3.11.2025

Upptaka af fundi um stefnumörkun í samkeppnismálum – Samkeppniseftirlitið 20 ára

Í tilefni af 20 ára afmæli Samkeppnieftirlitsins bauð stofnunin til opins fundar í Hörpu 22. október 2025 undir yfirskriftinni: Mikilvægi samkeppninnar - Hvað getum við lært af reynslunni og hvert skal stefna? Um 130 þátttakendur mættu í Hörpu auk þess sem viðburðinum var streymt beint hjá Heimildinni og mbl.is.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, flutti ávarp við setningu fundarins. Að því loknu tóku til máls:

  • Natalie Harsdorf, forstjóri samkeppniseftirlitsins í Austurríki, sem fjallaði um reynslu og áskoranir smárrar eftirlitsstofnunar í Mið-Evrópu,
  • Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, ræddi samspil íslenskra laga, EES-samningsins og opinberra fyrirtækja (kynning hér),
  • Tommaso Valletti, prófessor við Imperial College, fjallaði um samspil atvinnustefnu og samkeppnislaga og setti fram tillögur til íslenska samkeppniseftirlitsins (kynning hér).

Í framhaldi af erindum þeirra fóru fram pallborðsumræður. Fyrst ræddu fyrirlesararnir við Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, undir stjórn Höllu Gunnarsdóttur, formanns VR. Að því loknu tók við innlent pallborð þar sem umræðuefni frummælenda voru sett í íslenskt samhengi og stefnumörkun í því sambandi. Ólafur Stephensen stýrði þessum umræðum, en einnig tóku þátt Halla Gunnarsdóttir, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA og Breki Karlsson, auk Páls Gunnars.

Eva Ómarsdóttir, verkefnis- og teymisstjóri hjá Samkeppniseftirlitinu, var fundarstjóri.

Upptökuna af fundinum má finna hér að neðan.hér

Umfjöllunarefni fundarins voru m.a. eftirfarandi

  • reynslu af framkvæmd samkeppniseftirlits í Evrópu,
  • helstu áskoranir í baráttunni gegn samráði, misnotkun á markaðsráðandi stöðu og skaðlegum samrunum,
  • þýðingu samkeppnisreglna EES-samningsins,
  • leiðir til að efla samkeppni heima fyrir og jafnframt styrkja samkeppnishæfni erlendis,
  • tengsl samkeppni og atvinnustefnu.

Nokkur ummæli á fundinum

  • Hanna Katrín Friðriksson: „Samkeppniseftirlitinu er m.a. falið það hlutverk að benda öðrum stjórnvöldum á leiðir til að stuðla að virkari samkeppni og auðveldari aðgangi nýrra aðila að markaði. Þessu hlutverki tekur stofnunin alvarlega og sinnir af alúð.“
  • Natalie Harsdorf: „Smaller countries and economies have the most to benefit from a rule based economic organisation of markets.“
  • Páll Hreinsson: „Public authorites must be mindful of the competition rules as well. They are not immune to its effects.“
  • Tommaso Valletti: „But also I would like to argue that competition policy goes beyond prices and efficiency, beyond these kind of narrow and technical economic concepts, because it safeguards fairness and ultimately democracy.“

Nánari upplýsingar um þátttakendur

  • Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna. Hann er menntaður í viðskiptafræði og hefur starfað að málefnum neytenda í rúma tvo áratugi, m.a. sem framkvæmdastjóri samtakanna og formaður stjórnar evrópskra neytendasamtaka.
  • Eva Ómarsdóttir er verkefnis- og teymisstjóri hjá Samkeppniseftirlitinu og býr yfir langri reynslu af verkstjórn og rekstri samkeppnismála. Hún er lögfræðingur að mennt.
  • Halla Gunnarsdóttir er formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins. Hún er alþjóðastjórnmálafræðingur og kennari að mennt og hefur víðtæka reynslu af stjórnmálum, blaðamennsku og stefnumótun.
  • Hanna Katrín Friðriksson er atvinnuvegaráðherra og þingmaður Viðreisnar. Hún er menntuð í heimspeki, hagfræði og viðskiptafræði og hefur áunnið sér víðtæka reynslu á sviði stjórnmála, fjölmiðlunar og stjórnunarstarfa innan háskóla, heilbrigðisgeirans og einkageirans.
  • Natalie Harsdorf er forstjóri austurríska samkeppniseftirlitsins (Bundeswettbewerbsbehörde) og lögfræðingur með doktorspróf og LL.M. gráðu. Hún hefur starfað hjá stofnuninni frá árinu 2009 og gegnt þar lykilhlutverkum, auk þess að hafa sinnt fræðslu og alþjóðlegu samstarfi á sviði samkeppnisréttar.
  • Páll Hreinsson er forseti EFTA-dómstólsins frá árinu 2018. Hann er fyrrverandi hæstaréttardómari og prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, með sérhæfingu á sviði stjórnsýsluréttar og víðtæka reynslu af störfum innan dóms- og stjórnsýslukerfisins.
  • Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Hann býr yfir langri reynslu úr íslenskri stjórnsýslu. Hann er lögfræðingur að mennt.
  • Sigríður Margrét Oddsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og hefur víðtæka reynslu af stjórnunar- og hagsmunagæsluverkefnum fyrir atvinnulífið, m.a. sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í fjölmörgum félögum.
  • Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Hann er menntaður í stjórnmálafræði og á að baki áratuga reynslu úr fjölmiðlum sem blaðamaður og ritstjóri.
  • Tommaso Valletti er prófessor í hagfræði við Imperial College London og gegndi embætti aðalhagfræðings hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (DG COMP) á árunum 2016–2019. Hann hefur víðtæka reynslu á sviði samkeppnis- og atvinnuvegahagfræði og birt fjölmargar greinar í virtum alþjóðlegum fræðiritum.