17.11.2023

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísar kæru Hreyfils frá

  • Taxi-1-

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur vísað kæru Hreyfils á hendur Samkeppniseftirlitinu frá. Kæra Hreyfils sneri að bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins að Hreyfli sé óheimilt að banna eða hamla leigubifreiðastjórum sem eru í þjónustu Hreyfils, að nýta sér jafnframt þjónustu annarra leigubifreiðastöðva. Segir í úrskurðinum að ákvörðunin hafi það í för með sér „...að leigubifreiðastjórum sem starfa í þjónustu Hreyfils, er í sjálfsvald sett hvernig þeir nýta sitt rekstrarleyfi meðan ákvörðunin varir.“

Hins vegar felldi nefndin úr gildi fyrirmæli Samkeppniseftirlitsins þess efnis að Hreyfill geri nauðsynlegar breytingar á reglum og samþykktum sínum sem kveða á um banni við því að leigubifreiðastjórar í þjónustu áfrýjanda nýti sér jafnframt þjónustu annarra leigubifreiðastöðva. Segir í úrskurðinum að slíkar breytingar séu ekki nauðsynlegar vegna þess banns sem felst í umræddri bráðabirgðaákvörðun og hafi yfirbragð endanlegrar ákvörðunar í skilningi stjórnsýslulaga. Af þeim sökum fellir áfrýjunarnefndin þann hluta ákvörðunarinnar úr gildi.

Bakgrunnsupplýsingar

Bráðabirgðaákvörðun er tímabundið úrræði sem Samkeppniseftirlitið hefur heimild til að beita, sbr. 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, á meðan stjórnsýslumál er til meðferðar hjá viðkomandi stjórnvaldi og áður en slíkt mál hefur verið til lykta leitt. Í umræddri bráðabirgðaákvörðun taldi Samkeppniseftirlitið að háttsemi Hreyfils grundvallaðist hvorki á málefnalegum né hlutlægum forsendum. Háttsemi Hreyfils hefði verið til þess fallin að hindra innkomu nýs keppinautar á markaðinn neytendum til tjóns ásamt því að viðhalda þeim takmörkunum, gagnvart meirihluta leigubifreiðastjóra, sem ný lög um leigubifreiðaakstur áttu að uppræta.

Taldi Samkeppniseftirlitið því sennilegt að háttsemi Hreyfils fæli í sér brot gegn bannákvæðum samkeppnislaga og að skilyrði til töku ákvörðunar til bráðabirgða væru uppfyllt.