23.10.2025

Í tilefni af fyrirspurnum fjölmiðla

  • Reginn

Embætti héraðssaksóknara framkvæmdi í dag húsleitir og aðrar aðgerðir til þess að afla gagna og upplýsinga vegna ætlaðra brota tveggja fyrirtækja á markaði fyrir úrgangsþjónustu á samkeppnislögum. Rannsóknin beinist að ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna og grundvallast á kæru Samkeppniseftirlitsins.

Samhliða rannsókn embættis héraðssaksóknara á ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna hefur Samkeppniseftirlitið til rannsóknar hugsanleg brot hlutaðeigandi fyrirtækja á banni 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 við samráði keppinauta um m.a. gerð tilboða í útboðum og skiptingu markaða.

Framangreindar aðgerðir embættis héraðssaksóknara voru framkvæmdar í samvinnu við Samkeppniseftirlitið, en ákvæði 42. gr. samkeppnislaga heimila samvinnu og miðlun upplýsinga milli embættis héraðssaksóknara og Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið veitir ekki frekari upplýsingar á þessu stigi.

Bakgrunnsupplýsingar:

Samkvæmt 41. gr. a samkeppnislaga nr. 44/2005 varðar það starfsmenn fyrirtækja sektum eða fangelsi allt að sex árum ef þeir framkvæma, hvetja til eða láta framkvæma samráð milli keppinauta. Sæta brotin rannsókn lögreglu að undangenginni rannsókn Samkeppniseftirlitsins.

Samkvæmt 37. gr. samkeppnislaga varðar það fyrirtæki stjórnvaldssektum að brjóta gegn samkeppnislögum, þ.á m. banni 10. gr. við ólögmætu samráði.

Varði meint brot á samkeppnislögum bæði stjórnvaldssektum gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum refsingu, metur Samkeppniseftirlitið með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort sá hluti málsins sem varðar refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu, sbr. 42. gr. samkeppnislaga.

Samkvæmt 4. og 5. mgr. 42. gr. samkeppnislaga er Samkeppniseftirlitinu heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn og taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn umræddra brota. Jafnframt er lögreglu og ákæruvaldi heimilt að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast þeim brotum á lögunum.