12.2.2019

Morgunverðarfundur um samkeppnisumhverfi fjármálakerfisins

Í morgun stóð Fjármálaeftirlitið fyrir vel sóttum fundi um samkeppnisumhverfi fjármálakerfisins. Framsögumenn voru Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman og einn höfunda Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Þá tók Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, þátt í umræðum í pallborði.

Í máli sínu lagði Páll Gunnar áherslu á mikilvægi virkrar samkeppni á fjármálamarkaði. Virk samkeppni stuðli ekki einvörðungu á lægra verði og betri þjónustu, heldur væri hún forsenda nýsköpunar og besti jarðvegur hagræðingar sem völ væri á. Þá væri sífellt breiðari samstaða um að virk samkeppni styddi við fjármálastöðugleika. Af þessum sökum bæri að fagna tillögum Hvítbókarnefndar um að setja í lög ákvæði um að FME hafi hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum í starfi sínu.

Einnig fjallaði Páll Gunnar um mikilvægi þess að örva aðhald viðskiptamanna með bönkunum og rifjaði upp aðgerðir Samkeppniseftirlitsins sem miða að þessu. Jafnframt benti Páll á mikilvægi þess að greiða fyrir samkeppni sem stafaði frá fjártæknifyrirtækjum. Mikilvægt væri að íslenskri bankar brygðust fremur við mögulegri aukinni samkeppni fjártæknifyrirtækja með því að sækja fram á grundvelli nýrra aðferða, fremur en að reyna að vinna gegn því að þessi nýja tegund samkeppni á fjármálamarkaði nái fótfestu.

Þá fór Páll yfir mögulegt aukið samstarf bankanna í innviðum. Sýna þurfi fram á að ábati sem af samstarfi hlytist myndi skila sér til viðskiptamanna og samfélagsins, en ekki renna óskiptur til bankanna og eigenda þeirra.

Sjónarmið eftirlitsins til Hvítbókarnefndarinnar:

Samkeppniseftirlitið skilaði síðasta sumar ítarlegum sjónarmiðum til Hvítbókarnefndarinnar, að beiðni hennar. Umfjöllun eftirlitsins er birt í viðauka við skýrslu nefndarinnar, en er einnig aðgengileg hér .