26.8.2025

Missagnir í opinberri umfjöllun Landvirkjunar leiðréttar

  • Raflinur1

Í framhaldi af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 29/2025, Ólögmætur verðþrýstingur Landsvirkjunar á raforkumarkaði, birti forstjóri Landsvirkjunar grein á heimasíðu fyrirtækisins þann 22. ágúst sl., undir fyrirsögninni „Afstaða Samkeppniseftirlitsins dýr fyrir neytendur.“ Í greininni er ekki farið rétt með tiltekin lykilatriði málsins. Í þágu upplýstrar umræðu er því óhjákvæmilegt að koma eftirfarandi á framfæri:

1) Samkeppniseftirlitið hefur á engu stigi gert Landsvirkjun að hætta þátttöku í útboðum Landsnets

Í greininni er því haldið fram að Landsvirkjun hafi verið „...gert að hætta að taka þátt í útboðum...“ og að „...vegna aðgerða Samkeppniseftirlitsins...“ hafi notendur þurft að greiða „...1.300 m.kr. aukalega...“

Á engu stigi málsins lagði Samkeppniseftirlitið fyrir Landsvirkjun að hætta þátttöku í útboðunum. Í viðræðum um mögulega sátt í málinu var þetta áréttað.

Á hinn bóginn er það skýrt að verðlagning Landsvirkjunar þarf að vera í samræmi við þær skyldur sem hvíla á fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu. Um það fjallar ákvörðunin. Hafi notendur rafmagns orðið fyrir tjóni vegna ákvörðunar Landsvirkjunar um að taka ekki þátt í útboðum Landsnets ber fyrirtækið sjálft ábyrgð á því.

Samkeppniseftirlitið leitaði skýringa hjá Landsvirkjun á framangreindum ummælum, með tölvupósti til lögmanns fyrirtækisins þann 22. ágúst sl., en svör hafa ekki borist.

2) Ekki er rétt farið með efni sáttarviðræðna

Í grein forstjóra Landsvirkjunar er því haldið fram að sáttarviðræður við Samkeppniseftirlitið hafi gengið út á að „...Landsvirkjun væri að sjálfsögðu tilbúin að fylgja leiðbeiningum þess og laga sig að þeim skilgreiningum sem það setti fram.“ Síðan segir: „Þó kom aldrei til greina að samþykkja sektargreiðslu, enda voru að okkar mati engin lög brotin.“

Hér er ekki rétt með farið. Aldrei er stofnað til sáttarviðræðna við Samkeppniseftirlitið í þeim tilgangi einum að setja fram leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd samkeppnislaga. Við upphaf umræddra sáttarviðræðna undirritaði forstjóri Landsvirkjunar yfirlýsingu þar sem hann staðfestir að fyrirtækið óski eftir viðræðum um sátt og að efni þeirra viðræðna lúti að mögulegri viðurkenningu brots, mögulegri stjórnvaldssekt og mögulegum aðgerðum til að efla samkeppni.

Í viðræðunum var fjallað um öll framangreind atriði, en þeim lauk án niðurstöðu.

Hafi Landsvirkjun hins vegar óskað viðræðna í þeim tilgangi einum að leita leiðbeininga gengur það gegn fyrrgreindri yfirlýsingu. Í því felst jafnframt að Samkeppniseftirlitið hafi verið blekkt til að fallast á viðræður.

3) Um „milliliði“ – ekki rétt farið með inntak ákvörðunarinnar

Greinarhöfundur virðist telja að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins byggi „...á þeim (mis)skilningi að samkeppnislögum sé ætlað að vernda milliliði sem áframselja vöru sem þeir framleiða ekki sjálfir, með álagningu, þannig að kaupandinn greiðir hærra verð en ella.“

Vegna þessa er óhjákvæmilegt að minna á að brot Landsvirkjunar hafði ekki aðeins áhrif á þá keppinauta sem einvörðungu stunda raforkusölu, heldur einnig þá sem stunda bæði framleiðslu og sölu, en kaupa jafnframt rafmagn frá Landsvirkjun til að geta starfað á viðkomandi mörkuðum. Þannig stundar annar af tveimur kvartendum í málinu bæði framleiðslu og sölu á rafmagni.

