13.11.2025

Tilmæli um að starfsumhverfi einkarekinna og opinberra heilsugæslustöðva verði jafnað ítrekuð á ný - Mikilvægt að gripið verði til aðgerða

  • Sjukrakassi

Í október 2017 beindi Samkeppniseftirlitið tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins um að jafna starfsumhverfi  einkarekinna og opinberra heilsugæslustöðva. Tilefni tilmælanna voru athugasemdir sem höfðu borist frá einkareknum heilsugæslustöðvum um samkeppnislega mismunun. Í bréfinu var jafnframt fjallað um þær breytingar sem höfðu orðið á heilsugæslukerfinu á höfuðborgarsvæðinu og mikilvægi þess að notendur heilsugæslustöðva geti flutt sig á milli heilsugæslustöðva óháð rekstrarformi þeirra og þannig skapað hvata fyrir stöðvarnar til að bæta þjónustu, skilvirkni og hagkvæmni í kerfinu.

Í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun haustið 2021 þar sem kvartað var undan bágri rekstrarstöðu einkarekinna heilsugæslustöðva ítrekaði Samkeppniseftirlitið tilmælin við ráðuneytið og birti jafnframt fréttatilkynningu vegna málsins.

Samkeppniseftirlitinu hafa að undanförnu borist á ný ábendingar um að heilbrigðisyfirvöld hafi ekki brugðist með fullnægjandi hætti við tilmælunum. Af því tilefni leitaði Samkeppniseftirlitið sjónarmiða og upplýsinga frá bæði heilbrigðisráðuneytinu og einkareknum heilsugæslustöðvum. Með hjálögðu bréfi til aðila málsins ítrekar eftirlitið fyrri tilmæli sín og bendir á atriði sem stofnunin telur brýnt að tekin verði til athugunar af hálfu heilbrigðisyfirvalda.

Þannig liggur t.a.m. fyrir að rannsóknarkostnaður einkarekinna heilsugæslustöðva hjá Landspítala hefur verið töluvert hærri en opinberra stöðva fyrir sömu þjónustu. Eru flestar rannsóknir fyrir skjólstæðinga heilsugæslunnar framkvæmdar af rannsóknarsviði spítalans. Heilbrigðisyfirvöld hafa allt frá árinu 2017 sagt það til skoðunar að jafna stöðuna að þessu leyti en ekki hefur verið gripið til markvissra aðgerða. Önnur atriði sem Samkeppniseftirlitið bendir á eru m.a. vandamál tengd miðlægri þjónustu, sérnámi heimilislækna og kröfulýsingum og framfylgd við þær.

Nánar er hægt að lesa um efni tilmælanna hér.