2020 hafi almennt verið til þess fallnar að auka skilvirkni, auk þess sem breytingar á skipulagi stofnunarinnar árið 2018 hafi miðað að hinu sama. Fram kemur að samrunaaðilar/hagaðilar sem Ríkisendurskoðun aflaði upplýsinga hjá hafi tekið undir að þróun málsmeðferðar undanfarin ár hafi verið jákvæð, en gagnsæi og fyrirsjáanleika í málsmeðferð þyrfti að bæta.

Auk þess að fjalla um meðferð samrunamála tók Ríkisendurskoðun almenna umgjörð Samkeppniseftirlitsins til skoðunar, s.s. hlutverk og starf stjórnar, forgangsröðun, málshraða, árangursmælikvarða og mat á ábata af samkeppniseftirliti.

Skýrslan dregur fram að umfang samrunamála og sá forgangur sem Samkeppniseftirlitinu er skylt að lögum að gefa samrunaeftirliti, hefur sett annarri starfsemi verulegar skorður. Á sama tíma er ljóst af efni skýrslunnar að verulegur efnahagslegur ábati er af samkeppniseftirliti, en hann nemur að jafnaði margfaldri þeirri fjárhæð sem veitt er til starfseminnar á hverju ári.

Tillögur til úrbóta

Í skýrslunni er að finna ýmsar tillögur og ábendingar til Samkeppniseftirlitsins sem horfa til þess að styrkja starfsemi þess og umgjörð. Þar á meðal eru tillögur um að kveða ítarlegar á um starfsemi stjórnar í starfsreglum hennar, bæta skjalfestingu innra eftirlits, huga að því að koma á innri endurskoðun, halda áfram á þeirri braut að meta ábata af starfseminni og þróa frekar fyrirliggjandi árangursmælikvarða, ljúka yfirstandandi endurskoðun á málsmeðferðarreglum og styrkja þar ákvæði um forgangsröðun.

Þá hvetur Ríkisendurskoðun Samkeppniseftirlitið til þess að vinna áfram að þróun leiðbeininga um samkeppnismál, en tekur fram að slíkar leiðbeiningar megi ekki grafa undan sjálfstæði eftirlitsins þegar kemur að mati á samkeppnisaðstæðum í tilteknum málum.

Einnig beinir Ríkisendurskoðun tillögum til eftirlitsins um styrkingu á umgjörð samrunamála sérstaklega. Þar á meðal er lagt til að styrkja leiðbeiningu um samskiptaleiðir við stofnunina og verklag við greiningu og rannsókn samrunamála, sem og við mótun og eftirfylgni samrunaskilyrða. Einnig er lagt til að óháðum kunnáttumönnum/eftirlitsaðilum á grundvelli skilyrða í samrunamálum verið settur formfastari rammi. Þá telur Ríkisendurskoðun brýnt að stofnunin bregðist af meiri festu við vísbendingum um ranga eða villandi upplýsingagjöf af hálfu samrunaaðila.

Ennfremur beinir Ríkisendurskoðun nokkrum tillögum og ábendingum til ráðuneytis samkeppnismála, þ.e. menningar og viðskiptaráðuneytis. Þannig sé tímabært að endurskoða samrunagjald með það í huga að innheimt þess sé í samræmi við umfang máls. Einnig þurfi að greina forsendur fyrir veltumörkum nánar en gert hefur verið. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að íslensk samkeppnislög uppfylli ekki að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru í Evrópu. Þannig hafi tilskipun ESB nr. 1/2019 um styrkingu samkeppnislaga ekki verið innleidd hér á landi, en t.d. séu heimildir eftirlitsins til að ráðast í húsleit þrengri en gerð er krafa um samkvæmt umræddri tilskipun. Þá sé ekki til staðar heimild til að stöðva tímafresti í samrunamálum, auk þess sem tjónþolar vegna samkeppnislagabrota búi við lakari réttarvernd er tjónþolar í ríkjum ESB.

Verkefnaáætlun Samkeppniseftirlitsins – gefinn kostur á sjónarmiðum

Samkeppniseftirlitið mun kappkosta að hrinda í framkvæmd tillögum og ábendingum Ríkisendurskoðunar til þess að styrkja umgjörð, málsmeðferð og starfsemi eftirlitsins enn frekar. Í því sambandi hefur Samkeppniseftirlitið tekið saman meðfylgjandi verkefnaáætlun fyrir verkefni eftirlitsins sem tengjast stjórnsýsluúttektinni. Tekur áætlunin til tillagna Ríkisendurskoðunar á bls. 16-18 í skýrslunni, en einnig til ýmissa ábendinga sem fram koma í megintexta skýrslunnar.

Í verkefnaáætluninni er fjallað um einstök verkefni og aðgerðir og verður hún uppfærð eftir því sem vinnunni vindur fram, auk þess sem hún kann að taka breytingum í framhaldi af umfjöllun Alþingis og ráðuneytis samkeppnismála um skýrsluna.

Jafnframt vill Samkeppniseftirlitið gefa hagaðilum og öðrum áhugasömum kost á að á að koma á framfæri sjónarmiðum varðandi framangreinda verkefnaáætlun. Er þess óskað að slík sjónarmið berist eigi síðar en 30. september næstkomandi. Við lok umsagnarfrests mun eftirlitið efna til umræðufundar með hópi hagaðila.

Til viðbótar við framangreint mun Samkeppniseftirlitið gera ráðuneyti samkeppnismála sérstaklega grein fyrir framangreindri vinnu, þar á meðal þeim aðgerðum sem krefjast viðbótarfjárheimilda.

Samhliða mun Samkeppniseftirlitið leita aðstoðar Eftirlitsstofnunar EFTA við mótun og framkvæmd aðgerða vegna tillagna Ríkisendurskoðunar, en Samkeppniseftirlitinu er ætlað að tryggja einsleitni í framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

Upplýsingasíða

Í tilefni af skýrslunni hefur Samkeppniseftirlitið sett í loftið upplýsingasíðu þar sem skýrslan, verkáætlun eftirlitsins og annað ítarefni er aðgengilegt. Verður upplýsingasíðan uppfærð eftir því sem tilefni er til.