14.2.2022

Framkvæmdastjórn ESB samþykkir samruna Facebook og Kustomer með skilyrðum – hefur áhrif á Íslandi

  • Fb

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti á dögunum yfirtöku Meta, móðurfélags Facebook, á bandaríska fyrirtækinu Kustomer. Framkvæmdastjórnin setti samrunanum þó skilyrði sem Meta hefur skuldbundið sig til að tryggja. Kustomer er lítið félag á bandarískan mælikvarða en í örum vexti. Fyrirtækið sérhæfir sig í hugbúnaðargerð fyrir stjórnun viðskiptatengsla eða CRM (Customer Relationship Management).

Íslensk samkeppnisyfirvöld voru hluti af meðferð og rannsókn málsins, en þau sendu beiðni til framkvæmdastjórnarinnar um að hið síðarnefnda tæki samrunann til formlegrar rannsóknar. Samandregið þýðir það að framkvæmdastjórn ESB tók til rannsóknar þau hugsanlegu áhrif sem samruninn gæti haft á íslenska markaði og aðstæður á þeim. Samkeppniseftirlitið á í ítarlegu og góðu samstarfi við önnur evrópsk samkeppnisyfirvöld, og er rannsókn á samruna Facebook og Kustomer dæmi um samspil samkeppnisyfirvalda í Evrópu.

Bregðast við samkeppnislegri ógn

Í kjölfar beiðna nokkurra samkeppnisyfirvalda í Evrópu hóf framkvæmdastjórn ESB svo ítarlega rannsókn á samrunanum 2. ágúst 2021. CRM-hugbúnaður er gjarnan tengdur við samfélags- og samskiptamiðla en það er einmitt þjónustan sem Kustomer býður upp á, það er að draga saman ýmsar samskiptaleiðir fyrirtækja og viðskiptavina í eitt verkfæri. Meta á nokkur af vinsælustu samskiptaforritum heims á borð við Messenger, WhatsApp og Instagram. Áhyggjur framkvæmdastjórnarinnar lutu einna helst að mögulegu heftu aðgengi keppinauta Kustomer að forritunarviðmótum (e. API) og vefþjónustum þessara vinsælu forrita í kjölfar samrunans.

Til að bregðast við áhyggjum framkvæmdastjórnarinnar lagði Meta til eftirfarandi skilyrði:

  1. Að Meta skuldbindi sig til að halda aðgengi að forritunarviðmótum samskiptaforrita sinna, sem eru þegar opinberlega aðgengileg, óheftu og án greiðslu. Þetta á bæði við um núverandi keppinauta Kostumer og þá sem kunna að koma nýir inn á markaðinn.
  2. Að því marki sem hægt er að uppfæra, bæta og þróa virkni og eiginleika Messenger, Instagram-skilaboða og WhatsApp sem eru í dag notuð af viðskiptavinum Kostumer, skuldbindur Meta sig til þess að gera slíkar uppfærslur aðgengilegar til keppinauta Kostumer og mögulegra nýrra aðila á markaði.

Sérstakur kunnáttumaður (e. trustee) verður fenginn til þess að fylgjast með innleiðingu skilyrðanna. Sá verður með víðtækar heimildir og hefur aðgengi að öllum gögnum Meta, starfsfólki fyrirtækisins, starfsstöðvum og tækniupplýsingum. Að auki getur kunnáttumaðurinn ráðið sérfræðing á vissum tæknilegum sviðum sé þess þörf. Það er mat framkvæmdastjórnarinnar að samkeppnislegum ógnum samrunans sé eytt verði skilyrðin uppfyllt.

Daninn Margrethe Vestager, varaforseti ESB og yfirmaður samkeppnismála, segir mikilvægt að fylgjast vel stóru fyrirtækjunum í tæknigeiranum:

„Við þurfum að fylgjast sérstaklega vel með öllum aðgerðum stóru fyrirtækjanna í tæknigeiranum sem eigna sér sífellt stærri hluta af kökunni í hinu stafræna hagkerfi, burtséð frá stærð fyrirtækisins sem er yfirtekið. Ákvörðun okkar í þessu máli tryggir að keppinautar og ný fyrirtæki á markaði fyrir stjórnun viðskiptatengsla geti áfram keppt í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Þær skuldbindingar sem Meta hefur gengist undir tryggja áframhaldandi ókeypis og sambærilegan aðgang að hinum mikilvægu samskiptaleiðum í eigu Meta.“

Hér má nálgast frétt framkvæmdastjórnarinnar um niðurstöðu málsins.