5.9.2022

Samruni á laxeldismarkaði áfram til rannsóknar – óskað eftir sjónarmiðum

  • Vestfirdir

Með samrunatilkynningu þann 22. júlí síðastliðinn var tilkynnt hér á landi með fullnægjandi hætti um öflun yfirráða SalMar ASA á NTS ASA á laxeldismarkaði. Sá samruni leiðir til þess að keppinautarnir Arnarlax og Arctic Fish, sem stunda sjókvíaeldi á Vestfjörðum, verða undir yfirráðum sama aðila.

Við rannsókn málsins hefur Samkeppniseftirlitið aflað sjónarmiða og upplýsinga frá markaðs - og hagaðilum. Gefur rannsóknin meðal annars tilefni til þess að ætla að markaðshlutdeild aðila á líklegum mörkuðum málsins verði töluverð. Að mati Samkeppniseftirlitsins er nauðsynlegt að virkja frekari fresti til rannsóknar málsins, meðal annars með það að markmiði að athuga nánar möguleg skaðleg áhrif samrunans og/eða aðgangshindranir.

Hefur samrunaaðilum því verið tilkynnt um að ástæða sé til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans, sem oft er nefnt fasi tvö í samrunaeftirliti.

Samruni þessi er ekki bundin við Ísland heldur hefur hann einnig verið tilkynntur til norskra samkeppnisyfirvalda og framkvæmdastjórnar ESB. Norsk samkeppnisyfirvöld hafa tilkynnt að þau muni ekki aðhafast vegna samrunans, sökum takmarkaðra áhrifa samrunans í Noregi, en framkvæmdastjórn ESB er áfram með samrunann til skoðunar.

Mál þetta varðar skipulag laxeldismarkaðar á Íslandi til framtíðar. Í því ljósi er þeim sem þess kjósa gefið færi á koma að skriflegum sjónarmiðum sem skipt geta máli við rannsókn málsins.

Er óskað eftir að slík sjónarmið berist eftirlitinu fyrir 16. september næstkomandi á netfangið samkeppni@samkeppni.is.