30.10.2020

Símanum gert að greiða bætur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Símann hf. til að greiða 111 milljónir króna í skaðabætur, auk kostnaðar, til fyrirtækjanna Tölvunar ehf., Snerpu ehf. og Hringiðjunnar ehf. en fyrirtækin stefndu Símanum fyrir að hafa valdið þeim tjóni á markaði fyrir Internetþjónustu á árunum 2005-2007.

Er málið rakið til ársins 2012 þegar Samkeppniseftirlitið sendi Símanum andmælaskjal um ætlaða misnotkun á markaðsráðandi stöðu á fjarskiptamarkaði. Var málinu lokið síðar með sátt sem Síminn gerði við Samkeppniseftirlitið, sbr. ákvörðun nr. 6/2013 ( nú ákvörðun nr. 6/2015 ), sem fól í sér umfangsmiklar breytingar á skipulagi Símasamstæðunnar og aðrar aðgerðir til þess að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Eftir sáttina stefndu Hringiðan, Snerpa og Tölvun Símanum til greiðslu skaðabóta á grundvelli andmælaskjals Samkeppniseftirlitsins. Er það niðurstaða héraðsdóms að umrædd fyrirtæki hafi orðið fyrir tjóni og var Símanum gert að greiða 111 milljónir króna í bætur eins og áður segir.