Þess utan er viðurkennt í evrópskum samkeppnisrétti að starfsemi raforkusala án framleiðslu sé mikilvæg fyrir samkeppni og framþróun á raforkumörkuðum. Þá eru svokallaðir milliliðir (t.d. heildsalar eða smásalar) starfandi á flestum mörkuðum og hafa þar mikilvægu hlutverki að gegna. Nefna má dagvörumarkaði, fjarskiptamarkaði, bankamarkaði o.fl.

Hafa ber í huga að Landsvirkjun hefur yfirburði yfir aðra keppinauta í framleiðslu á Íslandi. Sé verðþrýstingur fyrirtækis með slíka stöðu látinn óátalinn, eru litlar líkur á að virk samkeppni nái fótfestu á raforkumörkuðum. Til lengri tíma hafa almenningur og fyrirtæki ótvíræða hagsmuni af því að samkeppni sé vernduð og að komið sé í veg fyrir að markaðsráðandi fyrirtæki leggi stein í götu smærri keppinauta.

4) Ólögmætur verðþrýstingur Landsvirkjunar verður ekki réttlættur með sjónarmiðum um raforkuöryggi

Í greininni er sagt að Samkeppniseftirlitið hafi „ítrekað gagnrýnt Landsvirkjun fyrir að blanda orkuöryggi inn í umræðuna um viðskipti með flutningstöp því það sé ekki okkar hlutverk.“

Hér er ekki rétt með farið. Engin lagaskylda hvílir ekki á Landvirkjun að tryggja fullnægjandi raforkuframboð. Um þetta er enginn ágreiningur. Þá hefur Samkeppniseftirlitið ekki gert athugasemdir við að Landsvirkjun hugi að raforkuöryggi í starfi sínu. Í málinu var hins vegar tekið til skoðunar hvort sjónarmið um raforkuöryggi gætu réttlætt verðlagningu Landsvirkjunar. Komist er að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki, enda var enginn skortur á framboði rafmagns á rannsóknartímabilinu. Tók Landsvirkjun raunar ekki þátt í öllum útboðum á tímabilinu og hætti í framhaldi þátttöku, án þess að kerfishrun hafi átt sér stað.

5) Landsvirkjun hafði í samkeppnisréttaráætlun frá árinu 2016 komið auga á að sala rafmagns vegna flutningatapa gæti talist sérstakur markaður og að Landsvirkjun væri markaðsráðandi á honum

Í greininni er fullyrt að markaður fyrir flutningstöp hafi aldrei verið skilgreindur hérlendis og að Samkeppniseftirlitið hafi á endanum komist að þeirri niðurstöðu að hann væri á smásölustigi.

Samkvæmt innanhússgögnum hafði Landsvirkjun sjálf komið auga á að samkeppnisyfirvöld væru líkleg til að skilgreina sölu vegna flutningatapa sem sérstakan aðgreindan markað, í þeim tilvikum sem háttsemi aðila varðar hlutaðeigandi þjónustuþátt. Jafnframt væri líklegt að samkeppnisyfirvöld teldu að Landsvirkjun væri markaðsráðandi á þeim markaði. Kemur þetta fram í samkeppnisréttaráætlun Landvirkjunar frá árinu 2016, en fjallað er um þetta í málsgrein 191 í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Aðalatriði málsins er að markaður fyrir flutningstöp er sérstakur markaður og Landsvirkjun bar að haga verðlagningu sinni á markaðnum þannig að hún skaðaði ekki samkeppni sem þar átti sér stað. Samkeppnisréttaráætlun fyrirtækisins, sem gerð var áður en hið rannsakaða brotatímabil hófst, bendir til þess að Landsvirkjun hafi gert sér grein fyrir stöðu sinni og skyldum að þessu leyti.