7.11.2023

Samruni EY og Deloitte – ný tilkynning og undanþága til að framkvæma samruna

  • Untitled-design-2023-11-07T122033.432

Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar kaup Deloitte á eignum og rekstri Ernst & Young (EY) á Íslandi. Málið hófst með forviðræðum og fyrirtækin skiluðu inn samrunatilkynningu 25. ágúst síðastliðinn.

Þann 30. október tilkynntu Deloitte og EY að fyrirtækin hefðu afturkallað samrunaskrá sína þar sem mikilvægar upplýsingar skorti. Samhliða var tilkynnt aftur um samrunann og sömu viðskipti með nýrri samrunatilkynningu, nú að teknu tilliti til breyttrar samkeppnisstöðu EY, einkum í tengslum við aðild og samstarf félagsins við EY erlendis. Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt fyrirtækjunum að hin nýja samrunaskrá sé fullnægjandi og nýr tímafrestur á fyrsta fasa rannsóknar sé 4. desember næstkomandi. Vefur SE og listi yfir samrunamál hefur verið uppfærður til samræmis við framangreint.

Samtímis hafa fyrirtækin nú óskað eftir undanþágu frá banni við að framkvæma samrunann meðan hann er til rannsóknar. Að virtum sjónarmiðum aðila, fyrirliggjandi upplýsingum, og gögnum um áðurnefndar breytingar á samkeppnisstöðu EY á sennilegum markaði fyrir endurskoðun stærri fyrirtækja, er það mat Samkeppniseftirlitsins að skilyrði undanþágu séu uppfyllt, sbr. 4. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga. Hefur Samkeppniseftirlitið því veitt Deloitte og EY heimild til þess að framkvæma samrunann meðan fjallað er um hann, með skilyrðum.

Nánari upplýsingar um samrunamálið og málsmeðferðina verður hægt að nálgast síðar í stjórnvaldsákvörðun þegar hún liggur fyrir. Samkeppniseftirlitið mun kappkosta við að rannsaka og afgreiða nýja samrunatilkynningu eins hratt og kostur er.