9.11.2021

Hlutverk virkrar samkeppni í aðgerðum gegn hlýnun jarðar

  • Jokull

Á ráðstefnu danska samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál sem fram fór í Kaupmannahöfn á dögunum fjallaði Daninn Margrethe Vestager, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, um þýðingu virkrar samkeppni í þeim umfangsmiklu aðgerðum sem fram undan eru til þess að draga úr hlýnun jarðar. Vestager sagði meðal annars að ekki væri óeðlilegt að upp kæmu sjónarmið um að nú þurfi fremur að efla samvinnu en samkeppni.

Slík sjónarmið fælu hins vegar í sér alvarlegan misskilning á eðli virkrar samkeppni. Virk samkeppni muni hjálpa okkur að ná sameiginlegum markmiðum, auka nýsköpun og tryggja að fyrirtæki starfi í þágu okkar allra, ekki bara í þágu þeirra sjálfra.

„Ég held að það sé ekkert of djúpt í árinni tekið að tala um þessi grænu og stafrænu umskipti sem friðarverkefni okkar kynslóðar. Líkt og stofnendur Evrópusambandsins vissu, vitum við að það er engin framtíð án þess að við umturnum því hvernig við gerum hlutina. Og í því felst gríðarleg vinna við að virkja allt samfélagið. Það er aðkallandi að Evrópa og í raun allur heimurinn, vinni saman í því að skapa þá nýju veröld sem við viljum,“ sagði Vestager í ræðu sinni en hún gegnir jafnframt formennsku í samkeppnisnefnd framkvæmdastjórnar ESB. 

Er kominn tími til að leggja samkeppni til hliðar?

Vestager ræddi hlutverk virkrar samkeppni í baráttunni gegn loftslagsvánni og velti upp spurningum sem margir kunni að spurja sig. 

„Það þarf því varla að koma á óvart að erfiðar spurningar vakni um það hvar samkeppni passi eiginlega inn í þessa jöfnu. Það ætti ekki að koma á óvart að fólk spyrji sig hvort nú sé ekki tími til kominn að leggja samkeppni til hliðar og byrja að vinna saman í staðinn,“ sagði Vestager en bætti við. 

„En þessi spurning kjarnar alvarlegan misskilning á eðli samkeppni. Það kann að vera að í orðabókinni séu samvinna og samkeppni andstæður. En í heiminum sem við búum í hjálpar samkeppni okkur að ná sameiginlegum markmiðum. Samkeppni stuðlar að betri nýtingu auðlinda sem er neytendum, atvinnulífi og samfélaginu í heild í hag. Hún stuðlar að nýsköpun, bæði þegar kemur að vörum og þjónustu. Og hún stuðlar að því að fyrirtæki starfi þannig að það sé okkur öllum í hag, ekki bara fyrirtækjunum sjálfum.“ 

2vestager02

Fyrirtæki og heimili ættu ekki líka að gjalda fyrir veika samkeppni

Vestager sagði jafnframt í ræðu sinni að mikilvægt væri að heimili og fyrirtæki þyrftu ekki að líða fyrir veika samkeppni, sérstaklega á tímum heimsfaraldurs. 

„Á stundum sem þessum, þegar fyrirtæki og heimili sjá fram á aukin útgjöld við það að aðlagast þessari grænu og stafrænu framtíð, ættu þau ekki líka að þurfa að gjalda fyrir veika samkeppni. Nú þegar hefur verið seilst djúpt í vasa skattgreiðenda í viðspyrnuaðgerðum. Fyrirtækin sem fá þá peninga ættu ekki að taka meira en þau þurfa,“ sagði Vestager, en ræðu hennar í heild má nálgast hér