28.11.2024

Festi hf. viðurkennir brot og greiðir sekt

  • Umsogn-afurdastodvar

Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, er gerð grein fyrir sátt sem eftirlitið hefur gert við Festi hf. Í sáttinni viðurkennir fyrirtækið annars vegar brot á skuldbindingum í eldri sátt sem gerð var þegar N1 og Festi runnu saman og hins vegar brot á ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingagjöf við rannsókn Samkeppniseftirlitsins í sama samrunamáli. Fellst fyrirtækið á að greiða 750 milljónir kr. í sekt vegna þessara brota sem Samkeppniseftirlitið telur alvarleg.

Forsaga þessa máls er sú að í lok júlí 2018 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á samruna sem fólst í kaupum Festi (sem þá hét N1 hf.) á félaginu sem m.a. átti og rak dagvöruverslanir. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að samruninn myndi að óbreyttu raska samkeppni. Festi bauð hins vegar fram margvísleg skilyrði til að koma í veg fyrir hin samkeppnislegu vandamál og afstýra þannig ógildingu Samkeppniseftirlitsins.

Samrunamálinu lauk með því að Festi undirritaði þann 30. júlí 2018 sátt þar sem fyrirtækið skuldbatt sig til þess að hlíta ýmsum skilyrðum til þess að verja samkeppni á dagvöru- og eldsneytismörkuðum. Að tillögu Festi var skipaður sérstakur eftirlitsaðili („óháður kunnáttumaður“) til þess að tryggja það að fyrirtækið myndi fara að þessum skilyrðum.

Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á mögulegum brotum á sáttinni í kjölfar þess þess að óháði kunnáttumaðurinn hafði í samræmi við hlutverk sitt vakið athygli á mögulegum brotum, jafnframt því sem aðilar á markaði höfðu komið á framfæri kvörtunum og ábendingum. Er þessari rannsókn nú lokið með viðurkenningu Festi á brotum og greiðslu sekta.

Brotin

Brot Festi á sáttinni eru alvarleg að mati Samkeppniseftirlitsins. Þau fóru gegn markmiðum og efni sáttarinnar frá 30. júlí 2018 sem ætlað var að afstýra því að umræddur samruni myndi raska samkeppni. Brot Festi á skuldbindingum fyrirtækisins samkvæmt sáttinni frá 2018 eru nánar tiltekið þessi:

  • Brot á skilyrðum sem átti að vernda og efla samkeppni á eldsneytismarkaði, og sett voru til þess að tryggja aðgengi að eldsneyti í heildsölu og innkomu nýs keppinautar, m.a. í stað samkeppni sem fyrri eigandi Krónunnar hafði undirbúið;
  • Brot á skilyrði sem ætlað var að vernda og efla samkeppni á dagvörumarkaði vegna samþjöppunar á markaðnum og samþættingar dagvara og eldsneytis sem mátti rekja til samrunans;
  • Brot á skilyrði er varðaði endurskoðun á samstarfi og samningi við keppinaut á dagvörumarkaði;
  •  Brot gegn skyldu Festi að veita óháðum kunnáttumanni nauðsynlegar og upplýsingar og aðstoð og hindrað hann þannig í eftirliti sínu.

Festi hefur jafnframt viðurkennt brot gegn ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingaskyldu í tengslum við rannsókn Samkeppniseftirlitsins á árinu 2018 á framangreindum samruna. Fólust brot Festi að þessu leyti annars vegar í því að veita ekki tímanlega nauðsynleg og fullnægjandi gögn um mögulega innkomu á eldsneytismarkað og hins vegar í því að gera Samkeppniseftirlitinu ekki fullnægjandi grein fyrir sjónarmiðum félagsins við gerð sáttarinnar frá 30. júlí 2018. Að mati Samkeppniseftirlitsins voru þessi brot einnig alvarleg.

Um sektir

Varðandi sekt Festi hefur Samkeppniseftirlitið horft til þess að í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 5/2011, Forlagið hf. gegn Samkeppniseftirlitinu, var tekið fram að „mjög brýnt“ sé að fyrirtæki „virði skilyrði fyrir samruna og að treysta megi því að sáttir í slíkum málum séu meira en orðin tóm. Þess vegna þurfa viðurlög að hafa raunveruleg varnaðaráhrif.“ Benti áfrýjunarnefnd einnig á að það sé mikilvægt að aðilar að samrunamálum taki „alvarlega þau skilyrði sem sett eru fyrir samruna, ekki síður í ljósi þess að þeir taka sjálfir þátt í mótun skilyrðanna og meta síðan hagsmuni sína út frá þeim.“ Það er því afar þýðingarmikið að fyrirtæki fari að þeim skilyrðum sem þau undirgangast í sáttum við Samkeppniseftirlitið. Fyrirtæki sem fallast sjálf á slík skilyrði eiga að halda þau í heiðri og leitast sérstaklega við að markmið þeirra nái fram að ganga.

Einnig er mikilvægt að samrunaaðilar veiti Samkeppniseftirlitinu réttar og fullnægjandi upplýsingar í samskiptum sínum við Samkeppniseftirlitið við rannsókn samrunamála. Ella er með alvarlegum hætti unnið gegn skilvirkri rannsókn á samkeppnislegum áhrifum samruna. Sökum þessa hvatti Ríkisendurskoðun Samkeppniseftirlitið í skýrslu frá júlí 2022 til að grípa til markvissra aðgerða vegna villandi og rangrar upplýsingagjafar í samrunamálum. Þyrfti eftirlitið „að bregðast við af festu og taka af allan vafa um að stjórnvaldssektum verði beitt við vísvitandi villandi eða rangri upplýsingagjöf.“

Samkeppniseftirlitið hefur einnig tekið tillit til þess að Festi óskaði að eigin frumkvæði eftir sáttarviðræðum og hafa með skýrum hætti viðurkennt framangreind brot. Með þessu hefur Festi auðveldað og stytt rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda sem hefur jákvæð samkeppnisleg áhrif. Leiðir þetta til lægri sekta en ella.

Taldi Samkeppniseftirlitið hæfilegt að Festi greiddi 750.000.000 króna í stjórnvaldssekt og hefur fyrirtækið fallist á það.