10.10.2023

Yfirtaka Regins hf. á Eik fasteignafélagi hf. – óskað eftir sjónarmiðum

  • Reginn

Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar valfrjálst yfirtökutilboð Regins til hluthafa Eikar fasteignafélags. Fullnægjandi samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu 29. september síðastliðinn. Afrit samrunatilkynningar án trúnaðarupplýsinga má finna neðst í þessari grein.

Reginn og Eik eru fasteignafélög og snýr starfsemi þeirra fyrst og fremst að því að fjárfesta í, leigja út og annast rekstur atvinnuhúsnæðis, en félögin eiga fasteignir um allt land. Bæði félögin eru skráð á aðalmarkað Kauphallar Íslands.

Þeim sem þess óska er hér með boðið að koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum, svo sem um samrunann, möguleg samkeppnisleg áhrif hans, um þá markaði sem samruninn hefur áhrif á og hvort eða hversu virk samkeppni er fyrir atvinnuhúsnæði hérlendis, ásamt öðrum athugasemdum sem geta skipt máli fyrir rannsóknina.

Er óskað eftir að slík sjónarmið berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar en miðvikudaginn 1. nóvember á netfangið samkeppni@samkeppni.is merkt: „Sjónarmið vegna samruna Regins og Eikar“.

Þeir sem óska trúnaðar vegna umsagna, sjónarmiða eða ábendinga í þessu samhengi geta tekið slíkt fram í umsögn sinni eða tölvupósti.

Samrunatilkynning án trúnaðarupplýsinga með frekari upplýsingum um samrunann er aðgengileg hér.

Dagana 25. október til 1. nóvember 2023 sér rannsóknarfyrirtækið Prósent um að safna sjónarmiðum.
Við hvetjum þau sem hafa fengið tölvupóst frá Prósenti að taka þátt. Farið verður með öll svör sem trúnaðarmál. Nánari upplýsingar er að finna í persónuverndarstefnu Prósent. Samkeppniseftirlitið fer með svörin sem trúnaðarmál með þeim takmörkunum sem kann að leiða af rétti aðila stjórnsýslumáls til aðgangs að gögnum.